„Móðir sem missir barn sitt er jafn frávita af sorg hvort sem hún er palestínsk eða ísraelsk“

„Við viðurkennum rétt Ísraels til sjálfsvarnar, en útfærslan verður að vera innan ramma mannúðarlaga,“ sagði Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, í viðtali á föstudag – en sama dag greiddi Noregur atkvæði með ályktun til að krefjast þess að gert verði mannúðarhlé á átökunum á Gasa, í atkvæðagreiðslu þar sem Ísland sat hjá. Lausleg þýðing á viðtalinu fylgir hér að neðan.

Hversu lítt sem mörgum er afstaða Íslands til ýmissa alþjóðamála að skapi, má iðulega færa rök fyrir því að hún sé skiljanleg, ef ekki óhjákvæmileg, í ljósi alþjóðaskuldbindinga. Þekktasta dæmið um þetta er liklega þrálát andstaða Íslands gegn alþjóðlegu samkomulagi um bann við kjarnavopnum: íslensk stjórnmálaöfl sem lýsa sig andsnúin kjarnavopnum, svo langt sem það nær, útskýra atkvæði landsins gegn slíku banni á vettvangi Sameinuðu þjóðanna ítrekað með því að vísa til „Þjóðaröryggisstefnu Íslands“, skjals sem innsiglar að Ísland fylgi Bandaríkjunum og NATO að málum í því sem viðkemur hernaði. Afstaða Íslands er þannig ekki afstaða Íslands eins og sér, heldur NATO-ríkjanna, sem eru sameiginlega andsnúin banni við kjarnavopnum, í krafti þess að „svo lengi sem kjarnavopn eru til verður NATO kjarnorkubandalag,“ eins og bandalagið segir sjálft. Og Ísland svíkur ekki lit.

Nú horfir hins vegar öðruvísi við: um ályktunina sem Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti á föstudag, þar sem kallað er eftir „mannúðarhléi“ á átökunum á Gasa, kusu aðildarríki NATO á alla þrjá mögulega vegu: Bandaríkin kusu gegn ályktuninni, Noregur kaus með henni, eins og Frakkland gerði einnig, en Ísland var á meðal þeirra NATO-ríkja sem sátu hjá.

Noregi tókst að kjósa með vopnahléi

Nú er formleg staða Noregs á alþjóðavettvangi náskyld stöðu Íslands: bæði ríkin standa utan ESB, þó með annan fótinn í gættinni gegnum EES-samninginn. Og bæði ríkin eru aðilar að NATO. Ríkisstjórnir þeirra eru aftur á móti ólíkt skipaðar: utanríkisráðherra Íslands er fótboltaáhugamaður úr viðskiptalífinu en utanríkisráðherra Noregs kemur úr röðum sósíal-demókrata. Því virtist forvitnilegt að skoða með hvaða hætti sá síðarnefndi talar um stöðuna á Gasa og ályktunina sem Noregi lánaðist, á föstudag, að samþykkja, en Íslandi ekki.

Þann sama dag birti dagblaðið Klassekampen viðtal við ráðherrann, Espen Barth Eide, undir fyrirsögninni „Eide ber om våpenhvile“Eide biður um vopnahlé. Fyrsta spurning sem blaðamaður beindi að Eide var hvaða skilaboð fulltrúi Noregs myndi færa fram á vettvangi Allsherjarþingsins þennan föstudag.

„Sömu skilaboð og við höfum haldið uppi um hríð. Að auðvitað fordæmum við árás Hamas en að við höfum einnig verulegar áhyggjur af því sem nú á sér stað á Gasa. Við viðurkennum rétt Ísraels til sjálfsvarnar, en útfærslan verður vera innan ramma mannúðarlaga. Það sem við erum að horfa upp á á Gasa er skelfilegt. Þar eru viðvarandi sprengjuárásir og gríðarlegur fjöldi dauðsfalla meðal almennra borgara. Við vorum að komast að því að til viðbótar við þúsundir Palestínumanna hafa 57 starfsmenn SÞ verið drepnir. Aflokun svæðisins er nær alger og eldsneytis- og vatnsbirgðir á þrotum. Fólk er farið að deyja af öðrum ástæðum en beinni valdbeitingu. Þetta er virkilega alvarlegt og við teljum að við verðum að fá hlé á stríðsátökunum, og halda þaðan áfram í uppbyggilegri átt.“

Mannúðarhlé næstum sama og vopnahlé

– Í þessari viku fylktu ESB-löndin sér að baki kröfu um „mannúðarslóða og hlé“ á Gasa. Samkvæmt norsku fréttaveitunni NTB er Spánn á meðal þeirra landa sem vilja að farið verði fram á vopnahlé, á meðan lönd á við Þýskaland, Austurríki og Tékkland telja að þá yrði gengið of langt á rétt Ísraels til sjálfsvarnar. Utan frá séð virðist það fáránlegt og virðist líka hafa vakið hörð viðbrögð. Er ekki nokkuð augljóst að það þarf að gera hlé á átökunum?

„Jú. Svo við köllum það „mannúðarhlé“ en það er nánast sami hlutur. Það eru aðeins ólíkar skírskotanir, en mannúðarhlé þýðir líka að hlé yrði gert á stríðsátökunum. Nú er vinna í gangi við ályktun sem ná má breiðri samstöðu um á Allsherjarþingi SÞ.“

– Er það nýja tillagan frá Jórdönum?

„Já. Orðalagið þar er „an immediate, durable and sustained humanitarian threat leading to a cessation of hostilities“. Með öðrum orðum, hlé sem myndi binda endi á sprengjuárásirnar og veita færi á að þróa vopnahlé. Við munum kjósa með þessu. Við vorum fyrst meðal Vesturlanda til að fara fram á slíkt hlé á ráðstefnunni í Kaíró á laugardag. Og það er mikilvægt að segja „hlé“ í eintölu – „hlé“ í fleirtölu hljómar eins og sprengjuárásirnar fari að hefjast aftur.“

– En hvers vegna ekki að segja bara vopnahlé?

„Við höfum ekkert á móti því. Það má alveg segja vopnahlé. Þetta er svolítið spurning um orðalag. Auðvitað höfum við ekkert á móti vopnahléi en fyrst fær maður „truce“. Vopnahlé er meira samkomulag á milli tveggja aðila. Þá þurfa aðilarnir að viðurkenna hvor annan, og það virðist ólíklegt að það gerist eins og sakir standa. Hamas viðurkennir ekki Ísraelsríki.“

Fara varlega með orðið „þjóðarmorð“

– Þetta viðtal á ekki bara að fjalla um orð og hugtök, en sumt fólk kallar það sem við horfum nú upp á „þjóðarmorð“. Hvaða augum lítur þú það orð og hvenær fara árásirnar yfir þá línu að teljast þjóðarmorð?

„Þjóðarmorð er að mínu viti mjög skýrt skilgreint hugtak. Þjóðarmorð er kerfisbundin útrýming mannfjölda. Hér er jú yfirlýst markmið Ísraels að ná Hamas. Það er ljóst að margir óbreyttir borgarar eru drepnir og það er í hæsta máta problematískt frá sjónarmiði mannúðarlaga. En ég tel þjóðarmorð vera af svolítið öðrum toga og ég held ekki að það sé góð hugmynd að fara óvarlega með það orð. Ég held að það sé rétt og ráðlegt að gera ráð fyrir að Ísrael hafi engin áform um að útrýma íbúum Palestínu, á heildina litið.“

– Það er stöðugt endurtekið að Ísrael hafi rétt á að verjast, sem þau hafa líka gert eftir að verða fyrir árás. Á sama tíma þarf vörnin að vera nauðsynleg og í samræmi við meðalhöf, samkvæmt alþjóðalögum, og jafnvel árásir á hernaðarskotmörk eru bönnuð ef þær valda óbreyttum borgurum „óhóflega“ miklum skaða. Er það sem við sjáum nú á Gasa í samræmi við þessi viðmið?

„Alþjóðalög setja skýr mörk við því að þú getur ekki ráðist á annað yfirvald. En óháð því hvort þú beitir valdi í vörn, þá þarftu að fylgja þessum reglum. Hér þarf að gera greinarmun, það þarf að vera til staðar hernaðarleg nauðsyn, og meðalhóf á við. Sífellt fleira bendir til að það sem við sjáum á Gasa brjóti í bága við þetta. Valdbeiting virðist vera óhófleg. Þetta er eitthvað sem margir, þar á meðal Bandaríkin, tala skýrt um við Ísrael. Og þú þarft að vera með áætlun. Eins og Carl von Clausewitz sagði er stríð framhald stjórnmála eftir öðrum leiðum. Margir eru óvissir um hver áform Ísraels eru. Algjör útrýming Hamas er erfið, þegar forysta Hamas er ekki lengur á Gasa. Og hér komum við líka að því sem er okkur mikilvægast að koma á framfæri. Strangt til tekið er eina umgjörðin sem nær til Ísrael, allra Arabalandanna, ESB og Bandaríkjanna, samræmingarnefndin Ad Hoc Liaison Committee (AHLC), sem Noregur veitir forystu. Þar verðum við að hefjast nokkuð hratt handa við það sem gæti verið lausn á þessu til lengri tíma, það er að segja tveggja ríkja lausnina.“

Tveggja ríkja lausn vandasöm, aðrir kostir verri

– Er tveggja ríkja lausn enn möguleg?

„Já en hún er afar vandasöm. Það hefur liðið 30 árum of langur tími. Vesturbakkinn er sundurtættur. En allir aðrir valkostir eru verri – fyrir alla, í raun. Það er erfitt að ímynda sér Ísraela og Palestínumenn í sama ríki. Annað hvort vegna þess að aðrir en Gyðingar ná yfirhöndinni og Gyðingar tapa kennslum sínum, eða að þau sleppa hendinni af lýðræðislegum viðmiðum. Ég held ekki að það sé ásættanlegt fyrir Ísrael.“

– En hvar á Palestína að liggja? Vesturbakkinn er jú fullur af landnemum sem skilja minna og minna pláss eftir fyrir palestínskt ríki.

„Já, sumir þeirra geta ekki hafist þar við. Það verður að vera hluti af þessu. Það verður að skýra hvar mörkin liggja sem á að nota til grundvallar. Einhver viðmið má finna um þetta í Oslóar-samkomulaginu.“

– Nokkur ríki saka Vesturlönd um að viðhafa tvöfalt siðgæði í því hvaða augum þau líta Palestínumenn. Það hefur verið bent á að viðbrögðin hafa verið varkárari og óljósari hér en í öðrum átökum, til að mynda í Úkraínu. Hvernig lítur þú á það?

„Ég tel það afar skiljanlegt. Við höfum miklar áhyggjur af þessu og það hefur í raun ekkert að gera með orðin „vopnahlé“ eða „truce“. Átökunum verður að linna. Hvort sem það er kallað hlé, vopnahlé eða „truce“, skiptir ekki öllu. Aðalatriðið er að þeim linni. Þá vil ég minna á að óháð þessu ber aðilunum skylda til að tryggja að mannúðaraðstoð komist í gegn. Aðili að stríði verður að auðvelda lífsbjargir óbreyttra borgara. Það er ekki tilfellið núna. Úti á götum, meðal Araba, er að myndast mikið hreyfiafl vegna þess sem þau sjá í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum. Það skapar óróa og allt stuðlar það að frekari skautun á milli þess sem má í grófum dráttum kalla austur og vestur. Það viljum við í Noregi leggja okkar af mörkum til að koma í veg fyrir, með því að standa föst fyrir á algildum viðmiðum. Öll líf eru jafn verðmæt. Móðir sem missir barn sitt er jafn frávita af sorg hvort sem hún er palestínsk eða ísraelsk móðir.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí