Tíu mínútum fyrir þinglok í júní síðastliðnum samþykkti Alþingi, án umræðu og án umfjöllunar fjölmiðla, frumvarp utanríkisráðherra að lögum með þann yfirlýsta tilgang að auðvelda útflutning á hergögnum íslenskra fyrirtækja, enda geti þar „verið um mjög verðmætar vörur að ræða“ eins og fram kom í framsögu ráðherrans. Í lögunum er vísað til umrædds varnings sem „hluta með tvíþætt notagildi.“
Hlutir með tvíþætt notagildi
Ef leitað er að hugtakinu „tvíþætt notagildi“ á vefum íslenskra fjölmiðla birtast ekki margar niðurstöður. Hugtakið er nær eingöngu notað í einu tilteknu samhengi, það er um vörur sem nýtast annars vegar í friðsamlegum tilgangi en geta einnig nýst í hernaði. Árið 2014 birti Viðskiptablaðið þá frétt um íslenska fyrirtækið Teledyne Gavia að það hefði selt fjarstýrða kafbáta til Rússlands. Kafbátarnir væru „samkvæmt öruggum heimildum“ til noktunar hjá rússneskum varnarmálayfirvöldum, enda hefðu þeir „tvíþætt notagildi“. Þetta var árið sem Vesturlönd brugðust við innrás Rússa á Krímskaga með viðskiptaþvingunum. Þar er áhersla lögð á hergögn og „vörur með tvíþætt notagildi“. Umræddir kafbátar virtust tilheyra þeim varningi sem þar með væri bannað að flytja út til Rússlands.
Á mbl.is birtist hugtakið „tvíþætt notagildi“ einnig aðeins í einni frétt. Sú er frá árinu 2018 og fjallar um vilja Bandaríkjanna til að fjárfesta í mannverkjum á Grænlandi, með „tvíþætt notagildi“. Þær fáu fréttir sem birst hafa í öðrum miðlum snúast annars fyrst og fremst um viðskiptabannið gegn Rússum og eru almenns eðlis, þar birtast „vörur með tvíþætt notagildi“ sem liður í upptalningu þess varnings sem heyrir undir bannið.
Engin umræða á Alþingi eða í fjölmiðlum
Samkvæmt þessari leit virðist aftur á móti engin umræða hafa orðið í fjölmiðlum fyrr á þessu ári þegar Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra lagði fram lagafrumvarp sem fjallar sérstaklega um útflutning á vörum með tvíþætt notagildi, í framangreindum skilningi. Það var í apríl. Í júní varð frumvarpið að lögum, sem heita nú „Lög um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit“.
Raunar virðist engin umræða hafa orðið um frumvarpið eða lögin yfirleitt. Ef leitað er að „Lög um afvopnun“ í íslenskum fjölmiðlum skilar það engri niðurstöðu, um þau virðist hvergi hafa verið rætt. Er það í samræmi við meðferð málsins á þingi, þar sem fyrsta umræða, í apríl, tók sjö mínútur. Þingið vísaði málinu til utanríkismálanefndar. Nefndin gerði athugasemdir um ákvæði um vopnaflutninga en ekki um þau ákvæði sem varða útflutning á vörum með tvíþætt notagildi.
Önnur umræða, að meðtöldum átta atkvæðagreiðslum um breytingatillögur nefndarinnar, tók alls fimmtán mínútur. Henni lauk 9. júní. Þriðja umræða hófst seinna sama dag og varði í núll mínútur enda tók þá enginn þingmaður til máls. Að þeirri umræðu, sem aldrei hófst, lokinni var frumvarpið samþykkt með 52 atkvæðum. Enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn því. Þannig varð frumvarpið að lögum föstudaginn 9. júní, klukkan 19:12. Tíu mínútum síðar, klukkan 19:22, var þingi frestað fram á haust.
Viðskiptalegir hagsmunir af hlutum með tvíþætt notagildi
Á friðartímum mætti kannski vonast til þess að Lög um afvopnun innihéldu fyrst og fremst óumdeilanleg efnisatriði og þyrftu fyrir vikið ekki mikla umræðu. En nú eru ekki friðartímar. Þegar ráðherra mælti fyrir frumvarpinu sagði hún markmið þess þríþætt:
Í fyrsta lagi „að auka alþjóðaöryggi og tryggja virðingu fyrir mannréttindum“. Þetta yrði meðal annars gert með því að „hafa eftirlit með, banna eða leyfisbinda útflutning með hlutum með tvíþætt notagildi“. Hér ber sérstaklega að athuga orðalagið að leyfisbinda útflutning, sem þjónar ekki sama tilgangi og að banna hann.
Í öðru lagi nefndi ráðherrann að banna skyldi „tiltekin vopn, hluti og háttsemi sem þeim tengjast“. Og í þriðja lagi „að vinna að markmiðum þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.“ Um þjóðaröryggisstefnuna sagði ráðherrann síðan stuttlega að þar sé „lögð áhersla á að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga, m.a. með afvopnun.“ Hér er vert að taka eftir fyrirvaranum „m.a.“ á undan hugtakinu afvopnun. Því það sem á eftir fer í máli ráðherrans varpar sérstöku ljósi á undanfarann:
„Auk þeirra markmiða sem talin eru upp í 1. gr. frumvarpsins felast viðskiptalegir hagsmunir í því að hér á landi sé viðhaft útflutningseftirlit með hlutum með tvíþætt notagildi í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar þar sem mörg ríki heimila ekki innflutning slíkra hluta nema útflutningsleyfi liggi fyrir.“
Það er að segja, fyrstu þrjú markmiðin eru talin upp í texta laganna sjálfra. Fjórða markmiðið, hins vegar, þeir viðskiptalegu hagsmunir sem felast í útflutningseftirliti með hlutum með „tvíþætt notagildi“, það er ekki nefnt í sjálfum lagatextanum en hljómar bæði skýrt og afgerandi í rökstuðningi ráðherrans.
„Mjög verðmætar vörur“
Síðar í framsögunni tilgreindi ráðherrann nánar forsendurnar fyrir þessu útflutningseftirliti. Í fyrsta lagi byggi það á ákvæðum laga sem þegar voru til staðar, frá árinu 2010. Með nýju lögunum séu ákvæðin um eftirlitið uppfærð „með hliðsjón af breytingum á regluverki Evrópusambandsins.“ Þess hafi verið þörf þar sem sú tiltekna reglugerð sambandsins sé ekki hluti af EES-samningnum og því hafi hún ekki verið innleidd með fyrri lögum. Með öðrum orðum er það ekki af formlegri, ytri nauðsyn sem reglugerðin er innleidd hér á landi nú, eins og oft er tilfellið með regluverk ESB, heldur að frumkvæði íslenskra stjórnvalda, af einhverju tilefni innanlands.
Ráðherrann gerði að nokkru leyti grein fyrir því tilefni þegar hún hélt áfram ræðu sinni og sagði:
„Þrátt fyrir að hér á landi séu ekki mörg fyrirtæki sem stunda útflutning á vörum eða þjónustu með tvíþætt notagildi getur verið um mjög verðmætar vörur að ræða sem byggja í mörgum tilfellum á íslensku hugviti. Virkt útflutningseftirlit er til þess fallið að styrkja stöðu þessara fyrirtækja, til að mynda vegna þess að þeim verður auðveldara um vik að flytja inn vissa hátæknivöru í eigin framleiðslu ef betur er tryggt að hún verði ekki endurútflutt til landa sem eru á bannlistum annarra ríkja.“
Með öðrum orðum afgreiddi Alþingi þetta vor, án umræðu, og án þess að það vekti athygli fjölmiðla eða almennings, lög til að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að taka þátt í framleiðslu og útflutningi á hergögnum.
Tryggja grundvöll til útflutnings
Þessum lögum hefur ráðherra nú fylgt eftir með því að birta drög að reglugerð á Samráðsgátt stjórnvalda, um „eftirlit með flutningi á hlutum með tvíþætt notagildi“. Í þeim kynningartexta ráðuneytisins sem fylgir reglugerðinni inn á Samráðsgátt má lesa:
„Þótt eftirlit með hlutum með tvíþætt notagildi sé ekki hluti af EES-samningnum hefur engu að síður verið talið æskilegt að innleiða hliðstæðar reglur og innan ríkja Evrópusambandsins til að tryggja samræmi í löggjöf ríkja innan EES og til að tryggja að íslensk útflutningsfyrirtæki starfi á sama grundvelli og fyrirtæki í helstu nágrannaríkjum okkar. Mörg ríki gera þá kröfu að útflutningsleyfi fylgi vörum með tvíþætt notagildi og með því að samræma framkvæmd útgáfu slíkra leyfa við framkvæmdina hjá öðrum EES-ríkjum er betur tryggt og komið í veg fyrir að íslensk fyrirtæki sem framleiða hluti með tvíþætt notagildi verði fyrir aðgangshindrunum á erlenda markaði.“
Ráðuneytið virðist þannig leggja nokkra áherslu á að fylgja málinu eftir og ljúka við að búa í haginn fyrir útflutning á hergögnum af einum eða öðrum toga, undir orðalagi sem flýgur auðveldlega undir ratsjá og gæti virst snúast um hreint ekki neitt: „hlutir með tvíþætt notagildi“.
Íslensk nýsköpun á leið í stríð
Þann 2. ágúst síðastliðinn var tilkynnt um stofnun nýsköpunarsjóðs NATO, (NATO Innovation Fund eða NIF), sem fyrirhugað er að geri fyrstu fjárfestingar sínar síðar á þessu ári. 23 af 31 aðildarríkjum NATO eru aðilar að sjóðnum, þar á meðal Ísland. Við stofnun nemur sjóðurinn einum milljarði evra, eða um 145 milljörðum króna. Ísland á fulltrúa í stjórn sjóðsins, Ara Kristin Jónsson, forstjóra netöryggisfyrirtækisins AwareGO og fyrrverandi rektor Háskólans í Reykjavík. Þegar Ari var kjörinn í stjórn sjóðsins hélt utanríkisráðherra ræðu og sagði meðal annars:
„ánægjuefni að á Íslandi sé til staðar alþjóðlega samkeppnishæf þekking og reynsla sem nýtist verkefnum sjóðsins. Þegar kemur að framlagi Íslands í sameiginlegum vörnum þá gæti hið blómlega nýsköpunarumhverfi hér á landi lagt sitthvað af mörkum“.
Í ljósi þeirrar lagaumgjarðar sem ráðuneytið hefur nú komið í kring, og reglugerðarinnar sem er í bígerð, virðist ljóst að ráðamenn og stjórnsýsla hafa unnið hörðum höndum að undirbúningi þess að íslensk fyrirtæki geti hagnast á yfirstandandi vígvæðingu. Það veit þá að því leyti á gott fyrir íslenskt atvinnulíf, ef það gengur eftir sem Jens Stoltenberg spáði um helgina, að styrjöldin í Úkraínu verði langvinn.