Það virðist samdóma álit að tilraun skrýmsladeildar Sjálfstæðisflokksins til að koma draga úr fylgi Baldurs Þórhallssonar hafi misheppnast algjörlega. Raunar virðast flestir sammála um það, óháð því hvort viðkomandi styður Baldur eða ekki, og gæti jafnvel orðið til þess að hann auki fylgi sitt. Það var Sjálfstæðismaðurinn Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu og líklegur arftaki Andrésar Magnússonar í skrýmsladeild flokksins, sem reyndi að gera út á hommahatur til að koma höggi á Baldur. Stefán Einar þráspurði Baldur út í ljósmynd sem náðist af honum fyrir áratug á skemmtistað í Evrópu.
Líkt og fyrr segir þá eru nokkuð margir á því að það hafi verið sjálfsmark að reyna að gera hneyksli úr svo saklausri ljósmynd. „Sjaldgæf mistök hjá skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins. Venjan er að koma með svona fýlubombur ekki fyrr en tveim sólarhringum fyrir kosningar,“ segir til að mynda Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður. Sólborg Guðbrandsdóttir, rithöfundur og stuðningsmaður Baldurs, gaf svo sterklega í skyn í aðsendri grein á Vísi að afraksturinn hafi fyrst og fremst verið að afhjúpa hommahatur Stefáns.
Annar fjölmiðlamaður, Reynir Traustason, tekur undir með henni og skrifar: „Baldur varðist fordómunum fimlega og benti á að bæði hann og maður hans, Felix Bergsson, hefðu í gegnum árin komið fram fyrir hönd þjóðarinnar og aldrei hefði verið svartur blettur á þeirra framkomu. Margir eru eflaust sammála Sólborgu um að í spurningunum felist í senn hræsni og fordómar í garð samkynhneigðra og Mogginn hafi þarna stigið yfir eðlileg mörk …“