Páll Baldvin Baldvinsson, leikstjóri og rithöfundur, segir að rasismi hafi ráðið miklu um íslensk stjórnvöld höfnuðu að taka á móti þýsku flóttafólki undan nasismanum í Þýskalandi fyrir og í seinna stríði. Erfitt atvinnuástand í og við lok kreppunnar miklu hafi þó spilað inn í, en öll Norðurlöndin tóku þá afstöðu að taka ekki á móti fólkinu af þeim sökum.
Páll Baldvin skrifaði um flóttafólkið í stórvirki sínu um stríðsárin og þar kemur fram að margt af því fólki sem hafnað var um vernd var drepið í útrýmingarbúðum. Það fólk sem fékk vernd átti eftir að hafa mikil áhrif á íslenskt samfélag, óvefengjanlega til góðs. Flóttafólk frá Þýskalandi byggði hér til dæmis upp tónlistarlíf, myndlistar- og tónlistarkennslu. Landsmenn eiga flóttafólkinu mikið að þakka. Aðspurður sagðist Páll Baldvin ekki muna nein dæmi þess úr Íslandssögunni að flóttafólk eða innflytjendur hafi skaðað samfélagið.
Sjá má og heyra viðtalið við Pál Baldvin í spilaranum hér að neðan. Með góðfúslegu leyfi birtum við hér tvö kafla úr Stríðsárunum um flóttafólki.
Í Stríðsárunum 1938-1945 segir frá upphafi landflótta fólks frá Þýskalandi í upphafi stríðsins. Í bókinni eru síðar rakin fjöldi dæma um flóttamenn sem hingað leituðu en var hafnað um landvist. Margt af því hverfur úr skráðum heimildum eða ferst í morðvélum nasista næstu ári.
Þýskir flóttamenn
Í byrjun árs 1938 voru landflótta Þjóðverjar farnir að sækja um dvalarleyfi á Íslandi en flóttinn frá landinu hófst fljótt eftir valdatöku nasista í kjölfar kosninga þar 1933.
Um alla Evrópu lá straumur landflótta fólks frá Þýskalandi: vestur um haf til Norður- og Suður-Ameríku, austur til Sovétríkjanna höfðu þúsundir sósíalista leitað, í Palestínu reyndi breska landstjórnin að hamla straumi gyðinga þangað undan ógn nasista. Flóttamennirnir yfirgáfu heimkynni sín slyppir og snauðir, óheimilt var að flytja fjármuni úr landi, eignir sínar skildu þeir eftir, fyrirtæki, heimili, fjármuni og persónulegar eigur.
Ernst Schickler
Ernst var fæddur í Wiesbaden 1907. Foreldrar hans fluttust til Berlínar skömmu síðar og ólst hann þar upp. Faðir hans var bankamaður en móður sína missti Ernst ungur. Hann gekk til mennta, stundaði nám í efnafræði um tíma en lagði svo fyrir sig verslunar- og skrifstofustörf. Um þær mundir sem nasistar taka völdin í Þýskalandi var faðir hans látinn, önnur systir hans starfaði við sendiráð Þýskalands í Japan en hin bjó í Berlín.
Skömmu eftir valdatökuna 1933, lenti Ernst í fangabúðum nasista, en var látinn laus aftur eftir nokkru síðar. Árið 1935 flýr hann til Danmerkur ásamt fleira flóttafólki er flest hafði hug á því að komast áfram til Ameríku. Þegar hann komst hingað 1937 ákvað hann að fara ekki lengra í bili. Á lista dómsmálaráðuneytisins yfir Þjóðverja á Íslandi er skráð að hann hafi fengið dvalarleyfi þann 16. ágúst 1937. Ernst kvænist íslenskri stúlku, Vilhelmínu Jónsdóttur, 1938. Þau hefja fyrirtækisrekstur í Reykjavík 1942.
Þau hjón fluttu til Þýskalands 1948 og hófst þá blaðamannsferill hans. Fyrst við Hamburger Abendblatt en síðar tók við starf fréttastjóra við útvarpið í Hamborg og loks fréttastjórn við svæðisútvarpið í Köln. Heimili þeirra Vilhelmínu stóð jafnan Íslendingum opið og Ernst var allt til dauðadags 1959 ákafur talsmaður Íslands í Vestur-Þýskalandi, einkum þó í þorskastríðinu þegar hann lagði sig fram um að útskýra málstað Íslands. Hann lést 1959.
Albert og Edith Daudistel
Þann 19. janúar 1938 er skráð í bækur dómsmálaráðherra dvalarleyfi fyrir Albert og Edith Daudistel, þýska flóttamenn. Þau koma hingað frá Kaupmannahöfn, þar sem þau hafa verið um hríð. Albert hafði tekist að komast frá Þýskalandi yfir tékknesku landamærin á jóladag 1935. Þá hafði hann farið huldu höfði um nokkurt skeið. Edith var þá komin til Hafnar og beið þar bónda síns.
Alfred Daudistel var fæddur í Frankfurt 1890. Hann fór ungur að heiman og lifði flökkulífi en þegar styrjöldin hófst 1914 var hann kallaður til herþjónustu. Ári síðar hvatti hann til uppreisnar í flotadeild sinni og var dæmdur í tíu ára fangelsi en var látinn laus í stríðslok. Hann tók þátt í valdatöku kommúnista í München 1919, var skipaður tilsjónarmaður pólitískra flóttamanna. Fyrir þátt sinn í uppreisninni var hann dæmdur í sex ára fangelsi og sat inni í Niedershonefeld sem pólitískur fangi. Þar fór hann að skrifa. Hann sendir frá sér nokkur verk á árunum frá 1925 til 1935 og tilheyrir hópi svokallaðra öreigaskálda. Jafnframt skrifar hann í blöð á þýska málsvæðinu undir höfundarheitinu Island. Á þessum árum binst hann vináttuböndum við ýmsa helztu rithöfunda Þýzkalands, svo sem Ernst Toller, Kurt Tucholsky og Stefan Zweig, segir Björn Franzson í minningargrein um hann.
Edith Daudistel var fædd 1909 og var af gyðingaættum. Heimildir segja að hún hafi verið leikkona. Þegar þau koma til Íslands er Albert þrotinn af kröftum. „Þau hjón höfðu gengið með blásýruhylki á sér mánuðum saman áður en þau sluppu frá Þýzkalandi og áttu ekki annað en spjarirnar sem þau stóðu í. Hópur bláfátækra manna hélt í þeim lífinu um skeið, meðan þau voru að jafna sig í ókunnu landi. Albert var farinn á taugum og náði sér aldrei, en Edith var hugrökk kona og hetja í raun,“ sagði Ólafur Jóhann Sigurðsson rithöfundur nær hálfri öld síðar.
Albert fékk ekkert útgefið eftir 1935. Hann lifði einangruðu lífi, þekkti fáa. Í frétt Morgunblaðsins 1. mars 1938 segist hann ætla að skrifa um landið í ýmis þýsk blöð í Tékkóslóvakíu – hann birtir örfá texta í íslenskum blöðum og tímaritum meðan hann lifir, en helsta verk hans skrifað á Laugavegi 55 , Der verbotene Mensch, er enn óútkomið en hvílir ásamt þremur öðrum ritverkum í safni í Frankfurt.
Edith Daudistel vann fyrir þeim meðan Albert lifði, en hann lést 1955. Eftir það kenndi hún þýsku um
áratuga skeið heima á Laugavegi 55, en hún lést 1974. Þau hvíla saman í duftgarðinum í Fossvogi.
Paul og Bertha Künder
Paul Künder kom til Íslands í september 1937 en hann hafði sætt fangavist í þrígang áður en hann flúði frá Hamborg. Hafði fjölskylda hans þar í borg verið kunnir jafnaðarmenn og nýtti Künder sér sambönd við danska krata til að komast til Hafnar og þaðan til Íslands. Hér á landi vann hann sem iðnverkamaður hjá Svan hf. Kona hans, Bertha Künder, kom ekki til landsins fyrr en 25. september 1939 með Gullfossi frá Kaupmannahöfn.
Hann er kosinn á Alþýðusambandsþing 1940 fyrir Iðju, félag iðnverkafólks. Paul var sagður í hópi þeirri ungu Þjóðverja sem sýndu yfirlýsta andstöðu við þá landa sína sem voru sagðir hallir undir þýsk yfirvöld. Künder var sviptur ríkisborgararétti við brottför sína frá Þýskalandi eins og margir landflótta landar hans.
Paul og Bertha Künder dvöldu hér öll stríðsárin en sigldu til Antwerpen með Brúarfossi seint í nóvember 1946. Paul Kunder lést 1969 en dánardægur hennar er óþekkt.
Hjörtur Haraldsson
Heinz Karl Friedlaender fæddist í Berlín 1914. Faðir hans var sjóliðsforingi og féll í frægri orrustu á herskipinu Pommern í fyrra stríði. Ólust Heinz og bróðir hans upp við hörð kjör í Prenzlauer Berg í Berlín. Eftir barnaskóla gekk Heinz í verslunarskóla og lauk þaðan námi. Danskur kennari við skólann útvegaði Heinz vinnu í Danmörku við landbúnaðarstörf. Þegar dvalarleyfi hans rann út óskaði Heinz eftir viðtali við forsætisráðherrann, Thorvald Stauning, sem vísaði honum á dómsmálaráðherrann C.Th. Zahle. Zahle veitti honum framlengingu á dvalarleyfinu, svo hann gæti fundið lausn á sínum málum. Heinz hafði kynnst Fritz Nathan, sem var annar eigenda Nathan og Olsen, verslunarfyrirtækis í Reykjavík. Fyrir hans tilstilli keypti Heinz farseðil til Reykjavíkur með Brúarfossi í ágúst 1935. Hann leitaði til Timmermans, ræðismanns Þjóðverja, sem ráðlagði honum að láta sem minnst fyrir sér fara. Þá væri von til að Íslendingar létu hann í friði.
Bjarni Jónsson frá Galtafelli hafði útvegað honum starf hjá Sigurði Fjeldsted í Ferjukoti í október 1935 og vann Heinz næstu fimm ár á ýmsum stöðum í Borgarfirði: á Svignaskarði, Einarsnesi og að Hamri. Hann fór til Reykjavíkur 9. maí 1940. Daginn eftir hernámu Bretar Ísland og aðfaranótt 11. maí var hann handtekinn, yfirheyrður og – látinn laus. Hann vann á Blikastöðum og Reykjum í Mosfellssveit, en var ár í vinnu við vegagerð frá Hafravatni að Geithálsi. Heinz tók vélstjórapróf í Reykjavík 1943, starfaði í vélsmiðjunni Héðni árin 1941–1950 og hjá Landhelgisgæslunni til ársins 1953. Heinz var líka á síld og hákarlaveiðum. Hann starfaði við byggingu Ljósafossvirkjunar og hjá Kristni vagnasmið, en lengst sem vélstjóri hjá þvottahúsi Adolf Smith að Bergstaðastræti 52 og síðar hjá Fönn og Grýtu.
Hann kvæntist Sigrúnu Haraldsdóttur frá Kolfreyjustað árið 1945. Heinz sótti um ríkisborgararétt á Íslandi margsinnis og fékk – eftir fjórtán ára baráttu og tók þá upp nýtt nafn: Hjörtur Haraldsson. Hann lést 2008 frá stórum hópi afkomenda.
„… aðalreglan á að vera sú, að útlendingar fái alls ekki leyfi til að setjast hér að, nema alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi.“ Dómsmálaráðherra til lögreglustjórans í Reykjavík 8. ágúst 1938
Á fundi bæjarstjórnar Reykjavíkur þann 8. mars 1933 var samþykkt áskorun til atvinnurekenda „hjer í bæ, að taka ekki utanbæjarmenn í vinnu, meðan nógur vinnukraftur er hjer fyrir. Í sambandi við þetta aðvarar borgarstjóri utanbæjarmenn að þeir skuli ekki koma hingað í atvinnuleit, því að hjer sje ekki, sem stendur, um meiri atvinnu að ræða en bæjarbúar komast sjálfir yfir.“ Birtist hún í blöðum. Ofar á síðunni auglýsti Ernst Prüller að hann hafi ákveðið að halda námskeið í leður- og teppavinnu.
Ernst Prüller
Þá um haustið helt Prüller þriggja vikna námskeið í Austurbæjarskólanum fyrir 43 kennara í leðurvinnu ásamt þýskri konu, Gustel Weiman handavinnukennara í nýstofnuðum gagnfræðaskóla á Ísafirði,: „Sú var meginregla í kenslunni, að ekkert af þessum verkum væri gert sem stæling á öðru, heldur reynt að sjá og læra af náttúrunni og skapa gerðir („munstur“) og litbrigði eftir eigin íhugun,“ segir í frétt Alþýðublaðsins. Lúðvík Guðmundsson skólastjóri Gagnfræðaskólans á Ísafirði stóð fyrir námskeiðinu, en hann hafði fengið Gustel hingað til lands haustið 1931 til kennslu fyrir vestan.
Fáum dögum síðar birta blöðin fréttir af því að Prüller og Ríkarður Jónsson myndskeri bjóði upp á
framhaldsnámskeið fyrir þann hóp sem sótti námskeið Lúðvíks og aðra „um meðferð á sútuðum sauðskinnum. Á þar að kenna mönnum að búa til ýmsa gripi úr skinnunum, svo sem handtöskur, skrifmöppur, handska og margt fleira.“ Er Prüller kallaður læknanemi í Alþýðublaðinu og sagt að hér sé kominn vísir að heimilisiðnaði sem geti orðið að söluvöru fyrir ferðamenn. Efndu þeir Ríkarður til sýningar á leðurgripum frá námskeiðinu í glugga á Verslun Haraldar Árnasonar fyrir jólin, en þar voru tíðum opinberar sýningar á forvitnilegum nýjungum í listiðnaði og verslun.
Í ársbyrjun 1933 auglýsir Prüller námskeið í teppahnýtingum í Reykjavík. Hann vann næstu misserin á vinnustofu Ríkarðs Jónssonar sem rak umsvifamikla framleiðslu á tréskurðargripum, og hætti námskeiðahaldi. Samstarfskona hans, Gunstel Weiman, kenndi á Ísafirði til 1939: ól þar barn og var faðirinn Hannibal Valdimarsson. Var drengurinn skírður Ísleifur. Fóru þau af landi brott vorið 1939, en áður hafði Gunstelnn látið taka saman ættartölu Hannibals aftur í fjórða lið til að sýna yfirvöldum í Þýskalandi ef á þyrfti að halda. Ernst Prüller var vísað úr landi í mars 1937 og eru afdrif hans ókunn.
Wilhelm Beckmann
Sumarið 1935 voru ráðamenn í Þýskalandi búnir að herða svo tökin á félagshreyfingum í landinu að
jafnaðarmönnum og kommúnistum var hvergi vært, þúsundir manna voru hnepptar í fangabúðir víða um ríkið og landflótti var eina bjargráð þúsunda.
Ernst Wilhelm Beckman hét ungur tréskurðarmaður, fæddur 1909 í Hamborg og ólst þar upp. Hann stundaði nám í framsæknum barna- og unglingaskóla í Sallerstræti í borginni og síðan nám hjá Peter Olde, kunnum tréskurðarmeistara til 1927. Þá setti hann á stofn eigin vinnustofu og kenndi jafnframt við Listaháskóla Hamborgar. Beckman var af fjölskyldu jafnaðarmanna, faðir hans sat í borgarráði fyrir flokkinn sem var ráðandi í Hamborg en nasistar höfðu alla tíð illan bifur á Hamborgarbúum. Urðu átök þar hatrömm milli nasista og jafnaðarmanna. Faðir hans og Georg, bróðir hans, voru teknir til fanga af Hitlersstjórninni og þá þorði Beckmann ekki að vera lengur í Þýzkalandi en fór til Kaupmannahafnar og var þar í eitt ár hjá frændfólki og stundaði nám við Listaakademíuna. Þaðan tók hann far með Brúarfossi til Íslands í sumarbyrjun 1935.
Wilhelm svaf fyrstu nóttina á Arnarhóli en fór snemma morguns á skrifstofu Alþýðuflokksins og hitti Stefán Jóhann Stefánsson. Hann var kominn í skjól hjá Alþýðuflokksmönnum í Reykjavík. Hann réðist til starfa hjá Ríkarði Jónssyni og var það upphaf að löngum ferli hans á Íslandi við tréskurð.
Alfred Kempner
Sama sumarið og Wilhelm Beckman flýr til Íslands kemur hingað upp landi hans, Alfred Kempner. Hann var frá Leipzig, fæddur 1914. Foreldrar hans ráku verslun og voru gyðingatrúar. Sonur þeirra stundaði verslunarnám en ákvað 1933 að flýja land. Lá leið hans til Kaupmannahafnar þar sem móðurbróðir hans hafði um árabil rekið verslunarfyrirtæki og hugðist Kempner fá vinnu hjá honum, en þá voru komin í gildi lög sem bönnuðu útlendingum vinnu ef starfið væri tekið frá heimamönnum. Hraktist Alfred því til Borgundarhólms þar sem hann vann við landbúnað hjá bónda sem gat sýnt fram á að enginn annar væri um starfið.
Alfred sótti um að komast til Palestínu en er ekki talinn hafa heilsu til ferðarinnar, en bresk yfirvöld beittu gjarnan þeirri aðferð til að losa sig við innflytjendur til Palestínu þangað sem gyðingar flykktust víða að úr
Evrópu um þær mundir. Alfred fer því til Íslands með Drottning Alexandrine og stígur á land í Reykjavík 2. maí 1935. Hann kemst í vinnumennsku og líkar bærilega þótt launin þyki honum lág. Peningasendingar fær hann frá móðurbróður sínum í Höfn, en í ársbyrjun 1938 er hann án vinnu og kominn til Reykjavíkur á ný. Hann reynir að ná sér í nemendur í þýsku, en kemst í vanskil með húsaleigu, fær vinnu í apríl en lögreglu er vísað á hann vegna skulda. Hann á fyrir fari til Bergen og siglir með Lyru sem kemur til Bergen 10. maí. Þar er hann leiddur fyrir lögregluvarðstjóra tveim dögum síðar sem sendir hann umsvifalaust til baka með Lyru. Þann 19. maí er Alfred leiddur fyrir lögreglustjórann í Reykjavík sem vísar honum úr landi á grundvelli laga nr. 59 frá 1936 sem bönnuðu ferðir til Íslands án leyfis yfirvalda.
Alfred greindi lögreglunni í Reykjavík frá því að hann ætti skyldmenni í Kaupmannahöfn og þangað er hann sendur á ábyrgð skipstjórans á Brúarfossi. Orðsending útlendingaeftirlitsins á Íslandi með þessum landflótta gyðingi var á þess leið: „Ef hann fær ekki landvistarleyfi í Danmörku, leyfi ég mér að fara fram á að lögreglan taki framsendingu hans til Þýskalands að sér. Kostnaður vegna þess mun verða greiddur héðan.“ Undruðust yfirvöld í Kaupmannahöfn þessa framkomu og bókfærðu í gögn sín svohljóðandi athugasemd: „Það ætti að vera ástæða til ávirðingar, að þannig brottvikningar séu viðhafðar af Íslendinga hálfu án samþykkis danskra yfirvalda.“ Sögu Alfreðs var ekki lokið þótt hann fengi tímabundið skjól í Danmörku.
Albert og Fanny Klahn
Í Alþýðublaðinu birtist frétt þann 30. apríl 1936: „Hótel Borg hefir ráðið nýjan hljómsveitarstjóra til sín, Albert Klahn frá Hamborg, sem stjórnar eftirmiðdagshljómleikunum í sumar. A. Klahn stundaði nám á tónlistarskólanum í Souderhausen, sem þá var þektur músikbær og furstasetur í Türingen og varð A. Klahn áður en náminu lauk meðlimur í hirðhljómsveitinni þar. Síðan hefir hann ferðast í þýzkum hljómsveitum víðsvegar um heim, fyrst til Norðurlanda og svo til Indlands, Indokína, Java, Sumatra, Japan, Mansjúríu og fleiri staða í Austurlöndum. Síðan bæði í Suður- og Norður-Ameríku. Eftir heimsstyrjöldina var Klahn hljómsveitarstjóri hjá kvikmyndafélaginu Ufa í Hamborg í 10 ár. Í hinni nýju hljómsveit verða bæði Íslendingar og útlendingar, og verður spilað á þessi hljóðfæri: Píanó, Orgel, 3 Fiðlur, Cello, Bassa og Bumbu.“
Albert var fæddur 10. ágúst 1885 og hóf feril sinn átta ára gamall í hljómsveit föður síns. Hinn langi ferill hans á ferðalögum skýrist af því að hann gekk í flotann og fór víða á hans vegum sem hljóðfæraleikari. Hann gegndi herþjónustu í styrjöldinni 1914–18, en hóf að henni lokinni störf í Hamborg. Þar kynntist hann Þórhalli Árnasyni sellóleikara 1923 sem fór að starfa í hljómsveit hans 1925. Þegar undirleik við kvikmyndir var hætt 1931 réðist Klahn á skemmtiferðaskip sem hljómsveitarstjóri. Hann var ákafur andstæðingur nasista og ætlaði að flýja til Brasilíu 1936 en fyrir orð Þórhalls ákvað hann að fara til Íslands.
Þau Fanny Kartz gengu í hjónaband 1930 og var hún önnur eiginkona hans. Þá átti hann vanheila dóttur af fyrra hjónabandi sem var á hæli á Long Island í New York. Fanny var ári yngri en eiginmaður sinn, hún var líka menntuð tónlistarkona og starfaði með honum við undirleik. Þau hjón tóku þegar til starfa á Hótel Íslandi. Áður en langt leið tók Klahn við stjórn Lúðrasveitar Reykjavíkur, vann við útsetningar og kennslu. Hann hlýddi ekki herskylduboði 1938 og átti ekki afturkvæmt til föðurlands síns eftir það.
Kurt Sonnenfelt
Kurt flúði til Íslands frá Þýskalandi í ágúst 1935. Hann var fæddur 1909 í Köln en ólst upp í Berlín. Þar lauk hann prófi í tannlækningum en í skólanum var nemendum af gyðingaættum fyrirskipað að halda sig frá öðrum nemendum. Sökum þess að faðir hans var af gyðingaættum gat hann ekki fengið vinnu í Þýskalandi. Hann ætlaði til Tyrklands en svo æxlaðist að hann fór til Danmerkur í vinnuleit. Starfsleyfi fékk hann ekki sem tannlæknir, en hjá heildsölufyrirtæki með tannheilsuvörur frétti hann af skorti á tannlæknum á Íslandi, skrifaði Jóni Benediktssyni tannlækni bréf og falaðist eftir vinnu, vissi ekki að Jón var þá í Höfn.
Kurt keypti sér far til Íslands upp á von og óvon með 50 krónur danskar í vasanum með Brúarfossi sem kom til Reykjavíkur 30. ágúst 1935. Fimm dögum síðar hittust þeir Jón og Kurt fékk starfsleyfi. Þeir unnu saman á stofu í fimm ár.
Hann fór í stutta heimsókn til Þýskalands skömmu síðar en var varaður við af Gestapo-manni á ferjunni þegar hann viðurkenndi að hann væri gyðingur og var ráðlagt að fara frá borði. Eiginkonu sinni, Elísabetu Ulrich, kynntist Kurt á Skíðaskálunum í Hveradölum 1937. Hún var þýsk, hafði dvalið hér frá 1930 við vinnu, fyrst á ljósmyndastofu Lofts Guðmundssonar. Þau gengu í hjónaband 2. september 1939. Þá um nóttina hófst innrásin í Pólland.
Hans Rottberger og fjölskylda
Hans Rottberger var Berlínarbúi og gyðingur, fæddur 1903. Hann var kvæntur og rak lítið útvarpsverkstæði, en eftir kæru samkeppnisaðila og ógnanir flúði hann um Kaupmannahöfn til Íslands í september 1935. Í desember leggur Olga upp frá Berlín með tveggja mánaða gamla dóttur þeirra, Evu, til Hamborgar og komu þær mæðgur til Reykjavíkur með Goðafossi skömmu fyrir jól. Fjölskyldan bjó á Hjálpræðishernum. Hans hóf framleiðslu á leðurvörum um leið og hann kom til Íslands. Hann var þá í sambandi við Atla Ólafsson hjá Leðuriðjunni og naut ráða hans við framleiðsluna. Þá lagði hann á sig mikla vinnu við að læra íslensku með setum á Landsbókasafninu. Vorið 1936 fluttist fjölskyldan á Holtsgötu 12. Þeim fæddist drengur þá um haustið og í október komu bróðir Olgu, Heinz Mann, og móðir þeirra, Helena Lea Mann, til landsins. Heinz fór að vinna hjá á búinu hjá Geir í Eskihlíð í Reykjavík og er skráður þar til heimilis.
Hans auglýsti verslun sína og verkstæði frá því haustið 1937 til apríl 1938. Iðnrekstur þeirra var í samkeppni við Leðuriðju Atla Ólafssonar og í desember 1936 gerir Iðnráð skriflega athugasemd til yfirvalda. Í febrúar 1937 kvartar Atli Ólafsson til lögreglunnar. Í mars er Ernst Prüller vísað úr landi, Wilhelm Beckman fær framlengt dvalarleyfi fyrir bænarstað Jóns Axels Péturssonar, en þá þegar var Beckman farinn að starfa með Alþýðuflokknum. Hans tilkynnir fæðingu sonar sín í beiðni um framlengt dvalarleyfi 18. júní sem hann skrifar sjálfur á íslensku – en fær synjun.
Rottberger-fjölskyldan og allir sem fylgdust með vissu að hér var um líf og dauða að tefla. Haustið 1937 á að flytja fólkið úr landi með tilskipun en Hans fær 19 daga frest til að ganga frá sínum málum. Þau fara hvergi. Yfirvöld kvarta sín á milli yfir óhlýðni þessa manns. Hans snýr sér til danska ræðismannsins og biður um hjálp. Svo vel vill til að fulltrúinn, C A.C. Brun, á von að hitta Hermann Jónasson í kvöldverðarboði og yfir koníakinu samþykkir forsætisráðherrann að júðinn fá frest til vors.
Það er svo í apríl að látið er til skarar skríða. Verkstæðinu er lokað og hjónin flutt með lögreglufylgd í Herkastalann með börnin tvö, eins og tveggja ára. Við bryggju í Reykjavík beið Brúarfoss farþega og þangað er Rottberger-hjónin flutt með börnin í lögreglufylgd þann 26. apríl. En skipið lætur ekki úr höfn sökum verkfalls yfirmanna: „Fjöldi manna safnaðist saman á hafnarbakkanum í gærkvöldi skömmu áður en skipið átti að fara, til að kveðja kunningja og vini. Það vakti athygli, að kl. 10 var ekki hringt til brottferðar eins og venja er til (eimpípan er ekki notuð eftir kl. 10), en kl. 11 var hringt skipsklukkunni og bjuggust þá allir við að skipið myndi fara, en klukkan rúmlega 11 var farþegunum tilkynt, að brottferð skipsins yrði frestað og mun sú tilkynning hafa komið æði flatt upp á marga,“ segir í Morgunblaðinu. Fjölskyldan er flutt aftur í gæsluvist í Herkastalanum.
Verkfalli lauk með lagasetningu og lagði Brúarfoss úr höfn með Hans, Olgu og börnin tvö þann 6. maí. Heinz og Helene Leu Mann var veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum vegna heilsubrests hennar. Hún bar hér beinin, en Heinz ílentist hér á samfelldum framlengingum dvalarleyfa – til 1970. Þrautagöngu systur hans og fjölskyldu var ekki lokið. Með þeim fór beiðni til danskra yfirvalda um dvalarleyfi í Danmörku, en yfirvöld voru þess meðvituð að fengist það ekki yrðu þau send aftur til Þýskalands.