Allt sem gengur illa hjá Reykjavíkurborg reynist á endanum vera verktökum að kenna. Það skiptir engu hvort það er snjómoskstur, að hirða rusl eða halda úti skiptistöð fyrir Strætó. Í það minnsta er það að verða kunnulegt stef þegar gengið er á starfsmenn borgarinnar vegna einhvers sem er ekki að virka í borginni. Hvort ástæðan fyrir því sé stórfelld verktakavæðing alls í Reykjavík, í raun einkavæðing allrar þjónustu, eða almenn vanhæfni verktaka er erfitt að svara.
En þó það sé búið að verktakavæða flest skítaverk borgarinnar þá geta silkihúfurnar ekki fríað sig ábyrgð. Það sést vel í nýjasta dæminum um þetta. Í vikunni vakti Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, athygli á því að skiptistöðin í Mjódd í Breiðholtinu er ekki opin í takt við ferðir Strætó. Salernin hafa svo verið lokuð í lengri tíma og er óneitanleg ólykt við stöðina.
Það hefur svo komið í ljós að þessi skiptistöð er á ábyrgð Reykjavíkurborgar, en verktaki var fenginn til að sjá um stöðina. Óli Jón Hertervig, skrifstofustjóri eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar, lofar hins vegar bót og betrun í viðtali við RÚV. Hann kennir verktakanum um ástandið, líkt og fyrr segir, en svo heppilega vill til að samningurinn við hann er að renna sitt skeið. Þá ætlar Óli Jón að fá nýjan verktaka og þá mun aðstaðan gjörbreytast. En hver verður munurinn á nýja og gamla verktakanum? Jú, nú ætlar Óli Jón að setja nokkur skilyrði:
„Það er í fyrsta lagi opnunartíminn, við ætlum að lengja hann og síðan er það salernismál, að reka salerni, og síðan er það að vera með eitthvað til sölu, mögulega samlokur og eitthvað slíkt.“
Hann segir að borgin muni auglýsa eftir nýjum rekstraraðila á næstu vikum. Svo eftir sirka tvo mánuði mun nýr verktaki taka við stöðinni og sá verður örugglega betri. Enda með skýra verklýsingu.