Sigmundur Davíð með tvo aðstoðarmenn og þriðja í leyfi

Miðflokkurinn fékk 5,4% atkvæða í kosningunum 2021 og þrjá þingmenn kjörna. Birgir Þórarinsson gekk hins vegar úr flokknum nánast um leið og kjörstöðum var lokað, yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Eftir sátu þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins og Bergþór Ólason formaður þingflokksins.

Miðflokkurinn fær styrk úr ríkissjóði eins og aðrir flokkar úr 692 m.kr. potti sem flokkarnir skipta á milli sín. Fyrst fær hver þingflokkur 12 m.kr. og svo er restinni skipt milli flokkanna eftir kjörfylgi. Þar sem hver þingflokkur fær jafn mikið veldur þetta því að minnsti þingflokkurinn uppsker mest. Styrkurinn í ár til Miðflokksins er þannig um 4.076 kr. á atkvæði á meðan Sjálfstæðisflokkurinn fær 3.247 kr. á atkvæði og Sósíalistaflokkurinn 3.002 kr.

Þetta er hinn almenni styrkur til stjórnmálahreyfinga. Þingflokkarnir fá síðan styrk til að reka sig, annars vegar beinharða peninga og hins vegar skaffar þingið þingflokkunum aðstoðarfólk og formönnum flokkanna sérstaklega. Þegar 107 m.kr. beinum styrk er deilt út er úthlutað þannig að hver þingflokkur fær eitt stig, síðan hver þingmaður eitt stig og svo fá stjórnarandstöðuflokkarnir aukastig, þar sem flokkarnir vita að stjórnarflokkar nota ráðuneytin til að þjóna sér. Af þessum sökum fær minnsti þingflokkurinn sem er í stjórnarandstöðu mest. Miðflokkurinn fær þannig tæpar 2,7 m.kr. á þingmann á meðan aðrir stjórnarandstöðuflokkar fá rúmar 2,1 m.kr. á hvern þingmann og stjórnarflokkarnir tæpar 1,4 m.kr.

Reglurnar um aðstoðarfólkið hjálpar líka Miðflokknum. Á vef Alþingis eru skráðir þrír aðstoðarmenn hjá Miðflokknum, allir aðstoðarmenn formannsins. Einn þeirra er reyndar í leyfi, og ekki kemur fram hvort það er launað. Miðflokkurinn hefur þannig einn aðstoðarmann á hvern þingmann á meðan stjórnarandstöðuflokkarnir hafa 2/3 aðstoðarmann á hvern þingmann og stjórnarflokkarnir um 1/3 aðstoðarmann á hvern þingmann. Þegar aðstoðarmenn ráðherra eru taldir með eru stjórnarflokkarnir auðvitað með miklu fleiri aðstoðarmenn.

En Sigmundur Davíð fær sem sé rúmar 44 m.kr. í ár vegna Miðflokksins almennt, rúmar 5 m.kr. vegna þingflokksins og svo tvo aðstoðarmenn sem kosta líklega um 40 m.kr. á ári, laun og vinnuaðstaða. Landsmenn greiða Sigmundi og flokki hans um 91 m.kr. árlega til að halda uppi pólitísku starfi sínu. Það gera um 364 m.kr. á kjörtímabili. Og þá eru laun hans sjálfs ekki talin með.

Sigmundur Davíð er með 2.018.373 kr. á mánuði í laun og fær auk þess greiddar 265.088 kr. vegna kostnaðar, meðal annars vegna þess að hann er með lögheimili á eyðibýli austur á landi. Með launatengdum gjöldum má ætla að kostnaðurinn sé um 3 m.kr. á mánuði. Bergþór er ódýrari, laun hans, launatengd gjöld og kostnaðargreiðslur eru um 2 m.kr. kr. Þingflokkurinn kostar því um 5 m.kr. á mánuði, 60 m.kr. á ári og 240 m.kr. á kjörtímabili.

Það munu því renna rúmar 600 m.kr. á kjörtímabilinu í pólitískt starf Sigmundar Davíðs og Miðflokksins.

Myndin er af Sigmundi, með aðstoðarfólk sitt á innfelldu myndunum talið frá vinstri: Fjóla Hrund Björnsdóttir sem er í leyfi, Una María Óskarsdóttir og Hannes Karlsson.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí