Héðinn Valdimarsson snýr aftur á stall sinn fimm árum síðar

Styttan af Héðni Valdimarssyni við gömlu verkamannabústaðina við Hringbraut var loks sett á stall sinn í morgun, fimm árum eftir að hún var tekin niður og sett í viðgerð. Þennan tíma hefur tómur stallurinn verið eins og minnismerki um aðgerðarleysi stjórnvalda í húsnæðismálum, en styttan af Héðni var reist til að minnast forgöngu hans um verkamannabústaðirnir voru reistir, góðar og nútímalegar íbúðir sem verkalýðurinn gat keypt fyrir skaplegt verð á góðum kjörum.

Styttan var tekin niður árið 2018 og send til viðgerða. Nýr stallur var steyptur fyrir nokkrum árum og beið styttunnar tómur.

Það er Húsfélag Alþýðu sem á styttuna, ein af leyfunum af félagslegri uppbyggingu alþýðunnar á síðustu öld þegar almenningur byggði upp byggingafélög, kaupfélög, banka, fjölmiðla og hvað eina, meira að segja brauðgerð. Verkamannabústaðirnir voru hins vegar einkavæddir á tímum nýfrjálshyggjustjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Kerfið var þannig að fólk fékk að kaupa íbúðir á skaplegu verði með viðunandi greiðslubyrði en seldi íbúðirnar síðan aftur inn í kerfið fyrir verðbætta þá upphæð sem það hafði greitt fyrir hana. Þetta kerfi var eyðilagt fyrst með því að rukka fólk fyrir allskyns aukakostnað sem lækkaði söluverðið og þegar kerfið varð óvinsælt af þessum sökum var fólki gert frjálst að selja út úr kerfinu. Við það lögðust verkamannabústaðirnir af, líklega mikilvægasta stofnun landsins til að mæta húsnæðisþörf hinna tekjulægri. Í dag hefur tekjulágt fólk engan kost á að kaupa sér íbúð. Verðið er rokið upp úr öllu valdi vegna okurs verktaka, skorts á íbúðum, hárra vaxta og þrengingu skilyrða fyrir lánshæfi.

Um styttuna segir í Íslenskri myndlist eftir Björn Th. Björnsson: „Við suðvesturhorn leikvallar er snýr að Hringbraut Um svipað leyti og Sigurjón Ólafsson vann að minnismerki sr. Friðriks Friðrikssonar við Lækjargötu tók hann að sér að gera standmynd af Héðni Valdimarssyni (1892–1948), alþingismanni og formanni Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Standmyndin var gerð fyrir Byggingarfélag alþýðu og er enn í eigu húsfélags alþýðu, en á sínum tíma var Héðinn einn helsti forystumaður byggingarsamtaka verkamanna. Haustið 1953 var afsteypa af styttunni, sem gerð var hjá málmsteypu Lauritz Rasmussen í Kaupmannahöfn, komin til landsins og þá sótti Byggingarfélag alþýðu um að fá að setja hana upp í nánd við verkamannabústaðina við Hringbraut. Styttan var sett upp í október 1955 en Sigurjón var þá búsettur í Danmörku. Björn Th. Björnsson segir í listasögu sinni að það hafi verið ásetningur Sigurjóns að fanga ekki aðeins „líking“ Héðins, heldur „engu síður hið gustmikla fas“ hins öfluga stjórnmálaskörungs og verkalýðsfrömuðar. Um leið vildi hann myndgera hugmyndina um leiðtoga sem ávallt er fastur fyrir. Að sögn Björns Th. Björnssonar sýnir Sigurjón Héðinn „í hita baráttu en köldum næðingi útifundar. Föt hans eru laus, vindurinn sveiflar til frakkalafi hans; annarri hendinni heldur hann niður með síðunni, en í henni hefur hann minnisblað.“

Myndir Guðmundur Hrafn Arngrímsson.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí