Námsfólk gerir hústöku í Helsinki-háskóla og finnsk stéttarfélög boða verkföll

Fyrir þremur vikum síðan hófust mótmæli stúdenta við Helsinki háskóla. Nemendurnir gerðu hústöku í aðalbyggingu háskólans, sem stendur enn. Mótmælin beinast gegn áformum stjórnvalda um niðurskurð námsstyrkja og húsnæðisúrræða fyrir námsfólk. Nái áform stjórnvalda fram á ganga mun framfærsla hvers námsmanns skerðast um €1.300 á mánuði eða um 188.000 krónur, á næstu fjórum árum. Nemendurnir mótmæla einnig stefnubreytingu í útlendingamálum sem mótmælendur segja að muni mismuna alþjóðlegum nemendum. Starfsfólk háskólans hefur lýst yfir stuðningi við mótmæli nemendanna, og rektor háskólans, Sari Lindblom, heimsótti mótmælin á fyrsta degi, 19. september, til að sýna mótmælendum stuðning.

Skipuleggjendur segja mótmælin hafa breiðst út eins og „eldur um sinu“ til annarra háskóla í landinu.

Í umfjöllun EuroNews kemur fram að hægriflokkarnir hafi náð meirihluta í kosningum út á loforð um að draga úr lántökum ríkisins og hemja það sem þeir kölluðu ótamin útgjöld ríkisstjórnar fyrrverandi forsætisráðherra, Sönnu Marin. Hins vegar hafi stjórnin nú þegar rofið 10 milljarða evra þakið sem hún setti sér á lántökur, safni skuldum með sama hraða og fyrri stjórn, munurinn sé aðeins sá að nú rati féð ekki í almannaþjónustu.

Verkföll að hefjast

„Ég held að við þurfum að fara aftur á tíunda áratuginn til að sjá nokkra viðlíka ríkisstjórn,“ hefur miðillinn eftir Jarkko Eloranta, forseta regnhlífarsamtaka finnskra stéttarfélaga, SAK, um núverandi ríkisstjórn Petteris Orpo. „Þetta eru ekki aðhaldssöm fjárlög, sem ríkisstjórnin hefur kynnt, því þau veita efnaðasta fólkinu skattaafslátt, lækka til dæmis skatta á fólk með yfir 80 þúsund evrur í árstekjur“ – sem jafngildir um 970.000 íslenskum krónum á mánuði. „Þetta er öfug Hróa hattar-stjórn, sem tekur frá þeim fátæku og gefur þeim ríku. Í þeim skilningi eru þetta aðeins aðhaldssöm fjárlög fyrir lágtekjufólk.“

SAK hafa boðað til þriggja vikna hnitmiðaðra verkfallsaðgerða í ólíkum geirum og á ýmsum stöðum í landinu. „Auðvitað erum við með önnur áform ef staðan breytist ekki og ég er nokkuð viss um að stjórnin hörfar ekki undan því sem við erum nú að gera,“ segir Eloranta.

Fjármálaráðherra þessarar ríkisstjórnar, Riikka Purra, er leiðtogi öfga-hægriflokksins Finnar (áður Sannir Finnar). Purra hefur neitað að ræða við fulltrúa stéttarfélaganna síðan hann tók við embætti í júní. „Stjórnvöld segjast vera að hlusta,“ segir Eloranta, „en það eru engar raunverulegar viðræður, engin samningagerð, þau eru bara að hrinda í framkvæmd sínum eigin stefnumiðum.“

Heimild: Euronews.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí