Freyja Haraldsdóttir sem býr við fötlun segir að ef hún hefði sem barn verið í þeim sporum að þurfa að yfirgefa Ísland eins og hinn ellefu ára gamli Yazan, sem fjöldi fólks hefur mótmælt að verði framseldur úr landi, hefði hún látið lífið. Það eina sem ráðafólk Íslands hugsi um sé hagur ófatlaðra hvítra barna ríka fólksins hér á landi.
Í pistli Freyju sem gengur eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlum segir hún:
„Ef fjölskyldan mín hefði þurft að flýja Ísland vegna náttúruhamfara eða lífshættu af öðrum ástæðum hefði veruleiki okkar orðið allt annar. Ég væri að öllum líkindum ekki á lífi. Ég hefði eingöngu getað haft einn hjólastól svo lengi sem hann væri ekki skemmdur eða tekinn. Án hans hefðu foreldrar mínir þurft að halda á mér en beinin hefðu ekki þolað það, þau brotnuðu nefnilega oft í höndum þeirra í öryggi okkar á Íslandi. Ég hefði ekki haft lyfin og því líklega haldið áfram að brotna oft og illa. Þá hefði ég ekki haft verkjalyf og foreldrar mínir hefðu verið með mig slasaða og verkjaða öllum stundum. Þau hefðu mögulega þurft að skilja mig eftir eða bróðir minn. Eða þau hefðu þurft að skipta liði. Fjölskyldan sundruð. Ég hefði ekki fengið skólagöngu og líklega ekki lifað nógu lengi til þess að eignast vini í flóttamannabúðum. Ég hefði samt haft það skárra en Yazan því ég er hvít.“

Yazan er 11 ára strákur og rifjar Freyja upp að hann sé venjulegur krakki, í skóla, í sumarbúðum og eigi vini. Hann þurfi ekki að vera einn heima og hann hafi aðgang að hjálpartækjum og lyfjum.
„Yazan flúði til Íslands m.a. vegna þess að það var ekki líft fyrir hann í Palestínu. Engin skólaganga eða heilbrigðisþjónusta og hann þurfti mikið að vera einn heima, líklega með engan hjólastól. Hann hefði ekki lyfin sín eða hjálpartæki. Hann byggi í landi þar sem nú er framið þjóðarmorð og tilheyrir hópnum sem verður einna verst úti.“
Freyja segir að Ísland sé engin paradís fyrir fatlað fólk. Langt því frá.
„En í samhengi við Palestínu bjóðum við upp á lífsviðurværi og að flestu leiti, úr því sem komið er, öruggari framtíð fyrir Yazan (þó við sýnum það ekki í verki núna). Ég gæti farið að vísa í lög og mannréttindasáttmála en ég nenni því ekki því með þá ríkisstjórn og ríkisstofnanir sem við búum við hafa þau bara þýðingu þegar það hentar ríkisstjórninni og fjölskyldum þeirra og kannski einhverjum strengjabrúðuplebbaembættismönnum. Þeim er öllum drull um barn eins og Yazan.“
Og það er bit í lokaorðum Freyju:
„Það eina sem þeim er annt um er að varðveita hvítu ófötluðu börn ríka fólksins. Aðallega bara sín eigin börn samt og börn sem eru lík þeim. Á sama tíma fela þau sig á bakvið nýja óháða mannréttindastofnun sem vissulega mátti stofna fyrir áratugum en þau ætla aldeilis að monta sig núna. Og meira að segja hagsmunasamtök fatlaðs fólks, ÖBÍ og Þroskahjálp, taka þátt í fagnaðarlátunum á meðan fatlað barn er sent út í dauðann. Við hljótum að vera eitt meðvirkasta, hræddasta og skammsýnasta þjóðfélag heims.“