„Nú gengur þeim ótrúlega vel. Og vitið þið hvað? Ykkur ætti að ganga ótrúlega vel líka“ – sagði Biden við verkfallsfólk

Joe Biden Bandaríkjaforseti heimsótti á þriðjudag í síðustu viku verkfallsvörslu verkafólks í bandarískum bílaiðnaði og hvatti þau til dáða. „Þið björguðuð bílaiðnaðinum“ sagið hann í gjallarhorn á samkomunni. „Þið færðuð margar fórnir. Þið lögðuð margt á ykkur þegar fyrirtækin voru í vanda. Nú gengur þeim ótrúlega vel. Og vitið þið hvað? Ykkur ætti að ganga ótrúlega vel líka.“ Í umfjöllun CNN er þessi heimsókn forsetans í verkfallsaðgerðum sögð án fordæmis.

Verkfall stéttarfélagsins UAW, fjölmennasta stéttarfélagsins í bandarískum bílaiðnaði, er þegar sögulegt, en það er í fyrsta sinn sem starfsfólk hefur fellt niður störf innan allra þriggja bílaframleiðendanna sem meðlimir félagsins starfa hjá: General Motors, Frod og Stellantis Jeep (áður Fiat Chrysler). Verkfallið hófst þann 15. september 2023. Þegar þetta er skrifað, fimmtudaginn 5. október, hefur það staðið í 20 daga.

Stéttarfélögin hnykla vöðvana

Bandarísk stéttarfélög hafa staðið í fjölda víðtækra verkfallsaðgerða á þessu ári: í kvikmyndaiðnaðinum, heilbrigðisgeiranum, og bílaiðnaði, meðal annars. Í umfjöllun CNN er rætt við Art Wheaton, formann verkalýðsrannsókna við Cornell háskóla í Buffalo, New York, sem segir þetta hafa verið gott ár fyrir stéttarfélögin. „Maður hefur séð margar árangurssögur og það verður styrkur á leiðinni framundan. Ég gef þeim B+. Ekki A.“ Fréttamaður CNN orðar það svo að bandarísk stéttarfélög séu að hnykla vöðvana með hætti sem þau hafi ekki gert áratugum saman, ef nokkurn tíma. Verkfallsaðgerðir með fleiri en 100 þátttakendum sem hafa varað lengur en viku hafa alls verið 56 á fyrstu níu mánuðum þessa árs. Það er 65 prósenta fjölgun slíkra aðgerða frá sama tíma á síðasta ári.

Í Bandaríkjunum tilheyra aðeins 6 prósent launafólks stéttarfélagi, og það er ekki ofmælt að rekstraraðilar leggja sig með ýmsum hætti fram um að vinna gegn því að starfsfólk þeirra gangi í stéttarfélög. í umfjöllun CNN er minnst á kaffihúsakeðjuna Starbucks: starfsfólk hennar hefur kosið með stofnun stéttarfélags en ekki enn náð sínum fyrstu sameiginlegu samningum. Þau hafa beitt eins dags verkfallsaðgerðum í sinni baráttu. Ef verkfallsaðgerðir á þeim sviðum þar sem stéttarfélög hafa ekki haslað sér völl eða eru í mótun, eru taldar með, þá hafa verið framkvæmdar 396 verkfallsaðgerðir í Bandaríkjunum undanliðna 12 mánuði.

Stuðningur almennings fer vaxandi

Þá kemur fram að baráttan nú sé þegar að skila árangri, líka á sviðum þar sem ekki kemur til verkfallsaðgerða: þannig hafi óttinn við verkfall sem stéttafélagið Teamsters hafði boðað til meðal 340 þúsund starfsmanna póstþjónustunnar UPS leitt til þess að stjórnendur fyrirtækisins hafi fallist á flestar kröfur þeirra, þar á meðal verulegar launahækkanir fólks í hlutastörfum, sem eru meginþorri meðlima félagsins. Sama megi segja um 22 þúsund meðlimi stéttarfélagsins International Longshore and Warehouse Union, starfsfólks við 29 hafnir á vesturströnd Bandaríkjanna, sem hafi náð fram 32 prósenta launahækkunum til næstu sex ára með nýjum samningi nú í sumar.

Kannanir sýna að stéttarfélögin og verkfallsaðgerðirnar njóta umtalsverðs stuðnings meðal bandarísks almennings: Árið 2009 sýndu kannanir að um 25 prósent Bandaríkjamanna var hlynntur eflingu stéttarfélaganna. Nú mælist sá stuðningur um 43 prósent.

Heimild: CNN.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí