Samstaða með trans fólki á Austurvelli

„Hatur er ekki bara atriði í Eurovison, Það er mjög raunverulegt og óhugnalegt“ skrifar Sara Stef Hildardóttir á FB síðu sína í dag. Hún segir álagið aukast á fólk þegar hatrið og hvíta yfirburðarhyggjan láti á sér kræla eins og undanfarið því þá þurfi að berjast á móti. „Í dag var aftur samstaða, en nú með trans fólki en sá hópur var töluvert fjölmennari en hóprinn sem vildi dreyfa sínu hatri“.

„Hatrið 22 og áhangendur hinnar hvítu yfirburðahyggju létu bíða eftir sér og lögðu svo á endanum lykkju á leið sína frá Laugavegi þegar þau fréttu að samstaða gegn hatri biði þeirra á áfangastað. Þau hikuðu í Austurstræti við gamla pósthúsið og fóru svo að Hafnartorgi, takk @Vera Ilugadóttir fyrir lookoutið. Þau fóru þó að lokum að Austurvelli en ekki fyrr en eftir að samstöðugangan hafði gengið þögul saman og fundið þau á hörfinu“ segir Sara.

Samtökin 22 gengu niður Laugaveg í dag, norður að Hörpunni og enduðu á Austurvelli til að mótmæla kynlífsfræðslu í skólum og transfólki með yfirskriftinni „Verndum börnin“, „Klámið burt!“ „Börn hafa ekki gagnrýna hugsun“ „Látið börnin okkar í friði“ „Ekki segja barni hver það er“ og fleira í þeim dúr.


Samstaða með trans fólki hafði verið skipulögð í kyrrþey til að bregðast við göngunni og mætti þó nokkur hópur fólks með trans og hinsegin fána, barmmerki og aðrar augljósar stuðningsyfirlýsingar.
Hópurinn mættist fyrst á Hafnartorgi þar sem lítil börn í fylgd Samtakanna 22ja hrópuðu skammaryrðum að trans stuðningshópnum sem stóð þögull hjá.


Þegar komið var niður á Austurvöll mynduðu samtökin hring utan um konu sem talaði í gegnum gjallarhorn. Húm sagði að lítil börn væru kvíðin yfir því að mæta í skólann af því þar yrði þeim innrættar allskyns trans hugmyndir. Þá var talað um „svokallað“ trans fólk og sú hugmynd að fólk upplifði sig ekki í réttum líkama véfengd.
Samstöðin var á staðnum og festi atburði dagsins á filmu auk þess sem blaðamaður tók viðtal við einn úr stuðningshópi Trans fólks Ingunni Míu Blöndal.

Athygli vakti að Samtökin 22 hafa nú laðað að sér einstaklinga úr hópi innflytjenda svo sem prest úr Kristnu Orthodox kirkjunni og nokkra fylgjendur hennar og hjón frá Úkraínu.
Gjallarhornið gekk á milli fólks sem hafði ýmislegt að segja trúarlegs eðlis og að allar skoðanir skyldu virtar auk þess sem Úkraínsku hjónin fögnuðu því að sjá regnbogafánana á staðnum því þeir væru tákn um sköpunarverk Guðs, sjálfan regnbogann. Þar með afneitaði hún regnbogafánanum sem táknmynd hinsegin samfélagsins.


Flest af því sem sagt var í hring samtakanna 22 virkaði órökrétt og jafnvel kjánalegt og gat stuðningshópur trans fólks megin á köflum vart hamið sig af hlátri eða með því að kasta inn athugasemdum. Þá mynduðu þau stóran hring utan um hring samtakanna 22ja og sungu á endanum samana lag Páls Óskars „Ég er eins og ég er”.


Í það heila, fór uppákoman friðsamlega fram en spurningar vakna um það hvort það teljist til málfrelsis að saka jaðarsettan hóp um að beita börn ofbeldi og véfengja tilvist hans og tilfinningar. Lögreglan var hvergi sjáanleg enda engir þingmenn í skotlínunni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí