Við lok ársins 2022 voru 22% starfandi fólks á Íslandi innflytjendur. Þetta kemur fram í nýbirtri skýrslu ASÍ um vinnumarkaðinn. Til samanburðar voru 12,7% starfandi fólks á landinu innflytjendur aðeins sjö árum fyrr, við upphaf ársins 2016.
Atvinnuþátttaka innflytjenda er æði misjöfn eftir greinum. Þannig eru aðeins 11% starfsmanna í opinberri stjórnsýslu innflytjendur, og enn færri á sviðinu „upplýsingar og fjarskipti“ eða 7%. Í ferðaþjónustu teljast innflytjendur aftur á móti 40% starfsfólks, í sjávarútvegi 38%, 34% í framleiðslugreinum og 31% í byggingarstarfsemi.
Í skýrslunni er innflytjandi skilgreindur sem „einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra, afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis.“
Vinnuveitendur brjóta frekar á rétti innflytjenda
Í könnun sem lögð var fyrir launafólk innan ASÍ og BSRB í febrúar á þessu ári sögðust tæplega 37% allra svernda sig hafa orðið fyrir réttindabroti á vinnumarkaði undanliðna 12 mánuði. Samkvæmt könnuninni var það þó afar misjafnt eftir uppruna og nálægt því tvöfalt algengara meðal innflytjenda en innfæddra: rúm 56% innflytjenda töldu sig hafa orðið fyrir slíku réttindabroti, á móti 29% innfæddra.
Niðurstöðurnar voru einnig greindar eftir húðlit og þar reyndist sama uppi á teningnum: 60% fólks með annan húðlit en hvítan hafði orðið fyrir réttindabroti á vinnumarkaði, samkvæmt könnuninni, á móti 36% fólks með hvítan húðlit.