„Að Bjarni segi af sér er hvort tveggja eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun“, segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingar, sem harmar þó að ríkisstjórnin hafi ekki fært rannsókn sölunnar á hlutum í Íslandsbanka í farveg rannsóknarnefndar Alþingis.
Hefði átt að skipa rannsóknarnefnd
„Við höfum í stjórnarandstöðunni í eitt og hálft ár, frá því að kaupendalistinn var birtur vegna sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, þá höfum við bent á nauðsyn þess að sett yrði á fót rannsóknarnefnd Alþingis. Allt sem hefur gerst síðan hefur í raun stutt þá skoðun okkar. Og ég hélt því fram vorið 2022 að það að ráðherrann bæði um skýrslu frá Ríkisendurskoðun væri ekkert annað en smjörklípa. Og ég stend við þá skoðun. Auðvitað átti meirihlutinn að samþykkja tillögu okkar í stjórnarandstöðunni um rannsóknarskýrslu og gera þetta almennilega, fá allt upp á borðið og hafa allar rannsóknarheimildir tiltækar. En það er náttúrlega hin sanna hefð íslenskra stjórnmála að hlusta helst aldrei á minnihlutann. Þau rufu hana ekki.“
Alsiða í samfélögum með siðferðisþrek og lýðræðisþroska
Að því sögðu lét hún þau orð falla, í samtali við blaðamann, að afsögn Bjarna væri eðlileg og sjálfsögð: „En það að Bjarni segi af sér er hvort tveggja eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun. Við erum kannski ekki eins vön því og víða erlendis, hvernig stjórnmálamenn axla ábyrgð. Sem þykir víða ekki tiltökumál. Nýleg dæmi, bæði bresk og norsk og dönsk sýna okkur að – ég segi ekki að þetta gerist í hverri viku en þetta er alsiða í samfélögum þar sem stjórnmálin hafa náð ákveðnu siðferðisþreki og lýðræðisþroska. Þannig að það er ekki nema sjálfsagt að hann hafi gert það.“
Ríkisstjórnin getur ekki verið í felum
Þórunn sagðist hafa skilning á því að afsögnin gæti þó komið einhverjum í opna skjöldu. „En nú vil ég vita hvernig ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar að vinna úr stöðunni. Hvað segja formenn hinna tveggja stjórnarflokkanna um stöðuna sem er komin upp. Hvað ætla þau að gera? Snýst þessi þögn í dag bara um að þau séu að svissa til ráðherrum milli ráðuneyta? Ég veit það ekki en ég velti því fyrir mér. Þau geta ekki verið í felum, hvorki frá fjölmiðlum né almenningi. Þau hljóta að bregðast við í dag og segja okkur hvort þau hyggist halda þessu samstarfi áfram. Og hvernig þau ætla þá að gera það, ef það er niðurstaðan.“