75 þúsund fella niður störf og hefja stærsta verkfall í sögu heilbrigðisstarfsfólks í Bandaríkjunum

Í dag, miðvikudag, gengu 75.000 starfsmenn Kaiser Permanente (KP), eins stærsta fyrirtækis Bandaríkjanna í heilbrigðisþjónustu, út af vinnustöðum sínum og hófu þar með stærsta verkfall í sögu heilbrigðisstarfsfólks í Bandaríkjunum.

Verkfallið bætist þannig í hrinu stórra og jafnvel sögulegra verkfalla í Bandaríkjunum á þessu ári, allt frá starfsfólki í kvikmyndaiðnaðinum, bæði leikurum og höfundum, til starfsfólks stærstu bílaframleiðenda landsins.

Undirmönnun, álag og kulnun

Þáttakendur í verkfallinu eru meðal annars hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk í hjúkrun og umönnun, lyfjafræðingar, sjónfræðingar og skrifstofustarfsfólk. Þau tilheyra alls átta stéttarfélögum, sem stilltu saman strengi sína í aðgerðunum. Alls tilheyra 40 prósent starfsfólks KP þessum félögum. Stærst félaganna er SEIU-UHW: Service Employees International Union, National Union of Healthcare Workers. Verkfallið nær til fylkja bæði á vesturströnd Bandaríkjanna, austurströndinni og til miðríkjanna, og eru víðtækust í Kaliforníu, þar sem yfir 68 þúsund þátttakenda í verkfallinu búa og starfa.

Myndefni úr yfirstandandi kjarabaráttu stéttarfélagsins SEIU-UHW.

Stéttarfélögin krefjast í sameiningu 6,5 prósenta launahækkana fyrir alla meðlimi þeirra á fyrstu tveimur árum nýs samnings og 5,75 prósenta hækkun næstu tvö ár eftir það. Verkfallið snýst þó um fleira. Fulltrúar starfsfólks segja að skortur á starfsfólki hafi leitt til of mikils vinnuálags og kulnunar, og krefjast þess að vinnuveitandinn leggi fram áætlun um viðureign við þá stöðu, áætlun um varnir gegn útvistun starfa og lengri fyrirvara þegar fólk í fjarvinnu er kallað aftur á starfsstöð.

Virkilega verið að kreista starfsfólk

„Það er virkilega verið að kreista starfsfólk núna,“ sagði Renee Saldana, talsmaður SEIU-UHW, í viðtali við CNN. „Það gekk í gegnum verstu heilbrigðiskrísu heillar kynslóðar, komst í gegnum hana, og standa þá frammi fyrir áhyggjum af leigu, af því að missa húsnæði, að þurfa að búa í bílunum sínum.“

Í nýlegri yfirlýsingu sagðist KP hafa fallist á að flýta ráðningum og sett sér það markmið að ráða tíu þúsund nýja starfsmenn á þau svið sem meðlimir stéttarfélaganna starfa við fyrir árslok.

Verkfallið hófst klukkan 6 í morgun. Viðræður stéttarfélaganna og KP halda áfram í dag, miðvikudag. Verkfallsaðgerðin er tímabundin, starfsfólkið fyrirhugar að snúa aftur til starfa laugardaginn 7. október. Ef ekki nást samningar fyrir nóvember er hins vegar lengri og víðtækari verkfallsaðgerð fyrirhuguð, samkvæmt fulltrúum SEIU-UHW, stærsta stéttarfélagsins að baki aðgerðunum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí