Heimur í krísu: Norðrið mætir Suðrinu á Allsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna

Leiðtogar heims mættu til leiks á Allsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna í New York í liðinni viku. Yfirskrift þingsins í ár var að endurreisa traust og endurvekja alþjóðlega samstöðu en háleitar ræður opinberuðu helst það ósætti sem ríkir í alþjóðasamfélaginu og þá gjá sem hefur myndast milli Vesturlanda og annarra ríkja. Neikvæð áhrif hamfarahlýnunnar bar hæst á góma. 

Flestir leiðtogar viðurkenndu að heimurinn er langt frá því að vera á réttri braut. Einungis fimmtán prósent af Sjálfbæru Heimsmarkmiðunum hefur verið náð en tímabilið til að koma þeim í framkvæmd er hálfnað. Það er klárt að þau munu ekki nást fyrir 2030. Loforð Vesturlanda um fjármagn til þróunarlandanna til að fjármagna Heimsmarkmiðin og aðgerðir vegna hamfarahlýnunnar hafa ekki ræst en þess í stað hefur fé til varnarmála og til stríðsreksturs aukist. Það eru yfir hundrað vopnuð átök í heiminum í dag. Það hafa verið sjö valdrán í Afríku síðustu misseri og svo má ekki gleyma stríðinu í Úkraínu sem hefur haft áhrif á orku- og matvælaverð sem hefur bitnað verst á fátækum ríkjum.

Geopólitískt landslag í heiminum er að breytast hratt. Bandaríkin eru ekki lengur ofurvald og það fjarar undan pólitískum áhrifum Vesturlanda. Heimurinn er orðinn fjölskauta. Kína, Indland, Rússland, Brasilía, Íran, Sádí Arabía og hin ýmsu lönd og bandalög utan hins vestræna heims eru farin að láta að sér kveða. Suðrið heimtar efnahagslegt réttlæti og grundvallarbreytingar á alþjóðlega fjármálakerfinu og krefst umbóta á alþjóðlegum stofnunum sem margir telja að séu úreltar og ekki til þess fallnar að glíma við vandamál nútímans. Hér er sérstaklega átt við Bretton Woods stofnanirnar og Sameinuðu Þjóðirnar sem urðu til eftir Seinni Heimsstyrjöld og hafa haldið utan um alþjóðlegt samstarf allar götur síðan.  

Leiðtogar margra þróunarríkja drógu ekki undan í fordæmingu sinni gagnvart Vesturlöndum sem hafa byggt upp sín hagkerfi með hjálp jarðeldsneytis og þannig stuðlað að hamfarahlýnun. Ekkert lát er að sjá á útblæstrinum og fögur loforð um fjármagn til fátækra ríkja sem eru hvað viðkvæmust fyrir loftslagsbreytingum hafa orðið að litlu sem engu. Forseti Kólumbíu var harðorður í garð leiðtoga stærstu og valdamestu ríkjanna og sakaði þá um að hafa brugðist heiminum með herbrölti, innrásum og græðgi í skjóli kapítalismans. „Þeir eiga ekki pening til að aðstoða við hamfarahlýnun en þeir eiga nægan pening þegar kemur að stríði“. Forsetinn kallaði eftir félagslegu og umhverfislegu réttlæti og nauðsyn þess að umbreyta alþjóðlega fjármálakerfinu og binda endi á notkun á jarðeldsneytis með fjárfestingum í grænni orku. Hann benti á að samkvæmt spám verður Kólumbía árið 2070 eyðimörk og ef að ekkert væri að gert þá væri ljóst að fólk myndi leggja land undir fót til norðursins í leit að vatni. Hann fordæmdi um illa meðferð á farandverkamönnum og flóttamönnum á landamærum og aukna óvild í garð slíks fólks þrátt fyrir að til dæmis í Bandaríkjunum haldi það að vissu leyti uppi hagkerfinu. Ræðan hans þótti svo áhrifarík að það var fjallað um hana talsvert í bandarískum fjölmiðlum.

Forseti Malaví dró heldur ekki undan í kröftugri ræðu og krafðist þess að Vesturlönd felldu niður skuldir þróunarlandanna svo þau gætu eytt afborgununum í að byggja upp sína eigin innviði. Hann sagði það rökleysu að bjóða þróunarlöndunum upp á lán sem þau hefðu engan veginn efni á að borga til baka. Hann eins og margir aðrir leiðtogar fátækra ríkja sagði alþjóðlega fjármálakerfið mismuna fátækum ríkjum og væri í raun nýtt form af nýlendustefnu. Forsetinn eins og margir af hans kollegum í suðrinu kallaði eftir nýju kerfi fyrir þróunaraðstoð og endaði ræðu sína með því að segja þrisvar sinnum „Fellið niður skuldirnar!“. Forseti Rúvanda tók í sama streng og benti á lánin sem stæðu fátækum ríkjum til boða væru dýr og vextir of háir. Forseti Indónesíu sagði alþjóðlegt fjármálakerfi einungis vinna í þágu örfárra ríkja sem stýrðu kerfinu sér í hag. Forsætisráðherra Mexíkó sömuleiðis kallaði eftir nýrri heimsmynd.

Það gætti ákveðinnar gremju í ræðum leiðtoga margra fátækra ríkja sem telja sig fórnarlömb nýlendustefnu, heimsvaldastefnu og efnahagslegs ranglætis í heiminum sem þau segja kerfisbundið. Forsætisráðherra Saint Vincent og Grenadines sagði alþjóðakerfið brotið og talaði um tvískinnung voldugra þjóða þegar kæmi að dreifingu auðs. Hann sagði voldug ríki gera það sem þeim sýnist án afleiðinga. Saint Kits og Nevis kallaði eftir réttlæti og fjárbætur fyrir þrælahald. Hann benti á að það voru eigendur plantekra sem fengu fjárbætur þegar þrælahald var afnumið en fórnarlömbin fengu ekkert. Hann tók Haítí sem dæmi en landið þurfti að borga sem nemur á núvirði um 20 milljarða Bandaríkjadala til Frakklands yfir 120 ár til að tryggja sjálfstæði sitt og rann féið til þrælahaldara sem misstu landeignir sínar (og þrælana) við sjálfstæði Haítí. Forsætisráðherra Saint Kits og Nevis gagnrýndi eins og aðrir að nú væri ætlast til að landið hans tæki lán fyrir aðgerðum er snúa að hamfarahlýnun þrátt fyrir að hafa ekki átt neinn þátt í að skapa núverandi ástand. Konungur Jórdaníu benti á tvískinnunginn þegar kemur að loforðum Vesturlanda og fjármögnun hjálparstofnana. Fjárframlög Vesturlanda til stofnanna Sameinuðu Þjóðanna til flóttamanna og fyrir matvælaaðstoð hefur minnkað samanber því sem flóttamönnum fjölgar og hungursneyð eykst. 

Klárlega hefur þessi aukna óánægja ekki farið fram hjá Vesturlöndum. Margir leiðtogar tóku undir þörfina á að endurbæta stofnanir og breyta því fyrirkomulagi sem ríkir í dag. Það er að myndast samstaða um það að núverandi kerfi er ekki sjálfbært. Bandaríkjaforseti reyndar undirstrikaði að það yrði að vernda þær stofnanir sem hefðu verið settar á stofn eftir Seinni Heimsstyrjöld en það var athyglisvert að heyra forsetann tala fyrir stækkun Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna. Það kemur kannski ekki á óvart. Í dag eru Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland með fasta setu í ráðinu og hafa neitunarvald. Tíu önnur sæti rótera svo á milli aðildarríkjanna. Innrás Rússa í Úkraínu og sú gjá sem hefur myndast milli Vesturlanda og Rússa vegna stríðsins hefur lamað ráðið. Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna er valdamesta einingin innan stofnunarinnar þar sem ákvarðanir um stríð og frið eru teknar. Það er því kannski ekki skrítið að jafnvel Bandaríkjamenn vilja nú auka aðild að ráðinu og mögulega tilbúnir til að gefa upp neitunarvaldið til að bjarga Sameinuðu Þjóðunum. 

Bandaríkin hafa áttað sig á því að heimurinn er orðinn fjölskauta og þau annað hvort reyna að leiða umbæturnar eða missa bandamenn sína. Finnar fóru aðeins lengra og undirstrikuðu nauðsyn þess að umbreyta alþjóðakerfinu til að gefa suðrinu rödd. Danir voru sammála um að það þyrfti nýja nálgun og voru djarfir í fjárhagslegum skuldbindingum sínum. Sama mátti heyra frá Hollandi á meðan varaforsætisráðherra Breta eyddi mestum tíma í að tala um gervigreind. Mörg ríki lýstu yfir áhyggjum yfir gervigreind, þar á meðal Ísland, en ræða Bretanna var svolítið undarleg og bar kannski þess merki að Bretar eru að reyna að finna sér stað í nýrri heimsmynd utan Evrópusambandsins. Ræða kínverska varaforsetans var áhugaverð. Hann undirstrikaði að Kína er alfarið á móti stríðsrekstri og heimsvaldastefnu. Landið hefur opinberlega skuldbundið sig við nota aldrei kjarnorkuvopn að fyrra bragði og boðar stórar aðgerðir til að stemma stigu gegn hamfarahlýnun. Skilaboðin voru fyrst og fremst að það þarf alþjóðlega samvinnu til að takast á við áskoranir nútímans. Það var jákvætt að sjá að bæði Kína og Bandaríkin töluðu í þessum tón. Utanríkisráðherra Rússlands fór hins vegar í söguskoðun og ræddi aðallega um stríðsreksturinn í Úkraínu sem hann kenndi Vesturlöndum alfarið um. Vesturlönd fordæmdu Rússland en mörg lönd í suðrinu létu það vera að tala um stríðið nema þá helst afleiðingar þess á verð á matvæli og orku.

Utanríkisráðherra Íslands, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, gekk hvað lengst af Vesturlöndum í að gagnrýna mannréttindabrot ýmissa þjóða og nefndi á nafn Íran, Hvíta Rússland, Rússland og Mjanmar. Nágrannalöndin létu mörg slíka gagnrýni að mestu leyti vera fyrir utan fordæmingu innrásar Rússa í Úkraínu. Utanríkisráðherrann gerði jafnrétti kynjanna hátt undir höfði og undirstrikaði að jafnrétti kynjanna á væri undirstaða velmegunar á Íslandi. Ráðherrann talaði um skuldbindingar Íslands gagnvart heimsmarkmiðunum og aðgerðir í loftlagsmálum. Það skýtur hins vegar skökku við að Íslendingar eru langt frá því að ná markmiðum sínum gegn loftlagsvánni og við erum eftir á í mörgum heimsmarkmiðum. Þá er framlag Íslands til þróunarsamvinnu frekar lágt. Margir leiðtogar fátækra ríkja gagnrýndu Vesturlönd fyrir stór loforð sem þau hafa ekki staðið við. Það er því vert að horfa í eigin barm og spyrja okkur: erum við að standa okkur og fylgir þessum yfirlýsingum Íslands á Allsherjarþinginu alvöru skuldbinding sem felur í sér aðstoð við fátæk ríki og varanlegar aðgerðir til að draga úr útblæstri?

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí