Átta barna móðirin Jawaher, frá Palestínu, sem sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, dvaldi hér í átta mánuði en beið í gær brottvísunar í húsnæði Útlendingastofnunar við Bæjarhraun. Samtökin Réttindi barna á flótta hafa fordæmt brottvísunina og Freyja Haraldsdóttir, réttindagæslumaður fatlaðs fólks og talskona samtakanna Tabú hvatti opinbera starfsmenn til að skrópa í vinnuna frekar en framfylgja henni.
Blaðamaður náði í dag, á þriðjudag, tali af Magnúsi Norðdahl, lögmanninum sem annast hagsmuni fjölskyldunnar fyrir hönd Rauða krossins hér á landi. Tilefnið var að heyra nánar af því hvar málið væri statt. Magnús sagðist vilja heyra í skjólstæðingnum áður en hann sæi sér fært að tala við fjölmiðla og bað blaðamann um að senda sér nöfn viðkomandi til að hann gæti flett þeim upp.
Nokkrum klukkustundum síðar svaraði Magnús með eftirfarandi skilaboðum: „Já, þau eru með Dyflinnarmál svokallað. Ekkert hægt að gera frekar á núverandi tímamarki.“
Dyflinnarmál þýðir hér að þeim er brottvísað í krafti Dyflinnarreglugerðarinnar, sem heimildar ríkjum innan Schengen-svæðisins að vísa umsækjendum um vernd til baka, til fyrsta viðkomulands innan svæðisins.
Blaðamaður fylgdi svarinu eftir með spurningu, svohljóðandi:
– Í gegnum tíðina hefur ítrekað komið fyrir að ákvörðunum um brottvísanir í krafti Dyflinnarreglugerðar hefur verið snúið við eftir afskipti mannréttindasamtaka eða annarra hópa sem benda á brotinn rétt í meðferðinni. Í ljósi fötlunar og veikinda hafa í þessu tilfelli til dæmis samtökin Réttur barna á flótta fordæmt brottvísunina. Ljóst er að pólitískt er það ekki líklegt en tæknilega séð gæti ráðherra gripið inn í eða hvað?
Magnús svaraði: „Nei, ekki ráðherra. En þau gætu náð tímamörkum og fengið opnað síðar, hafi þeim ekki verið brottvísað.“