Þau fyrirtæki sem fengu stærstu styrkina úr orkusjóði þetta árið voru Ísfélag Vestmannaeyja, Samherji og Arnarlax. Ísfélagið fékk mest, tæplega 110 m.kr. Samherji fékk 100 m.kr. og Arnarlax rúmar 96 m.kr. Það er þriggja manna stjórn orkusjóðs undir formennsku Haraldar Benediktssonar, bæjarstjóra á Akranesi og fyrrum þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem sendir tillögur til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfisráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem úthlutar úr sjóðnum.
Alls var úthlutað 928 m.kr. af almannafé og fór það að mestu til stórfyrirtækja sem ættu að geta staðið sjálf undir nauðsynlegum fjárfestingu. Auk Ísfélagsins, Samherja og Arnarlax fengu öll mörg stórfyrirtæki styrki. Orkan sem er í eigu Skeljar, áður Skeljungs, fékk rúmar 49 m.kr. og Ölgerðin fékk 27 m.kr.
Ísfélagið fékk styrk til að kaupa rafskautaketil sem örugglega mun spara félaginu olíukaup í framtíðinni. Samherji fékk styrk til breytinga á skipi fyrir kolefnisfrítt ammoníak sem eldsneyti, sem spara mun félaginu olíukaup í framtíðinni. Og Arnarlax fékk styrk til að kaupa sér hybrid vinnubát. Og Orkan, Ísorka, N1 og Atlantsolía til að setja upp hleðslustöðvar, nokkuð sem félögin myndu hvort sem er gera.
Þessir styrkir eru hluti af því sem kalla má velferðarkerfi fyrirtækjanna sem verður æ umsvifameira. Fyrirtæki geta ekki aðeins fengið styrk til fjárfestinga í nafni orkuskipta heldur fá þau marga milljarða á ári í niðurfellingu tekjuskatts vegna fjárfestinga sem felldar eru undir nýsköpun og þróun.
Myndin er af aðaleigendum Ísfélagsins, Samherja og Arnarlax: Guðbjörg Matthíasdóttir, Þorsteinn Már Baldvinsson og Kjell Inge Rökke. Að baki er hin gjafmildi ráðherra: Guðlaugur Þór Þórðarson. Guðbjörg og Þorsteinn eru meðal auðugustu Íslendinganna en Rökke er meðal auðugustu manna í Noregi.