Ísraelsmenn óvenju barnamorðóðir: „Benjamin Netanyahu þarf að drepa fleiri börn“

Á einungis 24 dögum er talið að Ísraelsmenn hafi myrt samtals um 3200 börn í Palestínu. Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, bendir á í pistli sem hann birtir á Facebook að það sé fordæmalaust hve hátt hlutfall barna séu myrt í Palestínu um þessar mundir. Hann segir að til samanburðar þá séu bæði Rússar í Úkraínustríðinu og Bandaríkjamenn í Írakstríðinu talsvert skárri hvað þetta varðar.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Kristins í heild sinni. 

Það að draga athyglina sérstaklega að slátrun barna á Gaza er ekki gert í áróðursskyni eða til þess að spila sérstaklega á tilfinningasemi. Þetta háa hlutfall barna meðal myrtra í aðgerðum Ísraelshers er að ég tel nánast fordæmalaust.

Til að draga þetta fram tók ég saman tölur um mannfall óbreyttra borgara í Írak á átta ára tímabili (2003-2011), í Úkraínu á 19 mánaða tímabili (frá 24. febrúar í fyrra) og núna á Gaza á aðeins 24 dögum.

Allar þessar mannfallstölur eru vanáætlaðar. Í Írak er byggt á tölum sem samtökin Iraq Body Count (IBC) söfnuðu og skráðu samkvæmt ítrustu varúðarreglu ásamt tölum sem samtökin fengu úr bandarískum hernaðartölum sem WikiLeaks birti. Þetta er klárlega vantalning en segir sögu um samsetningu í hópi hinna látnu. Tala látinna barna í Írak er reiknaður útfrá hlutfalli barna af þeim dánartölum þar sem IBC hafði staðfestan aldur (45 000 tilfelli) og var það 8,54% börn en það hlutfall er yfirfært á heildartöluna

Mannfallstölur í Úkarínu eru fengnar hjá Sameinuðu þjóðunum sem taka fram að nokkuð víst sé um vantalningu að ræða en ég hygg að hlutfall barna af drepnum óbreyttum borgurum haldist þó bætist við heildartöluna.

Tölurnar frá Gaza eru fengnar frá heilbrigðisyfirvöldum þar og hafa ekki verið véfengdar árum saman, hvorki af alþjóðastofnunum né bandarískum stjórnvöldum (við annan tón kveður að vísu núna). Þar var gefið út að tala látinna væri komin yfir 8000, en 3000 börn voru sögð látin þegar heildartalan var 7000 – fyrir örfáum dögum. Þetta er því gróf nálgun mín og mögulega er barnadauðinn meiri.

Tilgangurinn er að vekja athygli á þessum skefjalausu barnsmorðum. Þetta eru óhuggulegar hlutfallsstærðir. Þær afhjúpa líka með afgerandi hætti hversu innantóm þau orð eru hjá forsætisráðherra Ísraels í gær að mannfall óbreyttra borgara séu bara óheppilegar hliðarafleiðingar stríðsaðgerða. Þegar börnum er slátrað í þessum hlutföllum er það ekkert annað en skelfilegur stríðsglæpur – meðvituð barnsmorð. Almennir borgarar eru skotmörk þar sem þeir eru með fjölskyldum sínum og blóð barna rennur.

Það eykur á óhugnaðinn að þetta er „árangur“ sem Ísraelsher hefur náð á aðeins 24 dögum. Nánast jafnmikið heildarmannfall meðal óbreyttra borgara og í Úkraínu á 19 mánuðum eða 614 dögum.

Það er ekki að undra þó að Benjamín Netanyahu hafi veifað öllum trompum í bókinni til að réttlæta verk sín á blaðamannafundi í gær, enn og aftur dragandi fram samjöfnuð við Pearl Harbour, 11. september og Helförina. Sagði síðan erlendu pressunni að það væri ekki tímabært að ræða vopnahlé núna.

Benjamin Netanyahu þarf að drepa fleiri börn.

 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí