Athyglisvert hve fréttir RÚV af samstöðumótmælum með Palestínu á fótboltavellinum í dag eru um margt ólíkar frásögnum þátttakenda, þeirra sem voru á staðnum, svo við gefum þeim orðið:
,,Athygli vekur frétt RÚV af mótmælunum en þar er fyrirsögnin „Mótmælendur frá báðum hliðum mættu á leik Breiðabliks og Maccabi“ , en það er afar sérstök nálgun því um er að ræða fimm manna hóp annarsvegar og allt að hundrað manns hins vegar.
Mótmælendur lýstu líka undrun sinni yfir því að lögreglan bæri rafbyssur þegar fullyrt hafði verið í samtali við Ríkislögregluembættið að lögreglan yrði ekki vopnuð.
,,Rafbyssur voru sannarlega á hverjum lögreglumanni svo ekki er hægt að kalla það vopnleysi. Hver getur sannfært hvern um að ísraelska lögreglan hafi verið óvopnuð?“ segir mótmælandi og fleiri lýsa lögreglunni á staðnum: ,,Mótmælin voru afar kröftug en löggæslan yfirgengileg og ég kalla eftir því að Samstöðin fái upplýsingar um hvaða ástæður eru fyrir því að ísraelska lögreglan sótti um að vera viðstödd leikinn, hver gaf leyfi fyrir því, hverjir vissu af því og hvort það standist skoðun.“
Það kom mótmælendum líka í opna skjöldu að lögreglumaður vopnaður stórum myndavélum hafi tekið myndir af mótmælendum og öðrum almennum borgurum eins og það væri sjálfsagt. ,,Það þarf að kanna lögmæti þeirrar aðgerðar af hálfu lögreglu“.
Í gær voru að sögn heimildarmanna settar reglur á Alþingi um að fánar væru bannaðir á leiknum, en ekki hefur sú reglugerð verið staðfest. ,,Palestínski fáninn var tekinn af konu sem hugðist klæðast honum. Það verður að kanna lögmæti þess“, segir mótmælandi að lokum og ítrekar að mótmælin hafi farið friðsamlega fram og lögregla hafi ekki þurft að skakka leikinn eins og kom fram í kvöldfréttum RÚV heldur hafi hún þurft að tala stuðningsmenn Ísraela til.
Á samfélagsmiðlum í morgun velti einn stuðningsaðila frjálsrar Palestínu, María Lilja, fyrir sér fréttum af vopnaburði lögreglunnar: ,,Vegna komu ísraelskrar lögreglu á knattspyrnuleik Breiðabliks og Maccabi Tel Aviv og fréttaflutnings sem skilur ekkert eftir nema spurningar langar mig að vita eftirfarandi: A: verða þessir erlendu lögregluþjónar vopnaðir? B: fara þeir með lögregluvald eða munu þeir svara til íslenskra lögregluyfirvalda? C: Hver óskaði eftir samstarfinu? D: Á hvaða grundvelli var það samþykkt? Bt. RÚV – Fréttir Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu Ríkislögreglustjóri Dómsmálaráðuneytið Katrín Jakobsdóttir Bjarni Benediktsson Guðrún Hafsteinsdóttir Ofl.“
Vert er að spyrja þeirra spurninga áfram og reyna að grafast fyrir um lagalegar forsendur þessarar lögregluaðgerðar á boðuðum friðsamlegum mótmælum á fótboltaleik á Íslandi.