Lénsveldi tæknirisanna og þöggunin í kringum réttarhöldin gegn Google

Nú hafa réttarhöldin gegn Google staðið í þrjár vikur og það sem helst er fréttnæmt er þöggunartilburðir stjórnenda Google og meðvirkni Amit Mehta dómara með fyrirtækinu. Eina leiðin fyrir fólk til að fylgjast með réttarhöldunum er að mæta í réttarsalinn, þar sem dómarinn hafnaði því að réttarhöldunum yrði streymt. Fyrir bragðið hafa þau mestmegnis farið fram fyrir luktum dyrum vegna „viðskiptahagsmuna“ fyrirtækisins.

Blaðamenn hafa ekki verið hrifnir og gagnrýnt dómarann óspart, en hann virðist hafa tekið gagnrýnina til greina, a.m.k. hefur heimasíða saksóknara birt aftur heimildir sem dómarinn hafði látið taka niður. Þó kom fram í yfirheyrslunum yfir fulltrúum Apple að fyrirtækið hefði ætlað að búa til sína eigin leitarvél en hætt við gegn tekjuhlutdeild frá Google. Réttarhöldin snúast í reynd um það að Google-leitarvélin sé sjálfgefin hjá Apple. Það styður málflutning saksóknara að Apple haldi sig algjörlega frá leitarvélamarkaðnum. Það má flokka sem samkeppnishömlur.

Réttarhöldunum Google er hvergi nærri lokið og verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu. Mikið kapp virðist hins vegar hlaupið í bandarísku samkeppnisstofnunina þótt þingmenn geri sitt besta til að draga úr fjárframlögum til hennar. Biden ætlar sér greinilega að brjóta niður lénsveldi tæknirisanna, sbr. nýja bók Yanis Varoufakis, fyrrum fjármálaráðherra Grikklands: Technofeudalism, en samkeppniseftirlitið bandaríska hefur nú einnig stefnt Amazon fyrir brot á samkeppnislögum. Varoufakis líkir Amazon við gerviheim úr vísindaskáldsögu.

Menn kaupa bækur, föt og kvikmyndir og allt lítur eðlilega út en þegar betur er að gáð kemur í ljós að allar verslanirnar, reyndar allar byggingarnar, tilheyra sama fyrirtæki, en algóriþminn villir mönnum sýn með ókeypis heimsendingu. Amazon framleiðir ekkert, segir Varoufakis, heldur rukkar fyrirtækið leigu hjá þeim sem það endurdreifir fyrir. Með öðrum orðum erum það við, þú og ég, sem erum varan, ekki viðskiptavinurinn. Þetta er ekki kapítalismi, heldur lénsveldi, og við sem verslum við Amazon, segir Vaoufakis, erum leiguliðarnir. Raunverulegir viðskiptavinir Amazon eru „smásalarnir“ sem treysta á innviði Amazon til að koma varningi sínum til almennings.

Því fylgir mjög hár skiptikostnaður að flytja úr einni stórverslun á netinu í aðra, þannig að þetta er fyrirtæki með verulegar aðgangshindranir. Þessi takmarkandi uppbygging á Prime endurspeglar ásetning Amazon um að auka aðgangs- og samkeppnishindranir.

Bandaríska samkeppnisstofnunin segir eins og Verðlagsstofnun forðum þegar hún sektaði Miklagarð, flaggskip Sambandsins (SÍS) fyrir að bjóða „ókeypis“ skrokk með hverri frystikistu, að það sé ekkert sem heitir ókeypis heimsending. Neytandinn sé bara látinn greiða annarsstaðar.

Ein afleiðingin er sú að Amazon hefur nú yfirgnæfandi einokunarhlutdeild meðal netkaupenda, eða yfir 80% af markaðnum. Netkaupendur eru ekki viðskiptavinurinn, heldur varan sem Amazon miðlar frá þriðja aðila: þeir verða annaðhvort að borga Amazon það sem það setur upp eða missa aðgang að markaðnum. Eins og einn þeirra orðaði það: „Við höfum ekki í önnur hús að venda og Amazon veit það.“ „Smásalinn“ greiðir skráningargjöld til Amazon, fyrir afnot af vöruhúsaþjónustu Amazon, þekkt undir heitinu Fulfillment by Amazon (FBA); og fyrir auglýsingaþjónustu. Ef ekki er greitt fær hann ekki stað á síðunni þar sem neytendur smella á. „Auglýstar vörur á Amazon,“ segir bandaríska samkeppnisstofnunin, „eru 46 sinnum líklegri til að framkalla smell en þær vörur sem ekki eru auglýstar. Þessi gjöld hafa öll aukist jafnt og þétt í gegnum árin og nema nú um 50% af tekjum Amazon.

Þau námu um 123 miljörðum Bandaríkjadala síðastliðið ár, en þar er greitt fyrir „ókeypis“ heimsendingarþjónustu sem og myndbandsþjónustuna og tónlistarþjónustuna, Twitch og allt annað sem fylgir Prime. „Smásalinn“ hækkar verð sitt til neytenda, þ.e. til mín og þín, og senda þeir þá peningana aftur til Amazon í formi gjalda. Í grundvallaratriðum er þetta samskonar peningaþvætti og við Íslendingar þekkjum svo vel úr okkar viðskiptasögu. Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins var sýknaður af slíkum áburði á sínum tíma, en Nóbelskáldið útskýrir hvernig heildsalar hafa komist upp með þetta áratugum saman: „Ef maður vill stela í þjófafélagi, þá verður að stela samkvæmt lögum; og helst að hafa tekið þátt í því að setja lögin sjálfur.

Þessvegna þreyttist ég aldrei á brýna fyrir honum að komast á þíng, eignast bakhjall í miljónúngi, stofna hlutafélag og fá sér nýan bíl, helst alt í sett. En hann var of mikill sveitamaður og skildi mig aldrei til fulls; og því fór sem fór. Hann hélt það væri nóg að stofna plathlutafélag einsog norðlenska verslunarfélagið og makka við platmiljónúng einog Bítar, og kaupa margstolinn bíl af honum, í staðinn fyrir það verður að vera ekta hlutafélag og ekta miljónaúngur og nýr bíll með þessa árs sniði beint frá verksmiðjunni. Með öðrum orðum, hann flaskaði á öllum tæknilegum smáatriðum í köllum sinni. Árángurinn er auðvitað sá að hann sem átt átti að byrja á því að setjast við Austurvöll er sestur við Skólavörustíg.“

Þegar bandaríska samkeppnisstofnunin birti Amazon stefnuna lækkaði „virði“ Jeff Bezos, eiganda Amazon, um 5 miljarða Bandaríkjadala. Samt er áætlað að „virði“ hans hækki um 40 miljarða Bandaríkjadala á þessu ári og fari í 150 miljarða Bandaríkjadala.

Þriðjudaginn 12. september 2023 hófust réttarhöldin gegn Google vegna brota á samkeppnislögum og fyrir óréttmæta viðskiptahætti.

Samstöðin flutti fréttir af þessu: Google á sakamannabekk vegna einokunartilburða og Google reynir að gera Kanter saksóknara ótrúverðugan í stóra samkeppnismálinu. Jóhannes Hraunfjörð Karlsson, hagfræðingur og sagnfræðingur, fylgist með málinu fyrir Samstöðina.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí