Andleg heilsa grunnskólabarna er slæm á Íslandi. Þetta sýna niðurstöður úr íslenskri æðskulýðsrannsókn mjög skýrt. Um 40 prósent nemenda í 6. bekk hafa upplifað kvíða á síðustu sex mánuðum. Um 30 prósent nemenda í sama bekk höfðu verið döpur. Niðurstöðurnar sýna á áberandi hátt að andleg heilsa íslenskra stúlkna er talsvert verri en drengja.
Kvíði meðal nemenda í 10. bekk ríkur svo upp, og er um 56 prósent. Sé þessum niðurstöðum skipt upp eftir kynjum þá má sjá að það eru fyrst og fremst stúlkur sem upplifa mikinn kvíða. Svo mikinn raunar að í 10. bekk þá eru stúlkur sem upplifa ekki kvíða í miklum minnihluta.
Æskulýðsrannóknin sýnir fram á að 78 prósent stúlkna á höfuðborgarsvæðinu sem eru í 10. bekk hafa upplifað kvíða. Hjá strákum er hlutfallið talsvert lægra, en þó frekar hátt, en um 40 prósent drengja í 10. bekk á höfuðborgarsvæðinu hafa upplifað kvíða á síðustu sex mánuðum.
Hvað varðar þunglyndi þá er svipaða sögu að segja þar. Grunnskólabörn voru spurð hvort hvort þau hefðu á síðastliðnum 6 mánuðum fundið fyrir depurð. Um 31 prósent krakka í 6. bekk svöruðu því játandi og var sú tala komin upp í 45 prósent í 10. bekk. Líkt og með kvíða þá virðast það fyrst og fremst vera stúlkur sem upplifa depurð. Um 35 prósent stúlkna í 6. bekk höfðu verið daprar en í 10. bekk var hlutfallið rokið upp í 58 prósent.