Bláa lónið greinir gestum ekki frá hættu á eldgosi

Í fréttum RÚV á sunnudag var greint frá því óvissuástandi sem ríkir nú við baðstaðinn Bláa lónið á Reykjanesi, þar sem landris bendir til að kvikusöfnun eigi sér stað og mögulegt að eldgos verði áður en líður á löngu. Fulltrúi landsins sagði fyrirtækið upplýsa gesti „eins og þurfa þykir“. Við nánari eftirgrennslan fréttamanns RÚV kom í ljós hvað það þýðir: að fyrirtækið upplýsir gesti lónsins hreint ekki um þetta óvissuástand.

Hraðari þensla en í fyrri atburðum

Á laugardag lýsti veðurstofan stöðunni með þessum hætti: „Miðja landrissins er um 1,5 km norðvestan við Þorbjörn, nærri Bláa lóninu. … Fyrsta mat á hraða landrissins sem er í gangi núna er að það sé hraðara en áður. Að svo stöddu er ekki merki um að kvika færist nær yfirborði, aðstæður geta hins vegar breyst á skömmum tíma.“ Á sunnudag var ítrekað að þenslan væri „hraðari en í fyrri atburðum á svipuðu svæði 2020 og 2022.“

Það er ekki orðum aukið að þetta sé „nærri Bláa lóninu,“ eins og Veðurstofan orðar það varfærnislega. Við Svartsengi, þar sem þetta landris á sér stað, stendur orkuverið í Svartsengi, ásamt ferðamannastaðnum sjálfum, þeirri manngerðu náttúruperlu sem myndast úr affalli frá orkuverinu. Af þeim innviðum sem væru í hættu ef gos yrði á þessum stað má ætla að íbúum svæðisins yrði mest eftirsjá af orkuverinu. Hverjum sem staddir væru í Bláa lóninu þá stundina gæti aftur á móti þótt meiri eftirsjá af sjálfum sér.

„Eins og allir vita …“

Í síðdegisfréttum RÚV á sunnudag var rætt við Hjördísi Guðmundsdóttur, samskiptastjóra Almannavarna, sem sagði stofnunina vera í góðu sambandi við bæði fyrirtækin, HS Orku og Bláa lónið. Í kvöldfréttum var að auki rætt við Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra sölu, reksturs og þjónustu hjá Bláa lóninu. Hún staðfesti að fulltrúar fyrirtækisins funduðu daglega með Almannavörnum og veðurstofu. Enn hefði engra breytinga orðið vart á byggingum á svæðinu eða hitastigi vatnsins. Helga sagði:

„Eins og allir vita hefur verið lýst yfir óvissustigi og óvissustig þýðir í raun og veru það að við yfirförum okkar viðbragðsáætlanir og fylgjumst með en teljum ekki ástæðu til að bregðast við að öðru leyti, að svo stöddu.“

Bláa lónið og svartsengi. Samsett gervihnattamynd úr kortasjá Landmælinga Íslands.

„Upplýstir eins og þurfa þykir“

Þá spurði Anna Lilja Þórisdóttir, fréttamaður: Vita gestir Bláa lónsins að hér er óvissustig. Því svaraði framkvæmdastjórinn:

„Gestir Bláa lónsins eru upplýstir eins og þurfa þykir.“

Þegar fréttamaður grennslaðist nánar fyrir um hvað það þýddi, hversu upplýstir fyrirtækinu þætti þurfa að gestir lónsins væru, kom í ljós að það þýddi hreint ekki neitt upplýstir. – Fær fólk tilkynningu eða eitthvað slíkt, spurði Anna Lilja, áður en það ákveður að heimsækja Bláa lónið, um að hér sé óvissustig vegna þessa? Því svaraði framkvæmdastjórinn:

„Það fær ekki sérstaka tilkynningu frá okkur, en auðvitað eru þetta almennar upplýsingar sem fólk hefur aðgang að.“

Þar sem óvíst er að jafnvel íbúar landsins geri sér allir grein fyrir að Svartsengi þýðir, í þessu samhengi, Bláa lónið, og að landris þar felur í sér möguleika á eldgosi í eða við lónið sjálft, má teljast ólíklegt að erlendir ferðamenn hafi bæði rambað á upplýsingarnar og lagt saman tvo og tvo. Með öðrum orðum velur fyrirtækið að upplýsa gesti ekki um óvissuástandið sem nú ríkir á staðnum en veigraði sér þó í fyrstu við að játast því vali.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí