Á föstudagskvöld lét almenningur 147 milljónir af hendi rakna til söfnunar fyrir tækjabúnaði á eina af endurhæfingardeildum Landspítalans, Grensásdeild, við Álmgerði í Reykjavík.
Deildin var stofnuð árið 1973, og tilheyrði þá Borgarspítalanum, sem síðar sameinaðist Landspítala. Landspítali er almannaeign, rekinn samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, og er því eins og við má búast á fjárlögum.
Að sérfræðingum á sviðinu og skjólstæðingum heilbrigðisþjónustu landsins þyki stjórnvöld skera fjárveitingar til sjúkrahússins við nögl eru ekki nýmæli. Árið 2006 voru stofnuð samtökin Hollvinir Grensásdeildar, með þann tilgang, samkvæmt lögum samtakanna, að „að styðja við, efla og styrkja endurhæfingarstarfsemi þá, sem fram fer á Grensásdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss eða í tengslum við þá starfsemi.“ Má að því leyti segja að stofnun samtakanna feli í sér viðurkenningu þess að fjármögnun þessarar tilteknu deildar, hið minnsta, hafi þá verið vanrækt á fjárlögum.
Í umsögn Landspítala um frumvarp til fjárlaga ársins 2023 var þess sérstaklega getið að framlög til tækjakaupa hafa dregist saman undanfarin ár. Að enn í dag sé þörf fyrir hollvinasamtökin og tilefni til söfnunar á við þá sem átti sér stað á föstudag má sjá til marks um afleiðingar þeirrar aðhaldssemi.
Á föstudagskvöld fór þannig fram skemmtidagskrá á vegum einnar stofnunar í almannaþjónustu til að létta fólki lund á meðan það lagði sig fram um að bæta, að hluta, með frjálsum framlögum, fyrir vanfjármögnun annarrar stofnunar í almannaþjónustu.