Fréttatilkynning sem var í dag birt á vef Skattsins er óneitanlega nokkuð sérkennileg. Það má í raun segja að þar sé frekar einföld staðreynd falin á bak við nokkuð torlesin texta sem bókhaldarar eru fyrir löngu orðnir þekktir fyrir. En málið er frekar einfalt, Skatturinn tilkynnir að þrýstingur, sem kom fyrst og fremst frá Sjálfstæðismönnum og Morgunblaðinu, hafi virkað. Nú sé búið að ákveða að starfsmenn munu ekki fá hærri laun í takt við hversu kappsamari þeir eru við að uppræta skattasvik.
Það sem gerir þessa tilkynningu svo sérstaka er að í henni er frekar mikið lagt í það að færa rök fyrir því að það sé eðlilegt, jákvætt, sanngjarnt og nútímalegt að verðlauna starfsfólk. Það sé verið að að ráðast á duglegt fólk, enda hafi „fyrst og fremst verið horft til framúrskarandi faglegrar þekkingar, faglegra vinnubragða og sveigjanleika af hálfu starfsmanna, en einnig hefur verið horft til þess þegar tímabundið vinnuálag hefur verið umtalsvert mikið,“ eins og það er orðað.
Skatturinn meira að segja fullyrðir það sem marga hefur grunað undanfarið, að það sé holur hljómur í þessu meinta hneyksli. Markmiðið sé einfaldlega að reyna að koma í veg fyrir að skattsvik séu upprætt. Enda skítur það nokkuð skökku við að helstu gagnrýnendur þess að starfsmenn Skattsins fái bónusa í dag, eins og rjómi íslenskra viðskiptablaðamanna, hafa verið að verja bónusgreiðslur til bankastarfsmanna í jafnvel áratugi.
Eftir að hafa farið yfir hvernig þessar bónusgreiðslur hafi reynst vel og séu í fullu samræmi við kjarasamninga, þá segir Skatturinn: „Hefur gagnrýni og umfjöllun um eðli og framkvæmd viðbótarlaunakerfis hjá stofnuninni m.a. miðað að því að draga úr trúverðugleika skattyfirvalda og varpa rýrð á störf þeirra.“
Þrátt fyrir þessar kröftugu varnir þá ætlar Skatturinn að beygja sig undir Sjálfstæðismenn og þá sem vilja hafa veikt eftirlit með öllum skattsvikurum landsins. Sem eru margir, líkt og kom skýrt fram í Panamaskjölunum, svo dæmi sé tekið.
Í raun viðurkennir Skatturinn að engin rök sé fyrir því að stöðva þetta framtak. Það sé nóg að ákveðið fólk kvarti nógu mikið. Skatturinn orðað það svo:
„Nú er svo komið að þó að Skatturinn og aðildarfélög í BHM telji umrætt viðbótarlaunakerfi vera nútímalegt og gott kerfi sem hafi reynst öllum samningsaðilum vel, þá verður ekki við það unað í ljósi þeirrar stefnu sem umræðan um það hefur tekið. Því hefur Skatturinn ákveðið að leggja af viðbótarlaunakerfið og samið við aðildarfélög BHM um slíka breytingu sem tekur gildi frá og með síðustu áramótum.“