„Í kynningu fjármálaráðherra á fjárlögum fyrir árið 2024 hefur komið fram að hagvöxtur á Íslandi er nú með mesta móti og skuldir hins opinbera eru með minnsta móti í samanburði við grannríkin. Horfur eru áfram ágætar. Hér ríkir því mikið góðæri og hagnaður fyrirtækjanna er í methæðum, meðal annars vegna óhóflegra verðhækkana þeirra,“ segir í umsögn Eflingar um fjárlagafrumvarpið.
„Ríkisstjórnin talar um að hún vilji leggja eitthvað markvert til komandi kjarasamninga, með auknum tilfærslum til heimilanna. Þess sér hins vegar ekki merki í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024. Þvert á móti verða tilfærslur til heimilanna í sögulegu lágmarki á komandi ári. Umtalaðar hækkanir barnabóta og vaxtabóta á síðustu árum eru að mestu sýndarhækkanir sem litlu sem engu hafa skilað,“ segir síðan íumsögninni. Og svo greinir Efling nokkra þætti
Raunvirði barnabóta og vaxtabóta hefur rýrnað
Á eftirfarandi þremur myndum er sýnt hvernig helstu tilfærslur velferðarkerfisins til heimila vinnandi fólks munu þróast á þessu ári og því næsta, í samhengi við útgjöld til þessara málaflokka á síðustu 25 árum eða svo. Áætlun fyrir árin 2023 og 2024 byggir á tölum í fjárlögum og áætlun Hagstofunnar um landsframleiðsluna.
Fyrsta myndin sýnir að kostnaður við barnabætur stefnir í að verða í sögulegri lægð árin 2023 og 2024, þrátt fyrir að ríkisstjórnin segist vera að efla kerfið. Útgjöldin verða rétt um helmingur af því sem var árið 1998 og fyrr, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Bæturnar voru hækkaðar með eingreiðslum árin 2020 og 2021 (sem síðan hafa horfið), en á sama tíma hafa bæturnar ekki verið verðbættar að fullu frá árinu 2019 til dagsins í dag. Á næsta ári er stefnt á hækkun en hún mun ekki ná að verðbæta upphæðina að fullu fyrir árið 2023.
Þegar horft er til vaxtabóta þá hefur það stuðningskerfi verið eyðilagt þó að verð íbúða á Íslandi hafi hækkað meira en í nokkru öðru Evrópulandi á síðasta áratug, og þar með þörfin fyrir stuðning eins og vaxtabótakerfið ætti að geta veitt. Óhóflegar verð- og vaxtahækkanir hafa lokað húsnæðismarkaðinum fyrir fólki úr lægri tekjuhópum og fest það á leigumarkaði þar sem leiga er það há að ekki er möguleiki fyrir láglaunafólk að spara upp í útborgun fyrir hóflega íbúð, eins og var þó mögulegt á árum áður, þegar alvöru verkamannabústaðakerfis naut við. Þannig hefur byggst upp mikill vandi á húsnæðismarkaði sem vara mun mörg ár inn í framtíðina.
Næsta mynd sýnir að útgjöld vegna vaxtabóta eru nú einungis um einn tíundi af því sem var á árunum 1998 til 2004 (0,06% á móti 0,6% af landsframleðslu). Vinstri stjórnin hækkaði bæturnar verulega eftir hrunið 2008 en eftir stjórnarskiptin 2013 hefur vaxtabótakerfið verið látið fjara út á miklum hraða.
Á síðasta ári (2022) var tilkynnt um verulega hækkun eignaskerðingarmarka í vaxtabótakerfinu, sem höfðu verið óbreyttar um langt árabil þegar íbúðaverð stórhækkaði. Það var gert án þess að hækka upphæð bótanna og skilaði þessi breyting því litlu. Útgjöldin sem þessu fylgja ná að færa raunvirði vaxtabótanna á árinu 2023 til þess sem var árið 2020. Það er því fyrst og fremst sýndarhækkun – hænuskref. Á árinu 2024 er gert ráð fyrir raunlækkun vaxtabótanna á ný, skv. fjárlagafrumvarpinu.
Útgjöld til húsaleigubóta hafa haldið sér betur yfir tíma, sem hlutfall af landsframleiðslu, eins og næsta mynd sýnir, en leigjendum hefur samt fjölgað mikið á síðasta áratug.
Leigubæturnar voru hækkaðar nokkuð í Kóvid-kreppunni. Þær lækkuðu svo aftur sem hlutfall af landsframleiðslu árið 2022. Gert er ráð fyrir auknum kostnaði af þeim í ár en síðan munu þær lækka aftur að raunvirði á árinu 2024, meira en nemur verðbólgunni.
Þó húsaleigubætur hafi haldið sér betur að raunvirði yfir tíma en barna- og vaxtabætur þá hafa þær ekki dugað til að vega nægilega gegn hárri leigu. Meðal leigjandinn greiðir nú um 45% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu, en markmið stjórnvalda bæði hér á landi og í ESB-löndunum er að byrði húsnæðiskostnaðar hjá leigjendum fari ekki yfir 25% af ráðstöfunartekjum. Hátt í 60% Eflingar-meðlima telja sig bera þungar byrðar vegna leigukostnaðar. Betur má ef duga skal.
Barnabætur og húsnæðisstuðningur eru ein öflugustu tækin til að draga úr fátækt meðal barnafjölskyldna. Þeim tækjum hefur ekki verið beitt í nærri sama mæli og var á tímabilinu frá 1988 til 1995 – og áfram á aðeins lægra stigi til 2004.
Á síðustu tveimur árum hefur afkoma heimila versnað umtalsvert, vegna hækkandi húsnæðiskostnaðar og verðbólgu. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur rýrnað. Því hefði verið æskilegt að stórauka útgjöld til þessara stuðningskerfa heimilanna, sem hefði skipt láglaunafólk miklu máli.
Ríkisstjórnin mun fá tækifæri til að bæta um betur ef hún vill leggja eitthvað markvert til komandi kjarasamninga í vetur. Þar munu þó engar sýndarbætur duga.
Hátekju- og stóreignafólki er áfram hlíft í skattkerfinu
Á sama tíma og stuðningskerfi heimilanna hafa færst í sögulega lægð, einmitt þegar þörfin fyrir þau hefur stóraukist, þá er enn verið að hlífa hátekju- og stóreignafólki í skattkerfinu. Það er gert með lægri álagningu á fjármagnstekjur en tíðkast á hinum Norðurlöndunum; lægri álagningu á hæstu atvinnutekjur en tíðkast á hinum Norðurlöndunum; og alltof lágum auðlindagjöldum.
Á sama tíma og vaxtahækkanir seðlabankans og verðhækkanir hafa lokað íbúðamarkaðinum fyrir lágtekjufólki þá nýtur ferðaþjónustan mikilla skattaívilnana sem ýta undir of hraðan vöxt hennar, sem einnig setur húsnæðismarkaðinn langt úr jafnvægi, sem taka mun mörg ár að vinda ofanaf. Einungis hænuskref eru tekin til að rétta þessa skekkju af, með endurupptöku gistináttagjalds sem lagt var af í Kóvid kreppunni.
Engin merki eru um heilbrigðar úrbætur til að vinna gegn skattaundanskotum, né að jafna skattbyrði fjármagnstekna þeirra best settu og atvinnutekna almenns launafólks.
Áherslur ríkisstjórnarinnar eru þannig allar til hagsbóta fyrir fyrirtækin en heimilin þurfa að sætta sig við sýndarhækkanir á stuðningi úr tilfærslukerfunum. Stefnt er að því að góðærið sem fjármálaráðherra talar um renni eingöngu til fjármagnseigenda og stjórnenda einkafyrirtækja.
Þegar talsmenn ríkisstjórnarinnar tala nú um að fátækt fari minnkandi og að allir séu að gera það gott þá er augljóslega um blekkingar að ræða.
Frétt af vef Eflingar