Vinstrið krefst réttlátra orkuskipta, umhverfisráðherra svarar með tækifærishyggju

Á rúmri viku hefur tvennur andstæður skilningur á inntaki hugmyndarinnar um loftslagsaðgerðir birst meðal stjórnar og stjórnarandstöðu. Á mánudag í liðinni viku mælti Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, fyrir tillögu til þingsályktunar um réttlát græn umskipti.

Loftslagsaðgerðir á grundvelli velferðar

Tillaga þingflokks Samfylkingarinnar hljóðar svona:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til að tryggja réttlát græn umskipti og leggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. apríl 2025. Við gerð aðgerðaáætlunarinnar verði kallað eftir samráði við verkalýðsfélög, sveitarfélög og atvinnurekendur. Markmið áætlunarinnar verði að koma í veg fyrir það ójafnrétti sem hlotist getur af loftslagsvá og tryggja að græn umskipti ýti undir aukinn jöfnuð í samfélaginu ásamt því að fjárlög og fjármálaáætlanir endurspegli vilja Íslands til að standa við skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi í loftslagsmálum.“

Þegar Oddný mælti fyrir tillögunni tók hún fram að hún hefði áður verið lögð fram á tveimur síðustu þingum en ekki náð fram að ganga. Hún sagði: „Fjárlög og fjármálaáætlanir þurfa að endurspegla vilja Íslands til að standa við skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi og verða að sýna skýrari merki en nú um metnað stjórnvalda í loftslagsmálum.“

Hugmyndin um réttlát orkuskipti grundvallast á því að gæta skuli þess að kostnaður vegna orkuskipta falli ekki á tekjulægri hópa eða íbúa í dreifðum byggðum umfram aðra: „Engin samfélagssátt næst um hröð orkuskipti og aðrar breytingar á atvinnu- og lifnaðarháttum nema velferðarsjónarmið séu höfð að leiðarljósi“ og fyrrnefnd atriði tryggð, sagði Oddný.

Ef maður hefði búið í helli síðustu fimm ár …

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, var á meðal þeirra sem tóku til til máls um tillöguna og sagði: „Ég vil kannski byrja á því hvernig tillagan myndi slá mann ef maður hefði búið í helli síðustu fimm ár og myndi koma hingað inn á þing, grípa tillöguna og lesa: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til að tryggja réttlát græn umskipti …“ – Er það ekki það sem hún á að gera hvort eð er? Þetta er svo mikið grundvallaratriði, svo mikið grundvallarverkfæri til að ná einhverjum árangri í loftslagsmálum, að auðvitað ætti ríkisstjórnin að vera löngu búin að gera þetta. En vandinn er einmitt, eins og virðulegur forseti þekkir vel, að hún er ekki búin að því.“

Andrés Ingi sagðist hafa spurt fyrrnefndan umhverfisráðherra hvenær hann ætlaði að uppfæra aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar um 55% samdrátt í losun. Í svari ráðherrans hafi kmoið fram „að hann teldi sig ekki bundinn af neinu öðru en lagarammanum, þar sem stendur að aðgerðaáætlun skuli uppfæra eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Hann ætlar að fullnýta sér þann tíma og koma með uppfærða aðgerðaáætlun núna um áramótin, þegar meira en helmingur er liðinn af þessu kjörtímabili.“

Stjórnvöld skera niður aðgerðir gegn losun

Andrés tiltók að af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur þó gripið til hafi niðurgreiðsla á rafbílum vegið þyngst. Um þá nálgun sagði Andrés: „Það er vissulega ein af aðgerðunum sem þurfti að grípa til, en að hún sé langtum stærri en nokkuð annað sem þessi ríkisstjórn hefur gripið til — aðgerð sem gagnast fólki með tekjur yfir meðallagi, sem er ekki þannig úr garði gerð að tryggt sé að hún dragi einu sinni úr fjölda fólksbíla á götunum vegna þess að rafbíllinn getur verið fjórða eða fimmta bifreið á heimili ef fólk vill og ívilnunin fylgir samt, þá er ekkert réttlæti í þessari aðgerð.“

Hér og nú sé ríkisstjórnin aftur á móti að draga saman umfang þeirra aðgerða sem hún hafi þó gripið til í þágu loftslagsmála. Bein framlög til málaflokka umhverfis- og orkumála muni lækka um 1,7 milljarða, samkvæmt fjárlagafrumvarpi. Að auki muni niðurgreiðsla rafbíla lækka um 4,8 milljarða. Samanlagt sé því verið að skera niður á sviðinu um 6,5 milljarða.

Mjög ánægjulegt að við séum komin á þennan stað

Rúmri viku síðar, nú á þriðjudag, boðaði umhverfisráðherra til fundar til að kynna skýrslu stýrihóps um „loftslagsþolið Ísland“ í húsi í Þingholtunum. „Þetta eru ákveðin tímamót, þessi dagur,“ sagði Guðlaugur Þór þegar hann kynnti skýrsluna, sem fjallar ekki um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, heldur um aðgerðir til aðlögunar að þeim. „Kemur kannski ekki til af góðu en það er mjög ánægjulegt að við séum komin á þennan stað að við getum kynnt hér skýrslu: Loftslagsþolið Ísland, tillögur fyrir gerð landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum.“

Það mátti skilja á umhverfisráðherra að hann hafi ekki gefið mikinn gaum að sviðinu hingað til. Hann gaf til kynna að loftslagsbreytinga eða afleiðingar þeirra séu nýuppgötvaðar, ekki hafi verið varað við þeim árum og áratugum saman, að jafnvel fyrir aðeins tíu árum síðan hafi hvorki stjórnvöld né aðrir vitað það sem þau viti nú, þegar hann sagði: „Ef við vissum það sem við vitum núna,“ sagði hann á þriðjudag, „hefðum við vitað það fyrir 10, 20, 30, 40 ég tala ekki um 50 eða 100 árum, þá hefðum við skipulagt innviði og ýmislegt annað með öðrum hætti.“

„Ákveðin óveðursský en … líka tækifæri“

Í ljósi þess sem fram kom í máli stjórnarandstöðunnar viku áður virðist ljóst að ráðherrann hefur rétt fyrir sér þegar hann segir skýrsluna Loftslagsþolið Ísland fela í sér ákveðin tímamót. Andspænis aðgerðaleysi stjórnvalda í því sem hingað til hafa kallast „loftslagsaðgerðir“ eða „loftslagsmál“ birtist áhersla ráðuneytis hans á aðlögun sem nokkuð afdráttarlaus pólitísk yfirlýsing.

Á sama tíma og stjórnvöld láta í veðri vaka að þau vinni að háleitum markmiðum um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, að Ísland leggi sitt af mörkum til að sporna gegn hitnun jarðar, virðist ráðherra málaflokksins í raun og veru leggja umtalsvert meira kapp á að búa landið undir loftslagshörmungar sem orðinn hlut, að jörðin muni halda áfram að hitna, og það eina viturlega í stöðunni sé að búa sig undir það og grípa tækifærin, eins og ráðherra orðaði það á þriðjudag: „Það getur styrkt mann að vera í storminum. Það eru ákveðin óveðursský en í því felast líka tækifæri ef við vinnum rétt úr því.“

Þessa leikbók þekkir hver sem vill forðast að leysa vanda: að láta eins og hann sé ekki til staðar fyrr en hann er orðinn fullkomlega óumflýjanlegur og segja þá af yfirvegun að nú sé það því miður orðið of seint. Andspænis kröfu vinstrisins um réttlát græn umskipti virðist ríkisstjórnin boða blákalda tækifærishyggju.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí