Fólki fjölgað um 30% frá gosinu í Eyjafjallajökli, mest ferðamenn og þau sem þjónusta þá

Samkvæmt Hagstofunni voru gistinætur erlendra ferðamanna fleiri í september en nokkru sinni fyrr. Það er sama þróun og verið hefur frá apríl, þá fóru gistinætur fram úr því sem áður hefur verið og þannig hefur það haldist síðan þá. Í ágúst gistu hérlendis að meðaltali 38.586 erlendir ferðamenn hverja nótt, sem var 3.098 fleiri en mest var áður, árið 2019. Ferðamannabólan hefur því þanist út fyrir það sem mest var fyrir kórónafaraldurinn í ársbyrjun 2020.

Og hún heldur áfram að þenjast út. Aukningin í september nemur 13% umfram það sem mest var og ekkert bendir til að um hægist. Stjórnvöld hafa engar aðgerðir uppi til að stemma stigu við vexti ferðaþjónustunnar, þrátt fyrir gríðarlegt álag sem hann leggur á alla innviði og grunnkerfi samfélagsins.

Í áróðri Sjálfstæðisflokksfólks gegn flóttafólki vill gleymast hversu mikið álag stafar frá ferðaþjónustunni. Þau sem aðeins hlusta á Sjálfstæðisflokksfólk gætu haldið að aukið álag á innviði og grunnkerfi stafaði aðeins af flóttafólki sem hingað kemur á eigin vegum. Svo er auðvitað ekki.

Hér má sjá töflu sem sýnir breytingar á fjölda fólks á Íslandi frá þriðja ársfjórðungi 2010, eftir að Eyjafjallajökull gaus en það markaði upphaf ferðamannabylgjunnar, og fram á þriðja ársfjórðung í ár:

HópurVarErFjölgunHlutfall
af fjölgun
Íslenskir ríkisborgarar296.730324.00027.27027,0%
Erlendir ríkisborgarar21.46072.96051.50051,1%
Erlendir ferðamenn12.90234.77321.87121,7%
Hælisleitendur132532400,2%
Hælisleitendur, í boði stjórnvalda05345340,5%
Alls:331.105431.986100.881

Langstærsti hluti þess erlenda verkafólks sem hingað kemur er að sinna erlendum ferðafólki; elda ofan í það, vaska upp, búa um það, keyra það og þjóna. Og líka að byggja hótel. Það má því ætla að um 2/3 hlutar af auknu álagi á innviði sé vegna þenslu í ferðaþjónustu. Mest af því sem eftir er stafar að náttúrlegri fjölgun landsmanna.

Sem er hæg, miðað við aldur og fjölda fæðinga, og stafar það af því að Íslendingar flytja í meira máli frá landinu en aðrar þjóðir. Þetta hefur verið skýrt með smæð samfélagsins, að fólk freisti gæfunnar í útlöndum á sviðum sem ekki eru til hér eða eru veik og fáliðuð. Þegar rætt er við Íslendinga í útlöndum kemur hins vegar í ljós að stórir hópar fólks eru að flýja basl og vinnuþrælkun, leita að mannvænlegra samfélagi, fjölskyldu- og barnvænna.

Í töflunni eru þeir hælisleitendur sem komu til landsins á þriðja ársfjórðungi skipt í tvennt þar sem árið 2010 höfðu stjórnvöld ekki boðið hingað sérstaklega fólki frá Venesúela og Úkraínu. Fólk frá þessum tveimur löndum eru því höfð í sérstakri línu, ekki síst vegna þess að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa bent á flóttafólk sem hingað kemur á eigin vegum frá öðum löndum sem megin ástæðu þess að hér hriktir í öllum innviðum og grunnkerfin eru við það að gefa undan.

Og staðan á innviðum og grunnkerfunum er staðreynd. Það fá landsmenn að reyna á eigin skinni alla daga. Það er orðið flókið og erfitt að fá viðtal við lækni og biðlistar lengjast. Uppbygging vegakerfisins hefur ekki haldið í við aukið álag og kerfið er sprungið. Þar sem áður mátti þola einbreiðar brýr vegna lítillar umferðar er nú orðin bráðahætta. Skólakerfið er að sligast vegna álags, nær ekki að sinna fjöldanum og allra síst þar sem þeim nemendum hefur fjölgað sem þurfa sérstaka þjónustu. En verst hefur þessu fjölgun farið með húsnæðiskerfið, þar sem geisar grimm húsnæðiskreppa sem fyrirsjáanlega mun versna mikið.

Þessi staða á grunnkerfum og innviðum er auðvitað ekki flóttafólki að kenna. Það má sjá á þessu kökuriti:

Og þegar haft er í huga að 3/4 af flóttafólkinu er hingað komið í sérstöku boði Sjálfstæðisflokksins verður áróður hlálegur, að um 0,2% af fjölgun fólks á landinu sé ástæðan fyrir veikingu grunnkerfa og hrörnun innviða. En þetta er látið gagnrýnislaust yfir fólk ganga á Íslandi, án nokkurrar fyrirstöðu fjölmiðla.

Markmið Sjálfstæðisflokksins er það sama og hægra flokka í Evrópu, ekki síst Íhaldsflokksins í Bretlandi, að draga athygli frá því að niðurbrot grunnkerfa og innviða er afleiðing stjórnarstefnunnar, svokallaðrar nýfrjálshyggju. Og siga reiði fólks á það bjargarlausa fólk sem hingað leitar í von um skjól og tækifæri til að byrja nýtt líf.

En þrátt fyrir að þetta sé allt ljóst, bæði að engar tölulegar forsendur eru fyrir áróðri Sjálfstæðisflokksfólksins, og að tilgangur þeirra sé öllum ljós, viðurkenndur af öllum sem greint hafa nútímastjórnmál, er látið sem þessi áróður sé boðlegt innlegg í samfélagsumræðuna. Það er rannsóknarefni, hvernig standi á því

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí