Öllum Bandaríkjamönnum ráðlagt að þiggja uppfærð bóluefni í haust

Öllum Bandaríkjamönnum, allt frá hálfs árs aldri, er ráðlagt að þiggja nýja gerð bóluefna við Covid-19, eftir uppfærslu sem beint er gegn undirafbrigðum afbrigðisins XBB. Eldri útgáfur bóluefnisins verða um leið teknar úr umferð. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Mandy Cohen, forstjóri sóttvarnastofnunar landsins (CDC) gaf út á þriðjudag. Þetta kom fram í forsíðufrétt Washington Post sama dag, ásamt öðrum helstu miðlum.

13 af 14 sérfræðingum mæltu með bólusetningu allra aldurshópa

Tilkynningin barst aðeins degi eftir að hinar nýju gerðir bóluefnanna voru samþykktar af matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA), á mánudag. Cohen sagði að uppfærðar gerðir bóluefnanna geti endurheimt dvínandi vörn fyrri bólusetninga og veitt „aukan vörn“ gegn þeim afbrigðum sem eru ábyrg fyrir flestum smitum og sjúkrahúsinnlögnum af völdum sjúkdómsins í Bandaríkjunum um þessar mundir.

Síðustu heilu vikuna í ágúst létust 658 af völdum Covid-19 í Bandaríkjunum „nokkuð fleiri en um mitt sumar en miklu færri en þau 3.000 sem létust á viku í sama mánuði fyrir ári,“ segir í umfjöllun Washington Post. Sjúkrahúsinnlögnum af völdum sjúkdómsins fjölgaði nú á milli vikna um 16 prósent.

Tilkynning Cohen kom í kjölfar atkvæðagreiðslu meðal sérfræðinga stofnunarinnar og er í samræmi við niðurstöðu hennar. Þrettán af fjórtan meðlimum ráðgjafarnefndar um bólusetningar kusu með því að mælt yrði með uppfærðum bóluefnum frá Moderna og Pfizer/BiNTech fyrir alla yfir 6 mánaða aldri.

Til viðbótar bóluefnum þessara tveggja framleiðenda, sem Íslendingar þekkja á eigin skinni, er beðið eftir umsögn matvæla- og lyfjastofnunarinnar um uppfært bóluefni þriðja framleiðandans, Novavax. Fyrri gerð þess bóluefnis bauðst einnig hér á Íslandi fyrr í faraldrinum, og var einkum ætlað þeim sem þótti ekki ráðlegt, vegna ofnæmisviðbragða eða af öðrum sökum, að fengju svonefnd mRNA bóluefni, sem hin tvö teljast til.

Einn sérfræðingur sagði gögn um börn of takmörkuð

Beth Bell, prófessor á sviði alþjóðaheilbrigðismála við Washington háskóla, sagði í viðtali við Washington Post að mikilvægt væri að öll þau sem vildu hefðu aðgang að bóluefnunum, um leið og flytja þyrfti skýr skilaboð þess efnis að „eldra fólk og fólk með undirliggjandi heilsuvandamál þurfa virkilega á örvunarskammti að halda.“

Matthew F. Daley, sérfræðingur við rannsóknarstofnun Kaiser Permanente, sem rekur 39 sjúkrahús í Bandaríkjunum, sagði mest knýjandi ástæðuna fyrir því að hafa ráðleggingarnar svo víðtækar, að þó svo að sjaldgæft sé að Covid-19 leiði til dauðsfalla meðal barna verði helmingur þeirra dauðsfalla hjá börnum sem ekki glími við nein undirliggjandi heilsufarsleg vandamál. „Það mátti koma í veg fyrir þau,“ sagði hann.

Pablo Sanchez heitir sá meðlimur í sérfræðingaráðinu sem kaus gegn hinni breiðu ráðleggingu og vildi miða við eldri hópa. Sanchez er prófessur í barnalækningum við Ohio State háskólann. „Ég er afar hlynntur bólusetningum meðal áhættuhópa,“ sagði hann, en að gögnin um börn og ungabörn séu of takmörkuð.

Mikill meirihluti Bandaríkjamanna í áhættuhópi

Til athugunar kom, í matsferlinu að baki ákvörðun sóttvarnastofnunarinnar, að ráðleggja aðeins 65 ára og eldri að þiggja uppfærð bóluefni. Samkvæmt mati hinna þrettán meðlima sérfræðingaráðsins, sem er opinbert mat sóttvarnstofnunarinnar, yrðu sjúkrahúsinnlagnir 200 þúsundum fleiri og dauðsfaöll 15 þúsund fleiri, litið til næstu tveggja ára, ef aðeins 65 ára og eldri væri ráðlagt að þiggja uppfærð bóluefni. Var þá meðal annars horft til þess að „mikill meirihluti“ Bandaríkjamanna telst vera með undirliggjandi heilsufarsvanda og tilheyra þar með skilgreindum áhættuhópi, en yfir 70 prósent íbúa Bandaríkjanna teljast of feitir, samkvæmt stofnuninni.

Óvíst er hversu margir munu þiggja nýja bólusetningu. Þrátt fyrir víðtækar ráðleggingar um örvunarbólusetningu fyrir ári síðan lét aðeins 17 prósent íbúa Bandaríkjanna bólusetja sig þá, samkvæmt CDC.

Að því er síðast fréttist frá embætti sóttvarnalæknis á Íslandi munu bólusetningar gegn Covid-19 hér á landi aðeins standa til boða 65 ára og eldri, nú í haust, ásamt fólki í skilgreindum áhættuhópum. Ekki hefur komið fram hvort meirihluti íbúa hér telst til áhættuhópa eins og vestanhafs.

Stórfyrirtæki forðast „viðkvæm viðfangsefni“

Það er annars að frétta af Covid-19 faraldrinum að á ýmsum vettvangi fréttist ekkert af honum, hvað sem líður tilkynningum stjórnvalda og forsíðufyrirsögnum ýmissa stærstu miðla. Samfélagsmiðillinn Threads, sem Meta hleypti af stokkunum fyrr á árinu, hefur þannig kosið að skila engum leitarniðurstöðum ef slegin eru inn orð á við „covid“ eða önnur beintengd faraldrinum. Að sögn talsmanna fyrirtækisins er það að yfirlögðu ráði, leitarvélin skili engum niðurstöðum um „viðkvæm viðfangsefni“, þar til fyrirtækið hefur fullvissað sig um gæði leitarniðurstaðanna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí