Lögregla neitar konu frá EES-ríki um inngöngu í landið og neitar lögmanni um skýringu

Konu sem lögreglan á Keflavíkurflugvelli neitaði um landgöngu og hélt í klefa á flugstöðinni á mánudag verður vísað frá landi, kemur fram í frétt Vísis í dag, þriðjudag. Það er í annað skipti á rúmum mánuði sem konunni er vísað frá landi við lendingu í Keflavík. Konan er rúmenskur ríkisborgara, en Rúmenía er aðildarríki ESB og íbúar þeirra hafa að jafnaði fullan rétt til að ferðast til og frá Íslandi eins annarra ríkja EES-svæðisins. Lögmaður konunnar segir hana hafa sætt ómannúðlegri meðferð.

Í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu Vísis sagði Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, að konan hafi verið „tekin til skoðunar“ á landamærunum „þar sem grunur lék á að hún uppfyllti ekki skilyrði laga um útlendinga nr. 80/2016 til að fá inngöngu í landið.“ Lögreglan hafi síðan komist að þeirri niðurstöðu að hún uppfyllti ekki umrædd skilyrði og því ákveðið að frávísa henni aftur frá landinu.

Lögmaður fær ekki afrit af ákvörðun lögreglu

Lögreglustjórinn neitaði að greina frá því hvaða skilyrði konan hefði ekki uppfyllt en í lögunum sem hann vísar til eru engin skilyrði sett um komu EES-borgara til landsins nema að þeir hafi gilt vegabréf og verði ekki „ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar“, enda er réttur fólks til að ferðast milli aðildarríkja hornsteinn EES-samningsins. Ekkert hefur komið fram sem gefur til kynna að konuna hafi skort ferðaskilríki.

Claudiu Ashanie Wilson, lögmaður konunnar, segir að lögregla hafi ekki orðið við beiðni hennar um afrit af ákvörðun lögreglu, sem sé ámælisvert. Hún sjái ekki á hvaða grundvelli laganna konan hafi verið tekin í hald og hafi margítrekað lagt fram beiðni um afrit af ákvörðuninni „enda sé konan EES-ríkisborgari sem njóti ríkrar verndar gegn frávísun frá landi.“

Lögreglurassína á landamærunum

Lögreglustjórinn sem ber ábyrgð á meðferð málsins, Úlfar Lúðvíksson, greindi frá því í viðtali við Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni á mánudag að allt þetta ár hefði staðið yfir lögreglurassía á landamærunum. Með hans orðum: „Aldrei, held ég, í sögu embættisins hefur slíkum fjölda verið frávísað áður. Við erum komin í 283 mál það sem af er ári. 2018 voru þetta 151 mál yfir árið.“ Þetta kemur ekki til af aukinni aðsókn til landsins, sagði hann, heldur „frumkvæðisvinnu“ og „öflugu starfi“ lögreglu, sem sé að skila „marktækum árangri“.

Í viðtalinu útskýrði Úlfar að lögreglan taki suma komufarþega til yfirheyrslu þrátt fyrir að þeir hafi ferðaskilríki og aðrar forsendur til að ferðast til landsins. Ef lögreglu virðist farþegi við yfirheyrslu líklegur til afbrota, til dæmis til starfa á svörtum markaði, vísar hún farþeganum frá landinu, að því er fram kom í máli lögreglustjórans.

Ekki kom fram í viðtalinu við hvaða forsendur lögreglan miðar þegar hún velur fólk til yfirheyrslu eða tekur ákvörðun um frávísun. Þá svaraði lögreglustjórinn ekki spurningum þáttastjórnanda um þær heimildir sem búa að baki þessum aðgerðum. Ekki kom fram hvernig eftirliti með aðgerðunum er háttað eða hvaða áfrýjunarleiðir eru opnar þeim sem lögreglan vísar frá landinu við landamærin. Lögreglustjórinn sagðist hins vegar líta svo á að „varnir Íslands séu á Keflavíkurflugvelli.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí