Nú upp úr miðjum október hefur innflytjendum á Íslandi fjölgað um 10.275 frá síðasta ári, úr um 61.000 í ríflega 71.000. Fjölgunin nemur tæplega 17 prósentum.
Hlutfallslega fjölgar mest milli ára í hópi innflytjenda frá Mið- og Suður-Ameríku, úr 1.977 í 2.849, eða um 44 prósent. Þar má ætla að mest muni um flóttafólk frá Venesúela.
Langflestir innflytjenda á landinu eru af evrópskum uppruna eða yfir 52.000. Næst-flestir eru af asískum uppruna eða rúmlega 9.000, þá af mið- og suður-amerískum uppruna, eða tæplega 3.000. Rúmlega 2.000 manns eru af afrískum uppruna, um 1.600 frá Norður-Ameríku og aðeins 189 frá Eyjaálfu.
Frá hinum Norðurlöndunum eru aðeins 1.872 innflytjendur á Íslandi, og virðist samgangur milli landanna, að minnsta kosti í áttina hingað, ekki ýkja mikill.
Íbúar landsins eru nú rétt um 400.000 talsins alls. Af þeim teljast þá innflytjendur nú um 17,8 prósent.
Þetta kemur fram í nýbirtum gögnum Hagstofunnar.