500 handtekin er þúsundir gyðinga mótmæltu framferði Ísraels í Washington

Um 350 manns úr hópi bandarískra gyðinga mótmæltu aðgerðum Ísraels á Gasa með setuaðgerð í skrifstofubyggingu fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í gær, miðvikudag, og neituðu að fara þar til þingið samþykkti að fara fram á vopnahlé á Gasa. Fyrir utan bygginguna mótmæltu um leið þúsundir úr sama hópi, þar á meðal á þriðja tug rabbína, sem leiddu bænagjörð fyrir utan þinghúsið. Lögregla var kölluð til og stöðvaði mótmælin með handtökum. Skipuleggjendur mótmælanna segja að um 500 þátttakendur hafi verið handteknir.

Setuaðgerðin í skrifstofubyggingunni fór fram undir hádegi á staðartíma í Washington, undir kvöldmatarleyti á Íslandi. Mótmælasamkoman hófst þó nokkru fyrr, á Þjóðvanginum (National Mall) í Washington. Meðal þeirra sem ávörpuðu mótmælendur þar var rithöfundurinn Naomi Klein, ásamt fulltrúadeildarþingkonunum Rashidu Tlaib og Cori Bush.

Samtökin If Not Now og Jewish Voice for Peace (JVP) stóðu saman að mótmælunum. JVP greindu frá mótmælaaðgerðinni á Twitter á meðan hún stóð yfir og skrifuðu meðal annars: „Við erum hér til að segja: ekki í okkar nafni og aldrei aftur. Og við munum halda áfram borgarlegri óhlýðni þar til þingið kallar eftir vopnahléi á Gasa eða neyðir okkur til að fara.“ Þau segja vopnahlé vera „fyrsta skrefið til að stöðva yfirstandandi þjóðarmorð Ísraelshers gegn tveimur milljónum Palestínumanna í Gasa undir umsátri, án útleiðar.“

Naomi Klein ávarpar mótmælendur á Þjóðvanginum (National Mall) í höfuðborginni á miðvikudag.
Mótmælagangan að skrifstofum þingsins.
Setuaðgerðin í skrifstofubyggingunni.
Lögregla leiðir handtekna mótmælendur út úr skrifstofubyggingu fulltrúadeildarinnar.

Taktföst mótmæli gegn hernaði Ísraels

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur tekið þann pól í hæðina að heita Ísraelum „fordæmalausum“ stuðning í formi hergagna og standa í vegi fyrir kröfum um vopnahlé en þrýsta um leið á Ísrael að fylgja alþjóðlegum viðmiðum um mannúð í stríði, á við að að óbreyttum borgurum verði að einhverju leyti gert kleift að neyta matar og drykkjar á meðan á hernaðinum stendur.

Áður greindum við frá því að síðastliðinn föstudag voru 80 gyðingar handteknir í fimm stórborgum Bandaríkjanna er þeir mótmæltu sömu aðgerðum, meðal annars fyrir utan heimili fulltrúadeildarþingmannsins Chuck Schumer í New York borg. Samtökin hafa haldið til streitu taktföstum mótmælum síðan þá, en á mánudag í þessari viku mótmæltu þau fyrir utan Hvíta húsið og kröfðu bandarísk stjórnvöld um að þrýsta á Ísrael um að falla frá áformum sínum um innrás í Gasa og lýsa þess í stað yfir tafarlausu vopnahléi. Þá voru að minnsta kosti 30 úr hópi mótmælenda handteknir.

Embættismaður segir af sér

Í tengdum fréttum: Á miðvikudag greindi Huffington Post frá því að einn hátt settur embættismaður innan bandaríska Utanríkismálaráðuneytisins hafi sagt upp vegna þessarar stefnu. Josh Paul heitir hann, og starfaði innan þeirrar deildar sem annast samninga um kaup og sölu hergagna. Paul fylgdi uppsögninni eftir með bréfi sem hann birti á LinkedIn þar sem hann skrifaði: „Þegar ég kom til þessarar stofnunar … vissi ég að hún væri ekki án siðferðilegra flækja og málamiðlana og ég lofaði sjálfum mér að ég myndi dvelja við svo lengi sem mér sýndist að tjónið sem ég gerði væri minna gagnið.“ Hann sagðist líta á árás Hamas á Ísrael sem „ódæði allra ódæða.“ Um leið liti hann svo á, „í innsta kjarna sálar minnar“, að viðbragð Ísraels og stuðningur Bandaríkjanna við kyrrstöðu hernámsins, „muni aðeins leiða til meiri og dýpri þjáninga fyrir íbúa bæði Ísraels og Palestínu.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí