Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að heimila fjármála- og áhættustýringarsviði, eignaskrifstofu, að hefja söluferli á Perlunni auk tveggja vatnstanka í Öskjuhlíð. Fréttatilkynning vegna þessa var svo send til allra fjölmiðla. Svo virðist þó sem meirihlutinn í Reykjavík hafi hlaupið á sig, því tillagan þarf að fara fyrir borgarstjórn. Ástæðan fyrir þessu er að Sósíalistar í Reykjavík kusu gegn því að selja Perluna. Ástæðan fyrir því er meðal annars að með því að selja Perluna þá yrðu borgarbúar af talsverðum tekjum á ári hverju. Borgin fær um 20 milljónir króna á hverjum mánuði, 240 milljónir á ári, í leigutekjur.
„Tilkynnt er á síðu Reykjavíkur að Perlan sé komin í söluferli. Það stenst ekki. Sósíalistar greiddu atkvæði gegn tillögunni og þarf hún því að fara fyrir borgarstjórn. Það er ekki hægt að hefja söluferli nema slíkt sé samþykkt á þeim vettvangi. Meirihlutinn vanvirðir þann lýðræðislega vettvang sem borgarstjórn er með því ítrekað að tilkynna um ákvarðanir sem hafa ekki fengið staðfestingu hennar,“ segir tilkynningu Sósíalista, sem heldur áfram:
„Sósíalistar eru á móti einkavæðingu Perlunnar. Byggingin er eitt af kennileitum borgarinnar og hefur þar að auki skilað Reykjavík umtalsverðum tekjum. Með sölu á henni er ljóst að borgin verður af miklum fjárhæðum til lengri tíma litið. Á sama tíma sjáum við gjaldskrár hækka á íbúa og niðurskurð á grunnþjónustu. Borginni veitir ekki af hverri krónu, og því væri það slæm ákvörðun að selja byggingu sem aflar tekna.“