Ríkisstyrktur Moggi og ríkisstyrkt Viðskiptablað kvarta yfir tilvist Samstöðvarinnar

Undanfarin tvö ár hefur Morgunblaðið fengið að núvirði 167,6 m.kr. í ríkisstyrk og Viðskiptablaðið 58,5 m.kr. Þessi málgögn auðvaldsins ættu vel að geta lifað án styrkja af skattfé almennings, Mogganum er haldið úti af stórútgerðinni, ríkasta fólki landsins. Viðskiptablaðinu er haldið uppi af stærstu fyrirtækjunum sem auglýsa í blaðinu þótt fáir lesi blaðið, enda fátt í því nema tilkynningar frá þessum fyrirtækjum og nafnlausir skoðanadálkar þar sem málsvarar almennings eru hrakyrtir.

Eftir sem áður hefur ríkisstjórnin búið til styrkjakerfi sem styður þessi blöð og ver þá fyrir samkeppni nýrra miðla. Bæði Mogginn og Viðskiptablaðiðið munu aftur fá háar upphæðir af skattfé almennings í næsta mánuði meðan Samstöðin, svo dæmi séu tekin, fær ekkert. Samkeppniseftirlitið gerði athugasemdir við þessa tilhögun ríkisstuðnings, en á þær var ekki hlustað. Eftirlitið benti á að þessir styrkir gerðu nýjum aðilum erfitt fyrir að fóta sig á fjölmiðlamarkaði vegna forskots þeirra sem fyrir eru sem síðan er magnað með að styrkja þá sérstaklega en ekki nýja miðla.

Kerfið ver eldri miðla svo vel að Samstöðin mun vegna reglnanna ekki fá styrk í ár, ekki næsta ár og ekki heldur þar næsta ár. En allan tíman munu Mogginn og Viðskiptablaðið fá styrki og nú hefur ríkisstjórnin boðað að auka enn við styrki til þessara blaða, nánast tvöfalda upphæðina og aðlaga kerfið enn frekar að þessum tveimur blöðum umfram aðra miðla. Stefnt er að því að tengja styrkina áskriftarmiðlum en ekki miðlum í opinni og almennri dreifingu.

Þrátt fyrir þennan mikla stuðning, sem ver Moggann og Viðskiptablaðið fyrir samkeppni og færir þeim og auðugum bakhjörlum enn meira fé úr ríkissjóði, bindast þessi ríkisstyrktu fákeppnisblöð samtökum um að ráðast gegn nýrri miðlum. Það kristallast í Staksteinum dagsins, þar sem einn ríkisstyrktur fjölmiðill vitnar í annan ríkisstyrktan fjölmiðil sem ræðst að þriðja fjölmiðlinum, litlum miðli sem ekki er ríkisstyrktur, fyrir einmitt að vera ríkisstyrktur. Og helsta sökin sem þessir vörðu fákeppnismiðlar bera á litla fjölmiðilinn er að fjalla um fákeppni og skort á samkeppni.

Þetta er svo víðáttuvitlaust að lesendur verða að lesa sig í gegnum þetta.

Fjölbreyttar raddir hinna kúguðu

Dálk­ur Hug­ins og Mun­ins í Viðskipta­blaðinu ger­ir nýj­asta rík­is­fjöl­miðil­inn að umræðuefni, en ekki er þó víst að hann sé vel til þess fall­inn að auka fjöl­breytni, gagn­sæi og fjöl­ræði í fjöl­miðlum, líkt og stjórn­völd segj­ast vilja leggja allt kapp á.

Þar er fjallað um Sam­stöðina, „sem send­ir út Gunn­ar Smára Eg­ils­son áhrifa­vald að ræða við fólk sem ann­ars væri upp­tekið í umræðuþátt­um í rík­is­sjón­varp­inu“. Hana segja hrafn­arn­ir rík­is­rekna, enda hafi út­varps­stjór­inn lýst því yfir á sín­um tíma að 120 millj­óna þátt­töku­styrk­ur Sósí­al­ista­flokks­ins fyr­ir þing­fram­boð 2021 yrði notaður til að fjár­magna rót­tæka fjöl­miðlun og „styrkja rödd hinna fá­tæku og kúguðu“.

Til dæm­is um það nefna krummarn­ir tvær slík­ar radd­ir. Fyrst er nefnt „viðtal við Gylfa Magnús­son stjórn­ar­formann Orku­veit­unn­ar þar sem hann ræddi um þá skoðun sína að sekt­ir fyr­ir skatta­laga- og sam­keppn­is­brot væru verðmæt­asta fjár­fest­ing rík­is­ins“. Sem er at­hygl­is­verð skoðun hjá hag­fræðipró­fess­or.

Næst „skaut Páll Gunn­ar Páls­son for­stjóri Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins upp koll­in­um á Sam­stöðinni um helg­ina og kvartaði sár­an yfir því að stofn­un­in hans hefði ekki fengið að vaxa að um­svif­um eins og aðrar rík­is­stofn­an­ir“. Hrafn­arn­ir telja að þessi orð segi allt sem segja þarf um vöxt rík­is­um­svifa und­an­far­inn ára­tug.

Morgunblaðið og Viðskiptablaðið láta það fara í taugarnar á sér að Samstöðin ræði við prófessor í viðskiptafræði og forstjóra Samkeppniseftirlitsins, líta á þessa fulltrúa gróinna stofnana samfélagsins, sem einhverja jaðarmenn að lýsa jaðarskoðunum. Svo djúpt eru þessi blöð sokkinn í fen áróðurs frá hagsmunasamtökum hinna ríku, að þeir upplifa hófstilltan málflutning um almannahagsmuni sem undirróður, gott ef ekki byltingaboðskap.

Varðandi ríkisstyrk til Samstöðvarinnar þá er það svo stjórnmálaflokkar á Íslandi eru styrktir með tvennum hætti, eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þingflokkar fá greiddan allan kostnað við rekstur þingflokka, meðal annars mikinn fjölda aðstoðarfólks. Þessir styrkir eru veittir í takt við þingmannafjölda. Hins vegar eru stjórnmálaflokkar styrktir í takt við atkvæðamagn til að halda úti stjórnmálastarfi og efla þar með virkt lýðræði í samfélaginu. Fyrirkomulagið er ekki ósvipað sóknargjöldum, í raun ráðstafa kjósendur þessu fé með atkvæði sínu á kjörstað. Allir flokkar sem hafa þingmenn fá styrki frá þinginu og allir flokkar sem fá meira en 2,5% atkvæða fá styrk úr ríkissjóði.

Í ár fékk Sósíalistaflokkurinn 24,5 m.kr. af 692 m.kr. styrk til stjórnmálaflokkanna eða um 3,5% þótt flokkurinn hafi fengið 4,1% atkvæða. Ástæðan er að stóru flokkarnir hafa kerfið þannig að smærri flokkar fá hlutfallslega minna en stærri. Út frá samkeppnissjónarmiðum mætti færa rök fyrir að það ætti að vera öfugt. Miðað við árið í má segja að Sósíalistaflokkurinn fá sem nemur 98 m.kr. á kjörtímabili en aðrir flokkar 2.671 m.kr. Samt lætur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Mogginn og Viðskiptablaðið framlagið til Sósíalista fara sérstaklega í taugarnar á sér. Kannski vegna þess að Sósíalistar nýta þetta framlag til efla umræðu og lýðræðislega virkni.

Sósíalistar lýstu því yfir fyrir síðustu kosningar að ríkisframlag til flokksins yrði annars vegar lagt til Vorstjörnunnar, sem hefur styrkt ýmiss hagsmunasamtök almennings, og hins vegar Samstöðvarinnar, sem ætlað er að verða mótvægi við ríkisstyrktan áróður auðvaldsins, ekki síst frá Mogga og Viðskiptablaðinu. Sósíalistaflokkurinn leggur því sem nemur rétt rúmri milljón á mánuði til Samstöðvarinnar. Það kalla ríkismiðlarnir Mogginn og Viðskiptablaðið ríkisstyrk, þótt beinn styrkur til Moggans nemi um 7 m.kr. á mánuði undanfarin tvö ár og styrkurinn til Viðskiptablaðsins um 2,5 m. kr. á mánuði. Samanlagt fá þessi tvö málgögn auðvaldsins því um 9,5 m.kr. á mánuði af skattfé almennings, og nota styrkinn m.a. til að tala gegn opinni umræðu um samkeppnisbrot og fákeppni.

Þótt Samstöðin fái stuðning frá Sósíalistaflokknum þá er miðilinn fyrst og fremst rekinn fyrir áskriftir og styrki frá almenningi. Fólk getur gerst áskrifandi hér: Áskrift. Áskrifendur geta valið að vera einnig félagar í Alþýðufélaginu, en Alþýðufélagið á og rekur Samstöðina.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí