Tók Sigmund Davíð til bæna í Háteigskirkju – Öfgahægrimaður sem vill hafa Guð í rassvasanum

Það er svo gott sem öruggt að engin sóknarbörn á landinu hafi hlýtt á jafn mikla eldræðu í dag og sóknarbörn Háteigskirkju. Þar flutti séra Davíð Þór Jónsson predikun í morgun og notaði hann tækifærið til að segja Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, til syndanna. Davíð Þór sagði meðal annars að það væri ekki skrýtið þó að Sigmundur héldi að kristinn boðskapur snerist eingöngu um fyrirgefningu, því það séu persónulegir hagsmunir fyrir Sigmund að fá fyrirgefningu synda sinna. Hann talaði þó ekki einungis um Sigmund heldur einnig um að kirkjan hafi verið „woke“ frá stofnun.

Hér fyrir neðan má lesa predikunina í heild sinni.

Lexía: Nei, sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.

Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði og sár þín gróa skjótt, réttlæti þitt fer fyrir þér en dýrð Drottins fylgir eftir. Þá muntu kalla og Drottinn svara, biðja um hjálp og hann mun segja: „Hér er ég.“

Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal, hættir hæðnisbendingum og rógi, réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í og seður þann sem bágt á, þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur. (Jes 58.6-10)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Hvað er kirkjan að skipta sér af pólitík? Af hverju heldur hún sig ekki bara við það sem til hennar friðar heyrir og lætur stjórnmálamenn um stjórnmálin?

Nokkurn veginn á þessa leið var innihald greinar sem íslenskur stjórnmálamaður skrifaði í breskt íhaldsblað ekki fyrir löngu síðan. Í greininni fullyrti hann að kirkja sem væri “woke” væri á villigötum og dæmd til að bregðast skyldum sínum. Kirkjunni bæri að forðast afskipti af þjóðfélagsmálum, en halda sig við að prédika fyrirgefningu syndanna.

Fyrirgefning syndanna

Það er reyndar áhugavert að hægriöfgamönnum skuli vera svona umhugað um akkúrat þennan hluta af kristnum boðskap; fyrirgefningu syndanna. Það virðist vera það fyrsta – ef ekki það eina – sem þeim dettur í hug þegar talið berst að grundvallarkenningum kristinnar trúar. Þar á bæ virðast boðin um að elska náungann, gæta réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og að hýsa vegalausa, vera svolítið í öðru og þriðja sæti á eftir loforðinu um fyrirgefningu syndanna.

Nú er í sjálfu sér ekkert skrýtið að öfgahægrimönnum finnist fyrirgefning syndanna vera helsta grundvallaratriði kristinnar trúar, enda eflaust meiri persónulegir hagsmunir í húfi fyrir þá hvað það varðar heldur en flesta aðra.

En hitt er óneitanlega svolítið skrýtið, að þegar kirkjan hefur tekið undir skoðanir þeirra eins og hún illu heilli hefur orðið uppvís að því að gera nokkrum sinnum í gegnum aldirnar – ekki síst þegar kirkjan hefur verið dragbítur á kynfrelsi og jafnrétti manna óháð kynferði, kynáttun og kynhneigð – þá hafa þeir mér vitanlega aldrei bent á að þarna sé kirkjan komin út fyrir verksvið sitt og farin að skipta sér af pólitík.

Þannig að í raun finnst þeim ekki að kirkjan eigi ekki að skipta sér af pólitík. Þeim finnst miklu fremur að kirkjan eigi að vera sammála þeim í pólitík. Það er það sem málið snýst um. Þeim finnst þeir eiga að eiga kirkjuna. Þeir vilja hafa Guð í rassvasanum og geta dregið hann upp sem “losna-úr-fangelsi-ókeypis” spil í Matador hvenær sem þeir þurfa þess með.

Kirkja og pólitík

En hvað er pólitík? Pólitík er stjórn-mál, það er að segja þau mál sem varða það hvernig ríki er stjórnað. Orðið er grískt að uppruna, dregið af gríska orðinu “polis” sem merkir borg. Á dögum borgríkja var það notað um stjórn borgarinnar/ríkisins.

Við getum kallað pólitík/stjórnmál eitthvað annað. Við getum kallað það “samfélagsmál” ef okkur líður betur með það, því það er í raun það sem málið snýst um. Í hvernig samfélagi viljum við búa? Hvaða lög og reglur eiga að gilda?

En ekki bara hvaða lög og reglur eiga að gilda. Áður en við getum farið að setja lög og reglur verðum við nefnilega að spyrja okkur: “Á hverju ætlum við að byggja? Á hvaða undirstöðum viljum við að lög okkar og reglur hvíli? Hvaða grunngildi viljum við að samfélagið hafi í heiðri?”

Ef þetta liggur ekki fyrir áður en byrjað er að setja lög og reglur er hætta á að lögin og reglurnar sem við setjum stangist á við grunngildi samfélagsins.

Kristinn maður vill ekkert endilega búa í samfélagi þar sem kristin trúarbrögð eru allsráðandi. En ég trúi ekki öðru en að hann vilji að grunngildi samfélagsins sem hann tilheyrir séu ekki í hrópandi mótstöðu við helstu grunngildi kristinnar trúar.

Og fyrirgefning syndanna, þótt hún sé góð og gild, er ekki grunngildi kristinnar trúar, heldur aðeins ein afleiðinga þeirra.

Grunngildi kristinnar trúar er kærleikur.

Guð er kærleikur.

Af því leiðir að hann fyrirgefur syndir.

Höfum á hreinu hvort kemur á undan, hver er undirstaðan, hvort hvílir á hinu.

Guð er kærleikur

“Nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur,” segir Páll postuli. Sjálfur höfuðvitnisburður trúarinnar setur trúna í annað sæti á eftir kærleikanum. Trúin er og á að vera þjónn kærleikans.

Það er voða mikið í tísku núna að vera “woke”, þó ekki alveg eins mikið og það er í tísku að tala niðrandi um að vera “woke”.

En hvað er “woke”? Að vera “woke” er í raun aðeins að hafa sterkar skoðanir á samfélagsmálum í þá átt að jafnrétti og réttlæti eigi að ríkja á öllum sviðum. Það er ekki flóknara. Þeir sem eru “woke” eru gegn hvers konar mismunum, hvort sem hún er á forsendum kynferðis, búsetu, ætternis, upruna, trúar, kynþáttar, kynáttunar eða kynhneigðar, svo fátt eitt sé nefnd.

Þar sem hugtakið “woke” er nýtt af nálinni og tískuorð í umræðunni í samfélaginu (einkum þó í umræðunni um umræðuna í samfélaginu) er hægt að ætla að kirkjan hafi sveigt af leið af markaðri stefnu sinni með því að taka þessa splunkunýju hugmyndafræði upp á arma sína og gera hana að sinni.

Og við getum spurt okkur eins og stjórnmálamaðurinn gerði í áðurnefndri grein: “Hvenær varð kirkjan eiginlega “woke”?

Sem betur fer er auðvelt að svara þeirri spurningu.

Svarið er: “Á fimmtu öld fyrir Krist.”

Jesaja og pólitík

Þúsund til fimmhundruð árum áður en kirkjan var stofnuð var grunnurinn lagður sem Jesús frá Nasaret reisti kristna hugmyndafræði á.

Á fimmtu öld fyrir Krists burð sat spámaður í smáríki fyrir botni Miðjarðarhafsins, ríki sem stöðugt bjó við ógnir og jafnvel yfirráð herveldanna sem umkringdu það, spámaður sem við vitum ekki hvað hét en guðfræðingar kalla Trító-Jesaja, sem merkir aðeins “þriðji Jesaja” því rit hans … eða þeirra, því sennilega voru þeir nokkrir … eru varðveitt í lokaköflum Spádómsbókar Jesaja í Gamla Testamentinu. Spámaður þessi ritaði þessi orð í orðastað Guðs föður almáttugs: “Sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn …” (Jes 58.6-7a)

Þetta er eins “woke” og hægt er að vera.

Þótt hugtakið sé nýtt af nálinni er hugmyndafræðin sem það er notað um alls ekki einhver ný bóla.

“Að þú hýsir bágstadda hælislausa menn.”

Hvað er Trító-Jesaja eiginlega að skipta sér af pólitík?

Staðreyndin er sú að það er kirkja, sem ekki er “woke”, sem er að sveigja af leið. Af þeirri leið sem Jesús markaði þegar samfélag hans var komið í ógöngur af því að lögin og reglurnar voru hættar að taka mið af því sem mér skilst að í lögfræði sé kallað “andi laganna”.

Lögmálið og reglugerðafarganið

Jesús lifði og starfaði í samfélagi þar sem ofuráhersla var lögð á að framfylgja lögum og reglum af smásmyglislegri kostgæfni, alloft á kostnað sjálfs náungakærleikans sem samfélagið hafði þó verið grundvallað á, í orði kveðnu, um aldir.

Jesús er spurður hvert sé æðsta boðorðið í lögmálinu og hann svarar: “Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.” (Matt 22. 37b-39) Síðan bætir hann við: “Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.” (Matt 22.40)

Allt lögmálið og spámennirnir. Ekki bara hluti þeirra eða jafnvel obbinn af þeim. Nei, allt lögmálið og spámennirnir.

Allt annað í lögmálinu og spámönnunum eru með öðrum orðum útfærslur á þessu.

Það eru ekki mörg sagnorð í þessum texta. Í raun má segja að það sé bara eitt: að elska.

Þetta æðsta boðorð var dálítið gleymt í því samfélagi sem Jesús lifði og starfaði í, það hafði verið grafið svo djúpt á kaf í útfærslur af sjálfu sér að það glitti ekki lengur í það á bak við reglugerðafarganið.

Jesús blés rykið af því, henti óþarfanum sem hafði verið hrúgað ofan á það og fór aftur til rótanna, aftur til hins einfalda. Þetta er ekkert flókið. Þetta er auðskilið og skýrt. Stefnan er skýr.

Guð er kærleikur. Við viljum að lög okkar og reglur þjóni kærleikanum en séu ekki sett til höfuðs honum.

Bókstafurinn gegn grunngildunum

Og þá er komið að því að spyrja: “Af hverju ertu að segja mér þetta? Hvaða erindi á þessi frásögn við mig í dag?”

Fyrir skömmu ritaði, dr. Hjalti Hugason, prófessor emiritus og fyrrum forseti guðfræðideildar Háskóla Íslands áhugaverða grein í Kirkjublaðið. Greinin heitir: “Ólík andlit Þjóðkirkjunnar.” Ég mæli með því að allir menn, ekki bara kristnir, lesi þessa grein því hún er yfirvegað og vel rökstutt svar við þeirri ómaklegu gagnrýni sem kirkjan hefur orðið fyrir undanfarið vegna afstöðu sinnar til samfélagsmála í samtíma okkar.

Í greininni segir Hjalti meðal annars: “… í guðspjöllunum úir og grúir af sögum sem segja frá því er Kristur braut lög þjóðar sinnar einmitt til að standa vörð um mannlega reisn þeirra sem hafði verið útskúfað. Sú staða getur líka vel komið upp að kirkja hans þurfi að gera slíkt hið sama ef bókstafur eða framkvæmd laga brýtur augljóslega gegn kröfu kærleikans.”

Sú staðreynd að fyrrum guðfræðiprófessor og forseti guðfræðideildar Háskóla Íslands skuli stíga fram fyrir skjöldu og rökstyðja hugsanlega nauðsyn borgaralegrar óhlýðni af kirkjunnar hálfu ætti að segja okkur að eitthvað mikið búi undir. Svona segja orðvarir og yfirvegaðir menn eins og dr. Hjalti Hugason ekki bara út í loftið algerlega að tilefnislausu.

Við erum í raun komin í svipaðar ógöngur og samfélagið sem Jesús lifði og starfaði í. Bókstafur laganna og framkvæmd þeirra brjóta gegn grunngildum kristinnar trúar; náungakærleikanum.

Við það verður ekki unað.

Stofnskrá kirkjunnar er bara allt of “woke” til að hún geti staðið aðgerðarlaus og þögul álengdar þegar þannig standur á.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí