Þingið sem leit út um gluggann og sýndist allt með kyrrum kjörum

Eins og fram kom í flestum fjölmiðlum voru nokkuð fjölmenn mótmæli á Austurvelli við þingsetningu nú á þriðjudag. Fjölmennust voru mótmæli sem hjálparsamtökin Solaris og No Borders Iceland boðuðu til, til stuðnings flóttafólks, með áherslu á þann hóp sem stjórnvöld gerðu bjargarlausan með nýbreyttum útlendingalögum. Smærri hópur mótmælti kynfræðslu í grunnskólum. Síðastir á vettvang voru strandveiðimenn og stuðningsfólk þeirra, að mótmæla stefnu stjórnvalda í þróun sjávarútvegs. Í umfjöllun fjölmiðla var ekki aðeins greint frá þessum þætti þingsetningarinnar heldur var hann víðast hvar nokkuð sýnilegur á ljósmyndum frá viðburðinum.

Á vegum Alþingis eru hins vegar einnig teknar ljósmyndir og hefur skrifstofa Alþingis tekið að deila þeim á ljósmyndavefnum flickr.com. Sá munur er þó á myndefni fjölmiðla og myndum þingsins sjálfs að ef flett er í gegnum 104 ljósmyndir Alþingis af setningardeginum mætti ætla að hann hafi verið ekki bara mótmælalaus heldur laus við nærveru almennings – með einni undantekningu þó.

Innan um þennan aragrúa ljósmynda af ráðherrum, þingmönnum, forseta, biskup, og starfsfólki þingsins er engan lögreglumann að sjá, þó að nærvera lögreglu í kringum athöfnina hafi verið allveruleg. Af þessum 104 ljósmyndum mætti ætla að prúðbúnir ráðamenn hafi verið einir í heiminum þennan dag og veröldin jafn átakalaus og strengjakvartettinn sem lék tónlist innandyra.

Ekkert kemur fram um ferlið á bakvið birtingu myndanna, hvorki á vef Alþingis né flickr-síðu þess. Þó að birtar myndir þingsins frá athöfninni séu eins og áður sagði á annað hundrað talsins má ætla að ljósmyndari hafi tekið fleiri myndir en birtast, eins og gengur. Þá virðist ekki ólíklegt að starfsfólk þingsins taki þátt í að velja myndir til birtingar, eða að minnsta kosti að velja myndir úr birtingu.

Hvert sem ferlið er mætti við fyrstu sýn ætla, af niðurstöðunni, að ljósmyndarinn hefði aldrei beint linsu sinni út fyrir girðinguna sem lögregla reisti í kringum þinghúsið þennan dag til að halda almenningi frá þátttakendum opinberu athafnarinnar. Ein ljósmynd kemur þó upp um að svo er ekki, að linsa ljósmyndarans hefur víst ratað út fyrir girðinguna og að mannfjöldanum sem staddur var við Austurvöll og lagði sitt af mörkum til lýðræðisins þennan dag. Innan um fjölbreyttan sarp mótmælenda sem strengdu meðal annars fjölda stórra borða með skýrum áletrunum og beindu að þingmönnum til að berjast fyrir rétti flóttafólks fann ljósmyndarinn – eða ónefndur starfsmaður þingsins, hvert sem ferlið er – eina manneskju sem veifaði íslenskum fána. Fulltrúi almennings á Austurvelli þennan dag, samkvæmt því sem virðist óhætt að kalla sýn stofnunarinnar sjálfrar, var ljóshærð, ung kona, í hvítum klæðum, með þjóðfána í hönd. Andlit hennar er hulið. Hún birtist nær aðeins sem þessi fáni.

Ef marka má þetta val var þingsetningin bæði mótmælalaus og útlendingalaus viðburður frá sjónarhóli þingsins sjálfs. Og allt að því almenningslaus.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí