Lögreglurassía á landamærunum: „Aldrei slíkum fjölda frávísað áður“

Lögreglan hefur neitað 283 manns um landgöngu á Keflavíkurflugvelli það sem af er þessu ári, ýmist í krafti þess að þykja líklegt að fólkið hyggist brjóta af sér, til dæmis með þjófnaði eða svartri atvinnustarfsemi, eða að það reynist við yfirheyrslu ekki gera fullnægjandi grein fyrir ferðum sínum.

Þetta kom fram í viðtali við Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóra, á Bylgjunni á mánudag. Ekki kom annað fram en þar sé um að ræða farþega með lögmæt ferðaskilríki og aðrar lögmætar forsendur fyrir landgöngu, nema þetta mat embættismanna á vellinum. Í viðtalinu kom hvorki fram við hvaða heimildir lögreglan styðst í þessum aðgerðum, né á hverju mat hennar byggir, nema að það hvílir ekki, eða ekki nauðsynlega, á dómsúrskurði. Þá kom fram að í þessum aðgerðum handtekur lögreglan fólk ekki, enda enginn grunur til staðar um framið afbrot, en að hún „geymir“ fólk fram að brottför, í sumum tilfellum svo dögum skiptir.

Lögreglustjórinn staðfesti í viðtalinu að slíkar ákvarðanir séu teknar oftar á þessu ári en áður, og að hann telji ekki að það sé vegna þess að aðsókn glæpamanna til landsins hafi aukist, heldur vegna „áherslubreytingar í átt að hertum aðgerðum“. Virðist því ljóst að allt þetta ár hefur staðið yfir lögreglurassía á landamærunum.

„Áherslubreyting í átt að hertum aðgerðum“

– Nú er sagt frá því að aldrei hafi fleiri verið snúið við frá landamærunum hér á Íslandi vegna glæpastarfsemi. Á þeim orðum hófst viðtal þáttarins Reykjavík síðdegis við Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, á Bylgjunni á mánudag.

Nánar tiltekið hefur 283 manns verið aftrað frá landgöngu á Keflavíkurflugvelli það sem af er þessu ári, að sögn lögreglu, samanborið við 151 allt árið 2018. Þessar ákvarðanir eru ekki teknar á grundvelli dómsúrskurðar heldur segir Úlfar lögreglustjóri þar um að ræða „einstaklinga sem eiga sér vafasama fortíð og eru klárlega hingað komnir til að brjóta af sér.“ Það var haft eftir honum í knappri umfjöllun RÚV um málið sama dag. Fréttamaður RÚV bætti við til útskýringar að „þeir geti verið komnir hingað til lands til að selja fíkniefni, stela og þess háttar,“ og vitnaði síðan aftur í lögreglustjórann: „Eða þá að koma hingað til að vinna ólöglega. Ég myndi segja að svört atvinnustarfsemi væri stórt vandamál á Íslandi.“ Ekki kom fram í umfjöllun RÚV við hvað löggæslan miðar í þessu mati á komufarþegum. Reykjavík síðdegis reyndi að grennslast betur fyrir um það.

– Er þetta einhver stefnubreyting, spurði þáttastjórnandi lögreglustjórann. „Ég kannski kalla það ekki stefnubreytingu,“ svaraði Úlfar, „en ég myndi tala þá um áherslubreytingu. Í átt að hertum aðgerðum.“

– Og í hverju felst sú breyting? spurði útvarpsmaður.

„Það er auðvitað bara skilvirkt eftirlit með flugfarþegum, þeim sem fljúga til landsins, inn til Keflavíkur. Og þá er ég að tala um bara gott eftirlit á ytri landamærum, semsagt landamæraverði þá í landamærahliðum. Og eins góð greiningarvinna hjá tollgæslu og lögreglu, sem snýr að innri landamærum, semsagt inn á Schengen-svæðið.“

„Aldrei í sögu embættisins slíkum fjölda frávísað áður“

– Nú máttu endilega leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál, Úlfar, hóf hinn þáttastjórnandinn mál sitt, – en ég man eftir umræðum hér á sínum tíma í tengslum við mótorhjólagengi og slíkt, um að það væri ekki heimild til að snúa fólki við án gruns. Er það eins og þú segir þá bara greiningarvinnan sem leiðir til þess að grunurinn er nægilega mikill til þess að lögreglan hafi heimild til að snúa fólki við á landamærunum?

Hér má ætla að spyrillinn vísi til þess er meðlimir mótorhjólaklúbbsins Hell’s Angels ferðuðust til landsins árið 2002 en var vísað frá á Landamærunum. Spurningunni um hvernig heimildum lögreglunnar til slíkra aðgerða væri háttað svaraði lögreglustjórinn ekki en útskýrði:

„Þetta virkar nú þannig að stundum er það þannig að Schengen-eftirlitskerfin geyma upplýsingar um einstaklinga sem koma á ytri landamærin. Það er þá helst þar. Og verður til þess að flugfarþegi þarf að sæta ítarlegri skoðun. Sem leiðir þá í sumum tilfellum til frávísunar. En aftur á móti ef þú horfir á innri landamærin, þar sem hefðbundið landamæraeftirlit fer ekki fram, þá byggist auðvitað okkar vinna á greiningarvinnu, semsagt, það er farið yfir farþegalista, og þar koma oft upp nöfn sem þarf að skoða betur. Og slíkir farþegar eru teknir afsíðis. Og ég myndi þá segja að bara góð eða bara frumkvæðisvinna, bara öflugt starf, tollgæslu og lögreglu á Keflavíkurvelli er að skila marktækum árangri. Sem kemur þá fram í gríðarlegum fjölda mála þar sem einstaklingum er snúið við. Við erum að tala um einstaklinga sem eiga, þeir geta átt sögu afbrota hér á landi og eins annars staðar.“

Þáttastjórnandi spurði þá: Já, þetta eru líka aðilar sem hafa ekki kannski orðið uppvísir um afbrot hér?

„Já, alveg klárlega,“ svaraði Úlfar. „Þeir þurfa, þegar við tökum einstakling í ítarlegt eftirlit, þá þarf hann að gera grein fyrir sínum ferðum. Hvað er hann að gera á Íslandi? Hver er tilgangur dvalar? Ég meina, ertu með hótelgistingu? Farmiða til baka og svo framvegis. Þá er ég að tala um þriðja ríkis borgara sem koma inn á Schengen svæðið annars staðar en á Íslandi, þannig að fyrsta stopp er ekki Ísland. Við erum að fá þessa flugfarþega í gegnum Evrópu. Og sæta síðan þessu eftirliti hér með þeirri niðurstöðu að við erum að frávísa þessum mönnum. Og aldrei, held ég, í sögu embættisins hefur slíkum fjölda verið frávísað áður. Við erum komin í 283 mál það sem af er ári. 2018 voru þetta 151 mál yfir árið. Síðan í sjálfu sér ekki söguna meir, hm?“

Ekki handteknir heldur „geymdir“

Aðspurður hvort hann teldi fleiri „með þennan bakgrunn“ nú reyna að komast til landsins en áður eða hvort greiningarvinna lögreglu sé orðin öflugri, svaraði Úlfar að hann teldi þróunina skrifast „að mestu leyti á öflugri löggæslu og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli, fyrst og síðast.“

Spurður hvernig þær manneskjur sem ákveðið er að frávísa eru meðhöndlaðar, hvort þær eru settar í varðhald, svaraði lögreglustjórinn: „Þeir fara í fæstum tilfellum í varðhald. Þeir sæta skoðun á landamærunum. Og oftast, stundum náum við að snúa mönnum við sama dag og þeir koma inn. En stundum getur þetta tekið dag, tvo, þrjá.“

– Og hvar eru þeir þá á meðan? spurði þáttastjórnandi.

„Þeir eru þá bara geymdir. Bara á biðsvæði í flugstöðvarbyggingunni. Þeir eru ekki handteknir.“

Ekki kom fram í samtalinu hvers konar heimildir lögreglan styðst við til að „geyma“ fólk án þess að handtaka það.

– En hafið þið einhverja hugmynd um eða vísbendingar um hver tilgangur ferðarinnar eða mögulegrar dvalar á Íslandi er hjá þessum einstaklingum? spurði stjórnandi.

„Hann kemur nú yfirleitt í ljós, þegar lögregla gengur að þessum mönnum. Þeir eru ýmist komnir hingað til þess að vinna svart, eins og maður talar þá um, þriðja ríkis borgarar, þeir koma hingað og taka þátt í svartri atvinnustarfsemi hér á Íslandi. Sem að ég held að sé stórt vandamál hjá okkur. Síðan eru menn hingað komnir í þjófaleiðangra eða leiðangur.“

– Viðurkenna þeir það? spurði stjórnandi þá.

„Nei, þeir viðurkenna það kannski ekki,“ svaraði lögreglustjórinn, „en það er niðurstaða okkar skoðunar.“

Að því sögðu vék Úlfar tali að þeim þá sem teknir eru fyrir innflutning fíkniefna áður en hann gerði ljóst að þau tilfelli teljast ekki til frávísunarmálanna sem hér eru til umfjöllunar:

„Vegna þess að þeir sem eru staðnir að innflutningi, þeir fara í gæsluvarðhald og þurfa síðan að taka út sinn dóm áður en þeir hverfa af landi.“

Af þessu virðist mega ráða að smyglmál séu ekki meðal þeirra 283 tilefna sem lögreglan hefur séð til að snúa fólki við á landamærunum það sem af er þessu ári. Ekkert kom fram í máli lögreglustjórans sem gefur til kynna að frávísanirnar eigi sér stað vegna framinna brota yfirleitt. Aðspurður sagðist Úlfar ekki telja að lögreglan þyrfti frekari heimildir til þessara aðgerða en hún vildi gjarnan finna fyrir meiri skilningi stjórnvalda á mikilvægi þessa starfs:

„Ég hef stundum talað um það að varnir Íslands séu á Keflavíkurflugvelli,“ sagði Úlfar, „þar sem flestir, 97, 98 prósent þeirra sem koma til landsins, fara í gegn. Þannig að mér finnst skorta skilning og umræðu á hlutverk lögreglu og tollgæslu á þessum mikilvæga stað sem völlurinn er.“

„Fyrst og fremst tollverðirnir sem sáu til þess að fólki væri ekki hleypt inn“

Í þágu skilnings og umræðu um hlutverk lögreglu og tollgæslu á þessum mikilvæga stað er ekki úr vegi að rifja upp viðtal Samstöðvarinnar við Pál Baldvin Baldvinsson fyrr á þessu ári, þar sem hann sagðist hafa rökstuddan grun um að tollverðir hefðu frá 1950 til 1980 framkvæmt eiginlega útlendingastefnu landsins með reglubundnum frávísunum á landamærunum, samkvæmt óskrifuðum reglum.

Páll Baldvin er meðal annars höfundur umfangsmikils heimildarits um síðari heimsstyrjöldina á Íslandi, Stríðsárin 1938-1945, sem kom út árið 2015 og hlaut viðurkenningu Hagþekis sama ár. Um miðjan ágúst tók Gunnar Smári Egilsson viðtal við Pál Baldvin við Rauða borðið á Samstöðinni. Í viðtalinu setti Páll framkomu íslenskra stjórnvalda við umsækjendur um alþjóðlega vernd, og þær breytingar á lögum um útlendinga sem tóku gildi nú í sumar, í samhengi við þá afstöðu íslenskra stjórnvalda í aðdraganda síðari heimsstyrjaldar að taka ekki á móti neinum Gyðingum sem hér leituðu verndar. Páll sagði meðal annars:

„Við erum í grunninn svo miklir rasistar, sko. Það er búið að innræta okkur það alveg – og er ennþá verið að segja okkur það – að við séum best í heimi. Í stórasta landinu og allt það. Og við náum heimsárangri á þessu sviði og hinu sviði, sem er bara svona þjóðrembuáróður sem að dynur á öllum. Og styrkir þá tilfinningu að hingað eigi enginn að koma. Nema hann borgi fyrir það sem túristi og sé með miða til baka.“

Um samhengi nýju laganna við skammarlega sögu landsins í síðari heimsstyrjöld sagði Páll: „Við erum náttúrlega komnir í þessa skelfilegu klemmu sem er vegna laga sem fóru í gegn með þingmeirihluta. Og við erum ennþá með sameiginleg einkenni eins og það að við viljum ekki fá fólk inn í landið og við viljum koma því út úr landinu við fyrsta tækifæri, við viljum ekki láta það fá aðstöðu til þess að vinna fyrir sér, það fær ekki atvinnuleyfi. Þannig að allir tálmarnir eru settir upp, sem voru nákvæmlega sömu tálmarnir og voru í gildi 1938.“

– Þannig að þú fékkst raunverulega ekki innkomu inn í landið? spurði Gunnar Smári.

„Nei,“ svaraði Páll.

– Og kennitalan og dvalarleyfið er lykillinn að því, þú getur ekki leigt húsnæði, þú getur ekki unnið, þú getur ekkert gert, þú getur ekki, þú ert eiginlega settur bara undir brúna, bætti Gunnar Smári við.

„Já. Það er pólitísk stefna,“ sagði Páll Baldvin.

– Sem er sú sama og var …

„Já,“ hélt Páll Baldvin áfram: „Og ég held í raun og veru – það eru ekki fáanleg gögn um það, þau eru ekki til, en eftir að Útlendingaeftirlitið, eins og það hét, Útlendingaeftirlitið, sem var einn maður sem var starfandi hjá lögreglunni í Reykjavík, þá var það þannig að það voru fyrst og fremst tollverðirnir sem sáu til þess að fólki væri ekki hleypt inn. Og einhvern tíma sá ég kvót frá eldri tollverði, þar sem hann var að fagna því að það væri nú verið að setja einhverjar hömlur á það að fólk gæti komið hingað til landsins. Þar sem hann var að blessa tollarana í Keflavík fyrir það að hafa þegjandi og hljóðalaust séð um það að þessi vandi hefði ekki komið upp og orðið opinber löngu löngu fyrr. Og þá erum við að tala um árin fyrir 1950 og alveg til 1980. Þannig að ég hef grun um það að þetta hafi verið innan stjórnkerfisins.“

– Óskrifaðar reglur? spurði Gunnar Smári til áréttingar.

„Óskrifaðar reglur,“ staðfesti Páll Baldvin. „Við hleypum ekki fólki hingað inn.“

– Nei. Og allra síst fólki sem er öðruvísi á litinn eða …

– „Já eða þú veist … bera gyðingleg nöfn. Eða eru með bogið nef.“

Vænta má að aðrar forsendur liggi til grundvallar yfirheyrslum og frávísunum við landamærin í dag en upp úr miðri 20. öld, en hverjar þær eru er á þessu stigi alfarið óupplýst.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí