Hjólhúsabyggðin við Sævarhöfða átti að vera tímabundin og í mesta lagi til 12 vikna. Íbúum var sagt að eftir þann tíma yrði nýtt svæði fundið til frambúðar. Nú eru 18 vikur liðnar og ekkert bólar á aðgerðum. Áður bjuggu íbúarnir við tjaldsvæðið í Laugardal. Reykjavíkurborg á svæðið en hefur útvistað rekstrinum til einkafyrirtækis sem hrakti íbúana í burtu.
Í stað þess að standa með íbúum og skikka fyrirtækið til að bjóða upp á aðstöðu, ákvað borgin að gefast upp og bjóða frekar upp á steypt plan við grotnandi verksmiðjubyggingu. Þar rignir glerbrotum niður og slysahættan er gríðarleg því stórhættulegt er að fá glerbrot í höfuðið sem fellur úr 4-5 metra hæð. Ekkert heitt vatn er á svæðinu og því kaldur vetur framundan ef ekki verður fundin ný aðstaða.
Íbúar koma að lokuðum dyrum
Geirdís Hanna Kristjánsdóttir er íbúi á svæðinu og einn stofnenda Samtaka hjólabúa, félagasamtök sem berjast fyrir þeim sem vilja búa á hjólum, í hjólhýsum, húsbílum. Hún segir borgina ekki sýna áhuga á málefnum hjólabúa.
„Við komum alls staðar að lokuðum dyrum og það vill enginn taka ábyrgð hjá borginni. Enginn tilbúinn til þess að eiga samtalið við okkur. Við erum auðvitað svolítið í reiðileysi og vitum ekkert,“ segir Geirdís.
Bergþóra Pálsdóttir býr einnig á Sævarhöfða. Hún vill að Reykjavík þrífi svæðið á meðan þar sé búið. Það eigi ekki að vera flókið. Borgin verði auk þess að fara að vinna vinnuna sína.
„Það er bara að vinna og gera hlutina sem á að gera,“ segir Bergþóra spurð að því hvort hún sé með skilaboð til borgarinnar. „Ekki hanga og gera ekki neitt og naga blýantinn.
Hér að neðan fylgja myndir sem teknar voru af svæðinu ásamt myndbandi sem tekið var af vettvangi. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands heimsóttu íbúa og könnuðu aðstæður.

Brotnir gluggar. Glerbrotum rignir niður.

Byggðin við Sævarhöfða

Gömul gaddagirðing á svæðinu

Svæðið hefur ekki enn verið hreinsað frá því íbúar fluttu inn

Sturtuaðstaðan er ónothæf því ekkert heitt vatn er til staðar