Kallar eftir stórátaki fyrir íslenskuna: „Höfum við efni á að taka áhættuna – og viljum við það?“

Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, kallar eftir því að farið verði í stórátak á Íslandi til að koma í veg fyrir mögulegan dauða tungumálsins. Hann segist nokkuð bjartsýnn á að íslenskan sé ekki að fara að deyja alveg strax en á hinn boginn sé það ekki áhættunar virði, skyldi hann hafa rangt fyrir sér, að gera ekki neitt. Hann fer nokkuð ítarlega yfir hvað þarf að gera í pistli sem hann birtir innan Facebook-hópsins Málspjall, en meðal annars þarf að tryggja að erlent fólk sem starfar við þjónustustörf geti stundað íslenskunám á vinnutíma.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Eiríks í heild sinni og neðst má svo sjá viðtalið við Rauða borðið sem hann vísar í.

Stórátak fyrir íslenskuna

Við Ólína Þorvarðardóttir ræddum stöðu og framtíð íslenskunnar við Gunnar Smára Egilsson í „Rauða borðinu“ á Samstöðinni í gær. Okkur greindi á um sumt, eins og t.d. hver réttur enskunnar eigi að vera í íslensku málsamfélagi. Ég held að það sé einfaldlega raunsætt mat að enskan sé komin til að vera og í stað þess að berja hausnum við steininn með það þurfum við að taka þetta mál til alvarlegrar umræðu og marka enskunni bás, draga víglínu sem við ætlum að verja eins og Kári Stefánsson sagði í viðtali í sumar. Um þetta vorum við Ólína ekki sammála, sem er í góðu lagi. En við vorum innilega sammála um það grundvallaratriði að stórátaks sé þörf til að tryggja framtíð íslensku sem aðalsamskiptatungumáls í landinu.

Snorri Másson sagði nýlega í grein: „Tvær leiðir eru færar til að snúa þróuninni við. Annars vegar kemur til greina að ráðast í stórátak á vegum hins opinbera af slíkri stærðargráðu að annað eins hefur ekki þekkst og það átak þyrfti að taka til allra sviða tungumálsins. Hins vegar kemur til dæmis til greina takmarka innflutning fólks vegna atvinnu verulega í því skyni að minnka álag á tungumálið. Hið síðarnefnda hugnast líklega hvorki stjórnvöldum né atvinnurekendum, þannig að eftir situr stórátaksleiðin.“ Ég held reyndar að síðarnefnda leiðin sé ekki bara ófær heldur líka óskilvirk. Ensk áhrif og þrýstingur á íslenskuna kemur eftir miklu fleiri leiðum en með erlendu vinnuafli og takmörkun á innflutningi fólks hefði því ekki mikið að segja.

Innan stórátaksleiðarinnar er í fyrsta lagi þörf á vitundarvakningu um mikilvægi íslenskunnar fyrir okkur, sem tjáningartækis og menningarmiðlara. Um leið þarf að gæta þess að reka þetta átak ekki á þjóðernislegum nótum. Í öðru lagi þarf stórátak í kennslu íslensku sem annars máls – menntun kennara, samningu kennsluefnis, framboði ókeypis námskeiða og hvatningu til íslenskunáms. Um leið þarf að auðvelda fólki að stunda nám á vinnutíma og í tengslum við vinnu. Í þriðja lagi þarf að sjá fólki, ekki síst börnum og unglingum, fyrir fjölbreyttu efni á íslensku – fræðsluefni, menningarefni, skemmtiefni, afþreyingu o.fl. Sumt af þessu þarf að vera vandað en það þarf líka að framleiða „rusl“ – aðalatriði er að þetta sé efni sem fólk sækir í.

Eins og Snorri Másson benti á í áðurnefndri grein verður því miður ekki séð að stjórnvöld hafi vilja eða getu til að grípa til nauðsynlegra aðgerða. Fyrir tæpu ári var þó tilkynnt um stofnun sérstakrar ráðherranefndar um íslenska tungu sem í sitja fimm ráðherrar. Í fréttatilkynningu um stofnun nefndarinnar segir að henni sé „ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast“ og „vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins“. Einnig segir: „Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu.“ Í sáttmálanum eru vissulega nefndar ýmsar aðgerðir sem tengjast íslensku og íslenskukennslu, einkum þessar:

(1) „Mótuð verður skýr og heildstæð stefna í málefnum útlendinga sem miðar að því að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði.“ (2) „Rík áhersla verður lögð á stuðning til aðlögunar við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra, m.a. gegnum skóla- og frístundastarf og með auknu aðgengi að íslensku- og samfélagsfræðslu.“ (3) „Efla þarf íslenskukennslu fyrir kennaranema og auka símenntun í takt við breyttar aðstæður.“ (4) „Stuðningur við börn af erlendum uppruna verður aukinn í skólakerfinu.“ (5) „Ráðist verður í átak til að stuðla að fjölbreyttri nýsköpun í námsgagnagerð og auknu framboði af nýju námsefni, ekki síst á íslensku, fyrir öll skólastig.“

Þetta eru allt saman mikilvægar aðgerðir en nú þegar kjörtímabilið er hálfnað verður ekki vart við að þeim hafi verið hrint í framkvæmd, og lítið hefur heyrst frá ráðherranefndinni síðan hún var stofnuð. Samkvæmt endurskoðaðri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar í janúar stóð til að leggja fram þingsályktunartillögu um „aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ í mars. Það var ekki gert, en drög að tillögunni voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í júní og samkvæmt þingmálaskrá á að leggja hana fram í október – það eru að verða síðustu forvöð. Í áðurnefndum drögum er vissulega að finna ýmsar mikilvægar aðgerðir, en hvorki í fjárlögum næsta árs né fjármálaáætlun næstu fimm ára er að finna neinar vísbendingar um að þær verði fjármagnaðar.

Íslenskan er ekkert í dauðateygjunum. Hún er auðvitað sprelllifandi og verður það næstu áratugina. En að óbreyttu mun hún smátt og smátt hörfa, missa ákveðin svæði og svið – það verða til heilu hverfin eða jafnvel þorpin þar sem hún gagnast ekki, og sviðum eins og ferðaþjónustunni þar sem hún er ekki notuð mun fjölga. Á endanum kemur að því að unga kynslóðin gefst upp á íslenskunni. Auðvitað er hægt að benda á að undanfarin 200 ár hafi oftsinnis verið hrópað úlfur, úlfur – og íslenskan lifi enn. En eins og ég hef skrifað um eru aðstæður nú algerlega fordæmalausar. Vissulega getur verið – og er vonandi – að íslenskan lifi þótt lítið verði að gert. En höfum við efni á að taka áhættuna – og viljum við það?

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí