Á laugardag fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Ástralíu um viðbót við stjórnarskrá landsins, sem hefði falið í sér viðurkenningu á frumbyggjum landsins, afkomendum þeirra sem bjuggu þar þegar Evrópumenn hófu þar landnám, og stofnun sem ætlað var ráðgjafarhlutverk gagnvart þinginu um málefni sem snerta samfélög þeirra sérstaklega. Tillögunni var hafnað.
Til að komast í gegn hefði tillagan þurfti aukinn meirihluta, það er bæði meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni í heild og meirihluta í fjórum af sex fylkjum Ástralíu.
Niðurstaðan er högg fyrir talsmenn frumbyggja eða árþjóða í landinu, enda hefur baráttan fyrir aukinni viðurkenningu og fullum rétti þeirra verið löng – enn í dag líða umræddir hópar fyrir mismunun, lakari heilsu og lakari efnahagsstöðu en afkomendur evrópskra landnema í Ástralíu.
Rúm 250 ár eru frá því að James Cook kortlagði og gerði kröfu til austurhluta Ástralíu fyrir hönd breska heimsveldisins, 235 ár frá því að breskur floti kom til hafnar í Sydney og stofnaði þar til fanganýlendu, sem oft er talið marka upphafið að innlimun landsins í breska heimsveldið. Aðeins eru 61 ár síðan að frumbyggjum Ástralíu var veittur kosningaréttur í landinu. Um 4 prósent íbúa landsins telja sig til frumbyggja, eða um 800 þúsund manns.
Tillagan um Rödd frá árinu 2017
Umrædd tillaga um stjórnarskrárbreytingu var afurð samráðs 250 leiðtoga úr samfélögum frumbyggja, sem funduðu árið 2017 til að svara fyrirspurn stjórnvalda um hvernig mætti betur veita frumbyggjum viðurkenningu í stjórnarskrá landsins. Þáverandi stjórnvöld höfnuðu tillögunni, sem nefnd var „the Voice“ eða Röddin, þar sem stofnunin sem þar var lögð til myndi jafnast á við nýja, þriðju deild þingsins.
Síðan þá hefur vinstristjórn tekið við völdum í Ástralíu. Í upphafi þessa árs ríkti mikill stuðningur við frumvarpið sem í umfjöllun The Guardian er sagður hafa dvínað á síðustu mánuðum. Samkvæmt umfjöllun Al Jazeera færðist meðal annars í aukana gagnrýni af vinstri vængnum, á grundvelli þess að ganga þyrfti lengri til að rétta afleiðingar hins sögulega ranglætis en lagt var til í þjóðaratkvæðagreiðslunni.