Samkeppniseftirlitið hætt að kortleggja eignatengsl útgerðarinnar

Samkeppniseftirlitið segist vera hætt að kortleggja stjórnunar- og eignartengsl í íslenskum sjávarútvegi fyrir matvælaráðuneytið eftir að dagsektir á Brim voru felldar úr gildi. Eftirlitið hyggst hefja nýja útekt á eigin vegum í staðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á vef Samkeppniseftirlitsins. Hér fyrir neðan má lesa hana í heild sinni.

Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála vegna dagsekta á Brim

Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 3/2023Brim hf. gegn Samkeppniseftirlitinu, er felld úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 29/2023. Með þeirri ákvörðun voru lagðar dagsektir á Brim hf. til að knýja á um afhendingu gagna vegna athugunar á stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja. Hafði Samkeppniseftirlitið gert samning við matvælaráðuneytið sem tryggði fjármagn til verkefnisins.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar er komist að þeirri niðurstöðu að það samræmist ekki því hlutverki sem Samkeppniseftirlitinu er fengið í samkeppnislögum sem sjálfstæðs stjórnvalds að gera sérstaka samninga við stjórnvöld um einstakar athuganir. Í úrskurðinum er jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að Samkeppniseftirlitið hafi ekki heimild til að beita valdheimildum sínum vegna athugana sem að mati áfrýjunarnefndar er stofnað til með þeim hætti. Að því virtu er það niðurstaða nefndarinnar að ekki séu uppfyllt skilyrði til að leggja dagsektir á Brim.

Að gengnum framangreindum úrskurði lítur Samkeppniseftirlitið svo á að forsendur séu brostnar fyrir samningi Samkeppniseftirlitsins við matvælaráðuneytið og mun óska eftir viðræðum við ráðuneytið um lok hans.

Ný athugun hafin á stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja

Eins og rakið hefur verið opinberlega og fram kom í sjónarmiðum Samkeppniseftirlitsins fyrir áfrýjunarnefnd tók Samkeppniseftirlitið sjálfstæða ákvörðun um að hefja athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi, í samræmi við skýrar heimildir og hlutverk eftirlitsins. Þannig hefur Samkeppniseftirlitið það hlutverk að kanna stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi og skrifa um það skýrslur, sbr. d-lið 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Hefur Samkeppniseftirlitið í ýmsum fyrri úrlausnum, sem og opinberlega birtum áherslum, bent á mikilvægi slíkrar athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu og í ljósi úrskurðar áfrýjunarnefndar hefur Samkeppniseftirlitið í hyggju að hefja nýja athugun á stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja. Jafnframt mun Samkeppniseftirlitið óska að nýju upplýsinga frá sjávarútvegsfyrirtækjum, en með því gefst hlutaðeigandi fyrirtækjum færi á að endurnýja og e.a. bæta við fyrri svör.

Þar sem að hin nýja athugun mun ekki styðjast við sérstaka fjármögnun, líkt og hin fyrri, eru allar líkur á því að athugunin og birting skýrslu á grundvelli hennar muni taka lengri tíma en upphaflega var áætlað, enda mun athugunin lúta hefðbundinni forgangsröðun innan eftirlitsins. Þannig munu t.d. athuganir á samrunatilkynningum fyrirtækja njóta forgangs vegna lögbundinna tímafresta.

Framhald samstarfs við önnur stjórnvöld

Eins og áður hefur verið greint frá hefur Samkeppniseftirlitið stefnt að og beitt sér fyrir auknu samstarfi opinberra stofnana sem hafa hlutverki að gegna í eftirliti með eða söfnun upplýsinga um stjórnunar- og eignatengsl. 

Var ætlunin að nýta reynslu úr athugun á stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja í þessu skyni. Samkeppniseftirlitið mun áfram stefna að eflingu samstarfs við önnur stjórnvöld á þessu verkefnasviði. Aftur á móti er líklegt að sú vinna tefjist af sömu ástæðum og gerð er grein fyrir hér að framan.

Mikilvægt að styrkja rekstrarsvigrúm Samkeppniseftirlitsins

Samkeppniseftirlitið hefur um langt skeið vakið athygli stjórnvalda á þeim þrönga stakk sem því er skorinn til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Í umsögn sinni til fjárlaganefndar á síðasta löggjafarþingi benti Samkeppniseftirlitið á mikilvægi aukins svigrúms í rekstri, m.a. til að mæta sveiflum í álagi við meðferð samrunamála og til að byggja upp viðvarandi eftirlit með stjórnunar- og eignatengslum.

Samningur Samkeppniseftirlitsins við matvælaráðuneytið var liður í viðleitni eftirlitsins til að bregðast við þessum vanda. Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála gefur ríkt tilefni til frekari umfjöllunar um rekstrarsvigrúm Samkeppniseftirlitsins á vettvangi fjárveitingarvaldsins.

Bakgrunnsupplýsingar:

Samkvæmt d-lið 1. mgr. 8. gr. er það hlutverk Samkeppniseftirlitsins „að fylgjast með þróun á samkeppnis- og viðskiptaháttum á einstökum mörkuðum í íslensku viðskiptalífi og kanna stjórnunar- og eignatengsl á milli fyrirtækja; skal þetta gert m.a. í því skyni að meta hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna einkenni hringamyndunar, óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem takmarkað geta samkeppni; stofnunin skal birta skýrslur um athuganir sínar og grípa til aðgerða til að stuðla að virkri samkeppni þar sem það er nauðsynlegt.“

Samkeppniseftirlitið hefur, m.a. í ljósi fyrri úrlausna, talið mikilvægt að efla yfirsýn yfir stjórnunar- og eignatengsl í íslenskum sjávarútvegi. Í því sambandi hefur eftirlitið m.a. horft til eftirfarandi atriða:

  • Mikilvægi íslensks sjávarútvegs fyrir íslenskt efnahagslíf.
  • Betri yfirsýn yfir stjórnunar- og eignatengsl innan greinarinnar mun gera eftirlitinu kleift að taka skýrari afstöðu til yfirráða og samþjöppunar í greininni. Þetta er einnig mikilvægt með tilliti til þeirra takmarkana sem gilda í lögum um hámarkshlutdeild aflaheimilda.
  • Skapa þurfi betri yfirsýn og þekkingu á tengslum sjávarútvegsfyrirtækja við fyrirtæki á öðrum sviðum atvinnulífs og samkeppnislegum áhrifum mögulegra stjórnunar- og eignatengsla að þessu leyti.
  • Aukið gagnsæi varðandi stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi mun gagnast í öðru starfi Samkeppniseftirlitsins sem og starfi annarra stjórnvalda og greinarinnar sjálfrar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí