Mótmæltu framkomu stjórnvalda við fólk á flótta við þingsetningu

„No Borders No Nations, Stop Deportations“ – alþjóðlegt slagorð hreyfinga fyrir réttindum flóttafólks var kyrjað við þingsetningu á Austurvelli í dag. Upp úr hádegi tóku mótmælendur að safnast saman fyrir framan hús Alþingis og stilltu sér upp með borða með skýrum skilaboðum: „Seeking safety is not a crime“ – Að leita öryggis er ekki glæpur. „Running away from responsibilities — 3 migrant women got evicted this week — we stand with them“ sagði á öðrum borða: Að ráðamenn hlaupist undan ábyrgð, þremur konum á hafi verið brottvísað í þessari viku, mótmælendur standi með þeim.

Mótmælendur lýsa yfir samstöðu með konum sem úthýst hefur verið af stjórnvöldum.

Markmið stjórnvalda að ýfa upp útlendingaandúð

Á meðan þingmenn komu saman í húsi Alþingis og biðu eftir að ganga þaðan út í tvöfaldri röð á eftir biskupi, prúð og frjálsleg í fasi, í beinni röð yfir í Dómkirkjuna, það er þeir þingmenn sem kjósa að taka þátt í helgihaldinu, fjölgaði mótmælendum á Austurvelli. Á tíma var tvísýnt hvort þar væru staddir fleiri mótmælendur eða lögregluþjónar, en nærvera lögreglunnar á vellinum var veruleg. Eftir því sem týndist í hóp mótmælenda virtist lögreglumönnum, einkennisklæddum og óeinkennisklæddum fjölga líka. Mótmælendur urðu þó nokkru fleiri, á að giska um fimmtíu talsins.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Um það leyti sem vænta mátti þess að þingmannaröðin gengi milli húsa bættist allt annar hópur á völlinn: fimm til sex manns með græn skilti sem á var letrað að enginn fæðist í röngum líkama. Þarna var semsagt á ferðinni angi af þeim usla sem vart hefur orðið við á samfélagsmiðlum nýverið. Þegar þingmenn birtust var sá hópur raunar einn um að skapa hávaða með áslætti en lét ekki út úr sér orð svo heyra mætti. Þátttakendur megin-mótmælanna á vellinum, til stuðnings flóttafólks, slógu enga potta eða pönnur en lögðu kröfur sínar fram í mæltu máli og hrópuðu slagorð.

Fámennur hópur kom í sömu mund saman til annars konar mótmæla á vellinum.

Á milli hópanna tveggja má ætla að hafi andað köldu en völlurinn rúmaði þá báða ágætlega þetta hádegi, án þess að þátttakendur þeirra þyrftu svo mikið sem horfast í augu.

Markmið stjórnvalda að ýfa upp útlendingaandúð

Á dreifimiða frá Solaris og No Borders stóð yfirskriftin: Gjöf Alþingis til flóttafólks: flóttafólk svelt til hlýðni — Íslensk yfirvöld úthýsa fólki á flótta. Þar mátti lesa um nýlegar aðgerðir stjórnvalda:

Samstöðumótmælin urðu nógu fjölmenn til að fara ekki framhjá neinum.

„Fyrir nokkrum vikum hóf Útlendingastofnun í samstarfi við ríkislögreglustjóra að svipta fólk á flótta allri þjónustu. Það felur í sér sviptingu á húsnæði og vikulegum uppihaldskostnað (samtals 8000 kr) og úthýsingu þeirra á götuna. Gistiskýli Reykjavíkur neita að taka á móti fólkinu vegna þess að þau eru ekki með kennitölu, en gistiskýlin eru löngu sprungin og ekki er nægt pláss fyrir öll þau sem þurfa á slíkum úrræðum að halda. Yfir 60 manns eru nú í þessari annarlegu stöðu og fleiri bætast í hópinn í hverri viku. Í hópnum eru meðal annars konur sem eru þolendur mansals og ungmenni á aldrinum 18–25. Það hefur skapast sannkallað neyðarástand á götum Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga og það stefnir í að ríkisstjórnin ætli að nýta sér neyðarástandið til að koma á legg fangelsisbúðum fyrir fólk á flótta.

Biskup og forseti leiða ríkisstjórn og þingmenn gegnum dyr Alþingishússins. Umtalsverð löggæsla var á Austurvelli.

Tilgangur þessara aðgerða er að ýfa upp útlendingaandúð og þvinga fólk til að yfirgefa landið. Öll helstu mannréttindasamtök landsins ásamt stórum félögum á við ASÍ hafa fordæmt þessa ómannúðlegu og grimmilegu framkvæmd yfirvalda.“

Forseti Alþingis og ráðherrar ganga til kirkju og vanda sig við að líta ekki til hliðar.

Það var bjart þarna upp úr hádeginu. Þingmenn komust klakklaust leiðar sinnar til kirkju, eins og við var að búast. Þegar þeir gengu til baka, að guðsþjónustu lokinni, höfðu strandveiðimenn bæst í hóp mótmælenda.

„No Borders No Nations, Stop Deportations!“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí