Aðalfundur ÖBÍ var haldinn um helgina á Grand hótel þar þar sem kosinn var nýr formaður eftir 6 ára formannssetu Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur. Tvær konur voru í framboði til formanns þær Alma Ýr Ingólfsdóttir frá Sjálfsbjörg, lögfræðingur á skrifstofu bandalagsins og Rósa María Hjörvar stjórnarmaður í Blindrafélaginu og hafði Alma ýr betur með einu atkvæði eða 57 gegn 56. Alma segist munu leggja áherslu á SFFR eða Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem og málefni barna eða biðlistamálin.
Þuríður Harpa hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðustu árin og hefur þótt fremur róttækur og sterkur leiðtogi bandalagsins. Hún er sá formaður sem kom loks á samtali við verkalýðshreyfinguna á sínum fyrstu árum í embætti en í lífskjarasamningunum beitti ríkisstjórnin sér gegn því að verkalýðsfélögin töluðu fyrir kjörum og málstað öryrkja.
Aðspurð um hvað standi upp úr síðustu sex árin segir hún að vitaskuld sé margs að minnast. Hún segir að það sé eiginlega eftirminnilegast að ekki hafi klárast að vinna krónu á móti krónu málið eða að það hafi orðið að 65 aurum. „Það var svo rosalega sjálfsagt og skynsamlegt að mínu mati að fólk bæri eitthvað úr bítum ef það færi á vinnumarkað“ segir Þuríður. „því fatlað fólk er í flestum tilfellum ekki að vinna fullan vinnudag. það er að vinna hlutastörf og þá er svo mikilvægt að sá hópur beri eitthvað úr býtum. Þar varð þessi framfærsluuppbót algerlega að þvælast fyrir” segir hún. „Það var eiginlega eftirminnilegast að það kláraðist ekki.
Það var líka eftirminnilegt þegar við stoppuðum heildarendurskoðunina. Ég sat í þeirri vinnunefnd fyrsta veturinn og ákvað bara að ég yrði að fá að sjá sjálf hvað það væri sem verið var að véla um þarna inni í ráðuneytinu og það var alveg ljóst í mínum huga að á þeim tíma vantaði gríðarlega mikið upp á að samfélagið væri móttækilegt og að þessi tillaga eða þessi heildarendurskoðun eins og hún var þá sett fram að hún bara yfirleitt gengi upp fyrir okkur”. Þuríður segist einnig hafa fundið fyrir mikilli andstöðu við hugmyndirnar svo það endaði því með því að bandalagið hafnaði þeim.
Hún segir búsetuskerðingamálin einnig standa upp úr og tíu árin aftur í tímann sem náðust þar en svo sé vinnan við að breyta bandalaginu sjálfu stórt mál í hennar huga. „Að bandalagið breyti um nafn og ásýnd og sé tilbúið til að stefna allt í sömu átt og mér fannst koma svona endurnýjaður kraftur inn“. Hún segir markmiðið með þeim breytingum vera til að unga fólkið finni sig betur inni í félagsstarfinu. „Það sem við erum svona að stefna að er að yngra fólkið finni sig inni í félagsstarfinu og inn í starfi aðildarfélaganna og komi svo og taki við. Því það er svo dýrmætt. Svo er það bara svo ótrúlega margt sem hefur verið í gangi og jafnvel bæði erfið mál inn á við sem hafa verið eftirminnileg af því maður tekur erfiðar ákvarðanir og veit samt að þær hljóti að leiða til betri tíðar og þar er svo gott að sjá þegar það gengur svo eftir það sem maður hélt” segir fráfarandi formaður að lokum.