Þingflokkur VG fordæmir morð á almennum borgurum en segist ekki almennt mótfallinn stríðsrekstri

Þingflokkur VG lét frá sér tilkynningu nú á laugardag þar sem segir að hann telji að „rétt hefði verið að styðja“ ályktun Allsherjarþings SÞ um „tafarlaust og langvarandi vopnahlé“ á Gasa. Eins og nú má vænta að hafi ekki farið fram hjá neinum sat Ísland hjá við atkvæðagreiðsluna. Bandaríkin kusu gegn ályktuninni, eins og við var aða búast, en atkvæði NATO-ríkja voru ekki öll á eina leið heldur megnuðu t.d. Noregur og Frakkland að greiða atkvæði með ályktuninni, eins og mikill meirihluti ríkja heims.

Í tilkynningu þingflokks VG segist hann telja „að rétt hefði verið að styðja tillöguna sjálfa vegna umfangs mannúðarkrísunnar á Gaza.“

Þá segist þingflokkurinn fordæma „árásir og morð á almennum borgurum skilyrðislaust, hvar sem er í heiminum.“ Athygli vekur að hér segist þingflokkurinn ekki mótfallinn stríðsrekstri almennt, hvað þá fordæma hann, heldur takmarkar hann fordæmingar sínar og eindregna andstöðu við árásir og morð á almennum borgurum.

Í næstu setningu tilkynningarinnar má þó lesa um hernað: „Hernaður veldur gríðarlegu tjóni á velferð fólks, stöðu og réttindum kvenna og barna, sem og umhverfinu.“ Þannig virðist þingflokkurinn líta svo á að hernaður hafi ákveðna galla, enda samræmist hann illa velferðarsjónarmiðum, jafnréttissjónarmiðum, og stefnu flokksins í umhverfismálum.

Að eitthvað sé athugavert við hernað og stríðsrekstur yfirleitt, sem slíkan, sjálfs hans vegna, eða að andstaða við hernað sé útgangspunktur og meginviðmið í stefnu flokksins er hins vegar ekki að sjá á texta tilkynningarinnar, né þá heldur að þingflokkurinn sé mótfallinn hernaðaraðgerðum Ísraels á Gasa svo lengi sem þær samræmast „alþjóðlegum mannréttindalögum“.

Hvað sem því líður, og þrátt fyrir þá ókosti sem þingflokkur VG telur að finna megi við stríðsrekstur, hefur Ísland skilað sinni afstöðu: landið styður ekki ákall Sameinuðu þjóðanna um mannúðarhlé.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí