Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista og mögulegt þingmannsefni, deilir með lesendum hugleiðingum um skattamál í færslu á facebook.
Sanna er stödd í Lundúnum. Hún fór út að borða og segist hafa hlýtt á tal Breta vegna þingkosninganna á morgun þar sem Verkamannaflokknum er spáð stórsigri.
Maðurinn sat á næsta borði og sagðist til í að greiða hærri skatta ef þeir færu á réttu staðina og yrðu samfélaginu til bóta í heild.
„Fór að hugsa um íslenska samhengið þar sem ríkt fólk er undanþegið því að greiða til nærsamfélagsins þar sem útsvar (skattur sem er lagður á flest allar tekjur og fer til sveitarfélagsins sem þú býrð í) er ekki lagt á fjármagnstekjur.
Það er nefnilega eðlilegt að búa í samfélagi og taka þátt í því saman, þar sem við leggjum öll eitthvað af mörkum út frá getu,“ segir Sanna.
Hún bætir við:
„Það er ekki eðlilegt að ríkasta fólkið sé undanþegið því að greiða í sameiginlega sjóði. Það er ekki eðlilegt að almenningur greiði hærri skatta og gjöld svo að ríka fólkið geti haldið áfram að vera stikkfrí.“