Evrópska hagstofan Eurostat birti í dag, 31. október, samantekt gagna frá ríkjum ESB, ásamt Íslandi, Noregi og Liechtenstein, um hlutfall skatttekna ríkjanna af landsframleiðslu (GDP). Innan Evrópusambandsins í heild lækkaði þetta hlutfall lítillega milli ára, frá 41,5% árið 2021 til 41,2% árið 2022.
Hlutfall skatta af landsframleiðslu er hæst í Frakklandi, eða 48,0%. Í Belgíu er það 45,6%, í Noregi 44,4%. Á öllum Norðurlöndunum – að undanskildu Íslandi, er hlutfallið raunar yfir 40 prósentum: 43,1% í Finnlandi, 42,5% í Danmörku og 42,4% í Svíþjóð. Ísland sker sig alfarið úr hópi Norðurlandanna: hér er hlutfall skatta af landsframleiðslu aðeins 36,0%. Að þessu leyti stendur Ísland nær mið- og austur-Evrópuríkjum: í Slóveníu og Króatíu er hlutfallið yfir 37 prósentum, í Tékklandi, Póllandi, Ungverjalandi og Slóvakíu er það um og yfir 35 prósentum.
Bankalandið Sviss er með næstlægsta hlutfall skatta af landsframleiðslu af öllum ríkju Evrópu, 27%. Skattaparadísin Írland er loks algjörlega sér á báti innan Evrópu, þar sem þetta hlutfall er aðeins 21%.