Samtökin Réttur barna á flótta skjóta nú upp neyðarblysi vegna óréttmætra brottvísana á börnum og ómannúðlegrar málsmeðferðar, óboðlegrar afstöðu til barna og fjölskyldna á flótta. Átta barna móðir er ein þeirra sem búið og beðið hér á landi eftir málefnalegri málsmeðferð og verður nú vísað til baka í búðir þar sem ríkir algjört neyðarástand.
,,Stjórnvöld eru nú að skipuleggja brottvísun á einstæðri móðir með 8 börn (6 undir lögaldri) þrátt fyrir að elsta dóttirin sé í geðrofi og 10 ára stelpan sé flogaveik. Fjölskyldan var flutt 4. september í Bæjarhraun 16 sem er á vegum Ríkislögreglustjóra. Þar eru aðstæður sérstaklega slæmar fyrir börn og andleg staða barnanna hefur versnað verulega. Börnin á grunnskólaaldri í þessari fjölskyldu hafa aldrei fengið að fara í skóla á því tæplega 9 mánaða tímabili sem þau hafa dvalið á Íslandi. Börn á flótta hafa sömu réttindi og önnur börn á Íslandi, hvað varðar menntun, leik, heilbrigðisþjónustu en líka öryggi. Veik börn eru sérstaklega viðkvæm og við mótmælum brottvísun þeirra, slíkt felur í sér framlengingu á óvissu og óöryggi og endar oftar en ekki í heimilisleysi, ofbeldi og misnotkun á börnum.“