Fjölmiðlafulltrúi Utanríkisráðuneytisins hefur brugðist við fyrirspurn Samstöðvarinnar um nýjan lagaramma um útflutning „hluta með tvíþætt notagildi“, það er hluta með bæði friðsamlegt og hernaðarlegt notagildi. Viðbrögð ráðuneytisins við spurningunum fólu ekki í sér efnisrík svör. Fjölmiðlafulltrúinn gerði athugasemd við að því væri haldið fram í fyrri umfjöllun Samstöðvarinnar að lögin hefðu verið samþykkt án umræðu. Ef frá er talin framsaga var frumvarpið rætt í alls níu mínútur á þingi. Spurningu um fyrirséð útflutningsverðmæti hluta með tvíþætt notagildi frá Íslandi neitaði fulltrúinn að svara, með skírskotun til upplýsingalaga: „ráðuneytinu er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af þriðju málsgrein fimmtu greinar upplýsingalaga,“ og svo framvegis. Þá mátti skilja á talsmanninum að tilefni þess að ráðuneytið hefur samið bæði ný lög og reglugerð um efnið væri ekki að nokkurt fyrirtæki fengist í reynd við útflutning á sviðinu, þó að ljóst virðist að svo sé, af framsetningu ráðherra við flutning frumvarpsins.
Fyrirvarar fjölmiðlafulltrúans
Þann 19. september sl. birti Samstöðin umfjöllun undir yfirskriftinni „Tíu mínútum fyrir sumarfrí samþykkti Alþingi lög til að auðvelda útflutning hergagna.“ Var þar greint frá þeirri síðbúnu uppgötvun að í júní á þessu ári, beinlínis tíu mínútum fyrir þinglok, hefði Alþingi samþykkt lög með þann yfirlýsta tilgang, meðal annars, að greiða fyrir útflutningi „hluta með tvíþætt notagildi“, það er hluta sem geta bæði haft friðsamlegt notagildi og hernaðarlegt. Um viðskipti með slíkan varning og flutning gilda alþjóðleg viðmið sambærileg við þau sem gilda um hergögn almennt.
Í sömu mund og umfjöllunin birtist sendi blaðamaður nokkrar spurningar til Utanríkisráðuneytisins. Fulltrúar ráðuneytisins voru á þeim tímapunkti staddir á Allsherjarþingi SÞ í New York og komust ekki til að svara erindinu fyrr en nokkru eftir heimkomu. Ægir Þór Eysteinsson, áður blaðamaður en nú fjölmiðlafulltrúi Utanríkisráðuneytisins, svaraði fyrir hönd ráðuneytisins, en setti þó fyrst þrjá fyrirvara við framsetninguna.
Fyrsti fyrirvari Ægis var sá að lagafrumvarpið sem um ræðir hafi farið í gegnum þrjár umræður á Alþingi og því sé ekki rétt að Alþingi hafi samþykkt það án umræðu.
Níu mínútna umræða um vöntun á umræðu
Tæknilega er það rétt, eins og fram kemur í frétt Samstöðvarinnar, öll lagafrumvörp ganga formlega í gegnum þrjár umræður á þingi fyrir atkvæðagreiðslu. Í þetta sinn voru þær efnislega á þessa leið: framsaga ráðherra tók sjö mínútur. Þá var málið sent til nefndar án frekari umræðu. Eftir afgreiðslu Utanríkismálanefndar var málið aftur flutt fyrir þinginu, sú framsaga tók sex mínútur. Þar á eftir fór fram í níu mínútur það sem kalla má umræðu. Umræðan samanstóð af því að Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, benti á það að málinu hefði verið flýtt svo í gegnum Utanríkismálanefnd að láðst hefði að senda það til umsagnar fyrr en búið var að vinna drög að nefndaráliti. Umsagnaraðilum hafi verið gefnir þrír virkir dagar til að veita umsagnir áður en nefndin afgreiddi frumvarpið. Andrés Ingi sagði: „Þetta eru vinnubrögð sem við getum ekki samþykkt hér á þingi í máli sem skiptir jafn miklu og frumvarp um afvopnun, frumvarp um það að við tryggjum, hvað eigum við að segja, mannréttindanálgun í alþjóðasamfélaginu. Við ætlum að gera það bara án þess að eiga samtal við kóng eða prest, leggja bara hér fram frumvörp, spá ekkert í að tala við sérfræðinga eða almenning en síðan, þegar við erum runnin á rassinn með það, senda það út til málamynda til umsagnar.“
Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, svaraði Andrési á og sagði meðal annars: „Þetta mál hefur verið gríðarlega vel unnið. Það var sent í samráðsgátt af hálfu stjórnvalda og þá bárust engar umsagnir.“ Í næstu ræðu sagði Andrés Ingi: „Ég vil bara að það komi skýrt fram — vegna þess að háttvirtur framsögumaður málsins sagði að það hefði ekki verið rétt sem ég sagði hér, en síðan endurtók hann allt sem ég sagði og undirstrikaði að allt sem ég sagði var rétt.“
Þessi níu mínútna umræða um það að frumvarpið hefði ekki fengið nægilega umfjöllun er sú eina umræða sem finnst um það á opinberum vettvangi, og sú sem fjölmiðlafulltrúi Utanríkisráðuneytisins er þá að vísa til þegar hann segir rangt að engin umræða hafi farið fram um það á sínum tíma. Að vissu leyti má segja að hann virðist þannig beita hliðstæðri leiktækni og Teitur Björn gerði við Andrés Inga á þingi: að segjast neita framkomnum fullyrðingum um leið og hann vísar þó aðeins á gögn sem staðfesta þær.
Tæknileg merking orðanna „fyrir hönd“
Næsta athugasemd fjölmiðlafulltrúans er að misskilnings virðist gæta í umfjöllun Samstöðvarinnar um hluti með tvíþætt notagildi og skilgreiningu hugtaksins. Hann bendir á enskan uppruna hugtaksins, „dual use items“, sem finna megi í reglugerð ESB nr. 2021/821, og tilgreinir að þar megi finna 450 blaðsíðna lista yfir þann búnað sem getur talist hafa tvíþætt notagildi „og geta ýmist verið rafeindatæki, fjarskiptatæki, búnaður sem tengist flug- og siglingatækni, kjarnorkustarfsemi o.fl.“ Í athugasemdinni tilgreinir fjölmiðlafulltrúinn aftur á móti ekki í hverju misskilningur fyrri umfjöllunar væri fólginn.
Þriðja athugasemd fjölmiðlaftulltrúa ráðuneytisins er sú að Ari Kristinn Jónsson sitji ekki í stjórn Nýsköpunarsjóðs NATO fyrir hönd Íslands. Hann hafi aðeins verið tilnefndur í stjórnina af íslenska ríkinu. Ari Kristinn er íslenskur ríkisborgari. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins um kjör hans í stjórnina fagnaði ráðherra kjöri hans og lét hafa eftir sér: „Þegar kemur að framlagi Íslands í sameiginlegum vörnum þá gæti hið blómlega nýsköpunarumhverfi hér á landi lagt sitthvað af mörkum og kjör Ara Kristins í stjórn sjóðsins sýnir að á þessu sviði eiga Íslendingar og íslensk fyrirtæki fullt erindi.“ Orðalagið „fyrir hönd“ á sér nákvæmari merkingu innan stjórnsýslunnar, sem þarf sjálfsagt að huga að við skýrslugerð á vegum hins opinbera. Orðin eiga sér þó einnig víðari, óformlega merkingu í hversdagslegri málnotkun sem, í fréttatexta, sem virðist hæfa þessu samhengi ágætlega.
Ekkert fyrirtæki sóst eftir neinu
Að þessum athugasemdum framlögðum brást Ægir Þór við spurningum blaðamanns. Fyrsta spurningin var þessi: Hvaða fyrirtæki hafa sóst eftir því að stjórnvöld búi þannig um hnútana að ekkert standi í vegi útflutnings vöru með tvíþætt notagildi, í skilningi laganna?
Ægir Þór sagði ekki hægt að fallast á forsendur spurningarinnar, sem eigi ekki við rök að styðjast: „Hvorki hefur nokkurt fyrirtæki sóst eftir neinu í þessu samhengi, né hafa stjórnvöld búið svo um hnútana með löggjöfinni að ekkert standi í vegi fyrir útflutningi á vörum með tvíþætt notagildi.“
Það væri villandi að skilja þetta viðbragð fjölmiðlafulltrúans eftir athugasemdalaust. Verið getur að ekkert fyrirtæki hafi sóst eftir neinu í þessu samhengi, eins og hann segir. Þá hefur ráðherra eða annar aðili á vegum ráðuneytisins átt frumkvæði að því að greiða götu fyrirtækjanna sem um ræðir með löggjöfinni, ef marka má greinargerð ráðuneytisins með frumvarpinu, þar sem segir: „Viðskiptahagsmunirnir felast í því að löggjöf sumra ríkja bannar innflutning hluta með tvíþætt notagildi ef ekki liggja fyrir útflutningsleyfi … Þrátt fyrir að ekki flytji mörg fyrirtæki hér á landi út vörur eða þjónustu með tvíþætt notagildi getur verið um að ræða verðmætar vörur sem byggjast í mörgum tilfellum á íslensku hugviti. Virkt útflutningseftirlit er til þess fallið að styrkja stöðu íslenskra útflutningsfyrirtækja sem stunda útflutning á hlutum með tvíþætt notagildi.“ Að auki tryggi samræmdar reglur „aðgang íslenskra aðila sem framleiða hluti með tvíþætt notagildi að erlendum mörkuðum.“
Um seinni lið þessa knappa svars, að stjórnvöld hafi ekki „búið svo um hnútana með löggjöfinni að ekkert standi í vegi fyrir útflutningi á vörum með tvíþætt notagildi“, má segja að líklega hefði blaðamaður þurft að gæta meiri nákvæmni í orðavali. Eins og fram kemur að ofan er yfirlýstur ásetningur stjórnvalda með þessari löggjöf að „styrkja stöðu íslenskra útflutningsfyrirtækja sem stunda útflutning á hlutum með tvíþætt notagildi“. Eftir sem áður er ekki þar fyrir áreiðanlegt að ekkert standi í vegi þeirra. Eitthvað getur vissulega staðið í vegi fyrirtækja, þrátt fyrir hliðholla löggjöf. Spurningin virðist með öðrum orðum hafa fallið á nákvæmum skilningi fjölmiðlafulltrúans á orðinu „ekkert“.
Þarf ekki að svara, mun ekki svara
Næsta spurning var: Hvers konar vörur eru það sem íslensk fyrirtæki framleiða og eru talin eiga erindi á markað sem vörur með tvíþætt notagildi, í þessum sama skilningi?
Í viðbragði sínu við þessari spurningu nefnir Ægir Þór aðeins að hlutir með tvíþætt notagildi séu „mjög ítarlega skilgreindir með viðaukum við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/821 frá 20. maí 2021 um að setja Sambandsreglur um eftirlit með útflutningi, miðlun, tækniaðstoð, umflutningi og tilflutningi hluta með tvíþætt notagildi. Reglugerðina ásamt viðaukum má nálgast á EUR-Lex.“ Hvaða tilteknu vörur eða vöruflokkar á þessum lista eru framleiddar á Íslandi og ætlaðar til útflutnings kemur ekki fram í svari fjölmiðlafulltrúans.
Þriðja spurningin var: Hversu mikil eru fyrirséð útflutningsverðmæti slíks varnings frá landinu?
Þær upplýsingar sagðist fjölmiðlafulltrúinn ekki hafa á reiðum höndum og benti að auki á að sér væri, samkvæmt upplýsingalögum, ekki skylt að taka þær saman: „Upplýsingar um fyrirséð útflutningsverðmæti hluta með tvíþætt notagildi liggja ekki fyrir hjá utanríkisráðuneytinu og ráðuneytinu er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga sbr. 1. mgr. sama ákvæðis.“
Frumvarpið var rætt í ríkisstjórn
„Ef slíkur útflutningsvarningur er ekki þegar til staðar eða í bígerð á vegum innlendra fyrirtækja,“ hófst næsta spurning,„hvaða annað tilefni er þá fyrir mótun þessara laga og setningu reglugerðar?“
Því svaraði Ægir Þór á þá leið að „tilvist fyrirtækja sem framleiða hluti með tvíþætt notagildi“ hafi ekki verið „tilefni fyrir mótun laganna“. Þá sé tilefni reglugerðar um sama efni, sem nú er í Samráðsgátt stjórnvalda, fyrst og fremst að eldri reglugerð um sama efni hafi verið komin til ára sinna „enda byggir hún á regluverki ESB sem hefur tekið breytingum frá því að hún var sett.“
Í þessu samhengi er rétt að ítreka það sem fram kom í framsögu ráðherra er hún bar frumvarpið undir þingið, að sú reglugerð ESB sem þessi ákvæði laganna hvíla á eru „ekki hluti af EES samningnum“ og Íslandi því ekki skylt að innleiða hana.
Fimmta og síðasta spurning blaðamanns til ráðuneytisins í þessari sendingu var svohljóðandi: Á hvaða stjórnstigi hefur verið rætt um mótun stefnu landsins í útflutningi á vörum með tvíþætt notagildi? Hefur sú stefnumótun verið tekin fyrir á fundum ríkisstjórnar eða er hún alfarið í höndum utanríkisráðherra?
Ægir Þór svaraði því til að frumvarpið sem samþykkt var í júní síðastliðnum hafi verið rætt á Alþingi. Þar vísar hann aftur til níu mínútna umræðunnar um að málið hefði ekki fengið nægilega umfjöllun og verið flýtt í gegnum nefnd. Þá bætti hann því við að fyrri löggjöf á sviðinu, frá árinu 2010, hafi einnig verið rædd á þingi á sínum tíma. Einnig hafi ríkisstjórn tekið málið fyrir: „Bæði frumvörpin voru lögð fram af utanríkisráðherrum og hafa því verið rædd í ríkisstjórn fyrir framlagningu eins og venja er.“
Svör ráðuneytisins við spurningunum voru með öðrum orðum hvort tveggja í senn ítarleg og innihaldsrýr.