Níðingslegt hjá lögreglunni að leyfa ekki fólki að fara í föt

Afstaða, félag fanga á Íslandi, segir í sérstakri tilkynningu að þegar lögreglan leyfir handteknu fólki ekki að klæða sig þá sé það augljóslega tilraun til að niðurlægja viðkomandi. Afstaða er að vísa til frétta um að þrír karlmenn hafi voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar í húsi í Flúðaseli í Breiðholti í Reykjavík í morgun. Mynd af einum mannanna var birt á Vísi þar sem sjá má að hann er í nærbuxum einum klæða, með handklæði, að svo virðist, yfir hausinn. Afstað kallar eftir því að þeir lögreglumenn sem komu að þessari handtöku sæti rannsókn, enda ekki í samræmi við verkferla hjá lögreglunni.

„Afstaða, félag fanga á Íslandi, fordæmir aðgerðir lögreglumanna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem naut aðstoðar sérsveitarinnar ríkislögreglustjóra í Breiðholti í morgun. Það að leyfa ekki handteknu fólki að klæða sig í föt áður en það er fært út úr húsi er ekkert annað en tilraun til niðurlægingar og var umræddur einstaklingur sviptur mannlegri reisn sinni. Aðgerðir umræddra lögreglumanna eru ekki í samræmi við verkferla og hljóta að kalla á rannsókn hjá nefnd um eftirlit með lögreglu. Að mati Afstöðu þyrfti að ríkja mikil almannahætta til þess að vikið væri frá mikilvægum mannréttindum handtekinna, til dæmis ef eldur hefði verið laus í húsnæðinu, og þarna hlýtur því að vera um að ræða skipulagða aðgerð til þess að brjóta niður handtekið fólk. Það er ólíðandi og ósk Afstöðu að lögreglumenn fari að lögum og reglum í samfélaginu og virði mannréttindi samborgara sinna,“ segir í tilkynningu Afstöðu.

Samtökin vísa svo í reglugerðir, máli sínu til stuðnings. „Rétt er að skoðað verði, í samræmi við 8. gr. reglna um nefnd um eftirlit með lögreglu nr. 222/2017 sbr. VII. kafla lögreglulaga, hvort lögregla hafi brotið á einstaklingnum þegar hann var fluttur á lögreglustöð á nærbuxum. Í því felst enda ómannúðleg og vanvirðandi meðferð sem lagt er bann við í 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 sbr. 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi á Íslandi sbr. lög nr. 62/1994. Engin ástæða er til þess að handteknum einstaklingum sé ekki gefið færi á að klæða sig eftir handtöku og gegn öllu almennu meðalhófi að flytja þá hálfnakta á lögreglustöð. Lögreglu ber enda við meðferð og rannsókn mála að gæta meðalhófs í aðgerðum sínum, sbr. almennu meðalhófsregluna í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sbr. einnig 3. mgr. 53. gr. sakamálalaga nr. 88/2008. Samkvæmt henni skulu þeir sem rannsaka mál gæta þess að mönnum verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur,“ segir i tilkynningu.

Hér fyrir neðan má sjá mynd af aðgerðum lögreglu sem Vísir birtir í morgun. Samstöðin þurfti að skipta um mynd því Facebook er, að svo virðist, sammála Afstöðu og bannaði fréttina því hún sýndi nekt.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí