Hundruð mótmælenda voru handtekin í setuaðgerð á aðallestarstöð New York borgar, Grand Central Station, á föstudagskvöld. Þúsundir mótmælenda kröfðust þar vopnahlés á Gasa og kyrjuðu slagorðið: „No more weapons. No more war. Ceasefire is what we’re fighting for.“
Mótmælin voru skipulögð af samtökum Gyðinga sem lýsa sig andsnúin hernámi og hernaðarstefnu Ísraelsríkis, Jewish Voice for Peace (JVP). Meðlimir samtakanna og bandamenn þeirra úr öðrum samfélagshópum tóku þátt í mótmælunum. Rabbínar hófu viðburðinn með kertum og bænagjörð. „Þó að Shabbat sé að jafnaði dagur hvíldar, þá er okkur ekki stætt á að hvílast á meðan þjóðarmorð er framið í okkar nafni,“ var haft eftir rabbínanum May Ye í yfirlýsingu samtakanna. „Líf Palestínumanna og Ísraela eru samofin og öryggi næst aðeins með réttlæti, jöfnuði og frelsi fyrir öll,“ sagði rabbíninn.
Lögregla sagðist hafa handtekið um 200 mótmælendur í aðgerðinni en fulltrúar samtakanna segja yfir 300 hafa verið handtekin. Á Instagram sögðu samtökin að líklega væri um stærsta viðburð borgaralegrar óhlýðni að ræða, síðustu tvo áratugi í sögu borgarinnar.
Mótmælt í borgum um allan heim
Mótmælin á aðallestarstöðinni í New York borg voru aðeins ein af fjölmörgum mótmælasamkomum sem fram fóru þessa helgi, víða um heim. Í London er talið að allt að hálf milljón manna hafi tekið þátt í útifundi á laugardag. Krafa þeirra var sú sama og í New York: vopnahlé á Gasa.
Al Jazeera greindi frá, meðal annarra miðla.