Katrín sagði áður að vert væri að skoða slit á stjórnmálasambandi við Ísrael

Í tilefni af hjásetu Íslands í atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um mannúðarvopnahlé á loftárásum á Gaza og Ísrael hafa margir rifjað upp fyrri orð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem í þessu máli, og svo sem mörgum öðrum, stangast illilega á stefnu ríkisstjórnar hennar. Meðal annars grein sem Katrín reit í DV árið 2014, þegar hún var utan ríkisstjórnar.

Grein fylgir hér:

Er tímabært að slíta stjórnmálasambandi?

Það er skrýtin tilfinning sem fylgir því að skanna samskiptamiðlana yfir sumartímann og sjá myndir af kátum íslenskum fjölskyldum í sumarfríi og lesa um stærstu umkvörtunarefni þeirra; skort á sól og offramboð á rigningu. Skrýtin vegna þess að á sama tíma má lesa hryllilegar frásagnir frá Gaza-ströndinni þar sem á sjötta hundrað manns hafa fallið í árásum Ísraelshers nú þegar þetta er skrifað. Að minnsta kosti þrír fjórðu hlutar þeirra eru óbreyttir borgarar, þar á meðal börn, gamalmenni og fjölskyldur sem ekkert hafa til saka unnið annað en að búa á þessum stað og komast ekkert annað.

Fréttamenn lýsa hryllingi þar sem börn að leik eru sprengd í loft upp og svo lítur maður út um gluggann og sér íslensk börn að leik úti í garði. Bandaríkjaforseti áréttar rétt Ísraelsmanna til að verja hendur sínar. Hvernig þætti okkur að heyra slík orð frá valdamönnum heimsins ef börnin okkar væru sprengd upp fyrir framan nefið á okkur?

Deila Ísraelsmanna og Palestínumanna er vitaskuld ekki auðleyst. Á svona dögum virðist hún raunar vera með öllu óleysanleg. En alþjóðasamfélagið verður engu að síður að gera sitt til að bregðast við. Þar hefur ekki síst strandað á Bandaríkjastjórn, sem staðið hefur í vegi fyrir því að Ísrael sé beitt alþjóðlegum þrýstingi. Málið verður auðvitað ekki leyst með hernaðaraðgerðum – en pólitískur þrýstingur getur skipt máli.

Alþingi Íslendinga samþykkti þann 29. nóvember 2011 að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Jafnframt skoraði Alþingi á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem m.a. fæli í sér gagnkvæma viðurkenningu á tilveru Ísraelsríkis og Palestínuríkis. Alþingi áréttaði að PLO, Frelsissamtök Palestínu, væru hinn lögmæti fulltrúi allrar palestínsku þjóðarinnar og minnti jafnframt á rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til fyrri heimkynna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Þá krafðist Alþingi þess af deiluaðilum fyrir botni Miðjarðarhafs að þeir létu þegar í stað af öllum ofbeldisverkum og virtu mannréttindi og mannúðarlög.

Þessi tillaga hlaut stuðning allra þingflokka utan Sjálfstæðisflokksins, sem treysti sér ekki til að greiða henni atkvæði. Það gerðu hins vegar þingmenn Framsóknarflokksins, þar á meðal Gunnar Bragi Sveinsson, og ég treysti á það að utanríkisráðherra muni axla þá ábyrgð sem fylgir því að hafa rutt þessa braut með því að tala sterkum rómi á alþjóðavettvangi fyrir hönd þeirra óbreyttu borgara sem Ísraelsher ræðst nú gegn. Borist hafa fregnir af því að dönsk stjórnvöld muni senda sérstaka neyðaraðstoð til Gaza og ég skora á íslensk stjórnvöld að fylgja því fordæmi. Þá er einnig mikilvægt að styðja við friðarhreyfingar í Ísrael sem andmæla nú ofbeldisverkum stjórnvalda og minna á að friðarhreyfingar um allan heim hljóta að standa saman í þessu máli.

Ef ekkert lát verður á ofbeldisverkum Ísraels og ríkið heldur áfram að brjóta alþjóðalög og almenn mannréttindi hlýtur sú spurning einnig að vakna hvort rétt sé að slíta stjórnmálasambandi við ríkið. Það er aðgerð sem getur skipt máli á alþjóðavettvangi. Þegar börn eru stráfelld getur alþjóðasamfélagið ekki setið hjá. Við hljótum að nýta allar friðsamlegar leiðir sem í boði eru til að koma í veg fyrir að slíkt fái að halda óbreytt áfram.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí